Volker Türk, framkvæmdastjóri mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna hvetur bresku ríkisstjórnina til að endurskoða áætlanir sínar um að senda hælisleitendur til Rúanda. Hann minnir á að útvistun á fólki á flótta hafi áður verið reynd og hafi endað með „mjög ómanneskjulegri“ meðferð á flóttafólki.
Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt að áformin séu byggð á „heilbrigðri skynsemi“ en Türk hafnar því alfarið og segir að fyrirætlanirnar séu hæpnar bæði lagalega og siðferðislega. Þá séu þær rándýrar og muni að auki ólíklega skila þeim árangri sem stjórnvöld stefna að sem er að fækka ferðum fólks í leit að hæli yfir Ermarsundið. Frá því að áætlanir um að senda bróðurpartinn af hælisleitendum sem koma til Bretlands beinustu leið upp í flugvél og til Rúanda, þar sem þeir geta sótt um hæli eða beðið niðurstöðu í hælisumsókn í Bretlandi, hefur fólki sem fer á bátum yfir Ermarsundið til Bretlands í leit að betra lífi haldið áfram að fjölga. Það er einmitt þveröfugt við það sem ríkisstjórnin hélt fram að myndi gerast.
Bresk stjórnvöld hafa gert 140 milljóna punda samning við Rúanda um að taka við flóttafólkinu. Hins vegar hafa stjórnvöld í Rúanda nú sagt að þau geti í augnablikinu tekið við um 200 manneskjum frá Bretlandi en það er innan við 0,5 prósent af þeim fjölda sem komið hefur til Bretlandseyja yfir Ermarsundið það sem af er ári.
„Þú getur ekki útvistað ábyrgð þinni til annars ríkis líkt og bresk stjórnvöld hyggjast gera,“ segir Türk í samtali við The Guardian. „Þetta vekur alvarlegar áhyggjur – bæði út frá alþjóðlegum mannréttindalögum og alþjóðlegum lögum um fólk á flótta.“ Hann hvetur stjórnvöld í Bretlandi til að endurskoða ákvörðun sína.
Sagan
Eitt leiðarstef í kynningu breskra stjórnvalda á áformum sínum hefur verið að ítreka að tilgangur sé að fást við smyglarana sem koma fólkinu til Bretlands, oft á litlum og hættulegum bátum.
Türk bendir hins vegar á að hægt sé að fara aðrar leiðir í baráttunni gegn smyglurunum en að flytja hælisleitendurna inn í miðja Afríku því slíkt tryggi ekki réttindi og vernd fólks á flótta. Líklegra sé að þessi markmið aðgerðanna eigi hreinlega eftir að mistakast. Að smyglararnir eigi áfram eftir að starfa og fólk eigi áfram eftir að neyðast til að þiggja aðstoð þeirra. Að senda fólk í viðkvæmri stöðu svo til Rúanda er ekki vænlegt til árangurs. „Því sagan sannar það,“ segir hann og bendir á hvað Ástralar reyndu að gera með því að senda hælisleitendur í flóttamannabúðir á eyjur – allt til að letja aðra til að leita hælis. Á eyjunum voru mannréttindabrot daglegt brauð og að lokum dæmdi hæstiréttur Ástralíu þessa útvistun stjórnvalda ólöglega.
„Framkoma í garð hælisleitenda á eyjunum Nauru og Manus var mjög, mjög ómanneskjuleg,“ segir Türk.
Í sumar stóð til að senda fyrsta hópinn frá Bretlandi og til Rúanda. Fólk var komið um borð í flugvélina þegar dómstólar gripu inn í og kyrrsettu hana. Látið var svo reyna á lögmæti þess að flytja fólkið úr landi fyrir dómstólum. Og niðurstaðan er sú að aðgerðirnar standist lög. Þar með er ekki víst að af þeim verði því niðurstöðu lægra dómsstigs hefur verið áfrýjað.