Fáni suðurríkja Bandaríkjanna mun ekki blakta við hún á opinberum byggingum í Suður-Karólínu lengur eftir að ríkisþingið kaus um fánan í gær. Þrettán klukkustunda langri umræðu lauk með atkvæðagreiðslu þar sem 93 kusu fánan burt en 27 vildu halda honum við hún.
Um mánuður er síðan níu svartir kirkjugestir voru skotnir til bana í Charleston í Suður-Karólínu. Morðin vöktu eðlilega hörð viðbrögð og hafa beint athyglinni enn frekar að kynþáttafordómum sem eru enn ríkjandi vestanhafs, ekki síst í syrði ríkjum Bandaríkjanna. Þar hefur fáni Suðurríkjanna enn sess á við þjóðfána ríkjanna.
Suðurríkin var sérstakt sambandsríki syðstu ríkjanna í Bandaríkjunum á árunum 1861 til 1865 eða þar til borgarastríðinu í Norður-Ameríku lauk með sigri Bandaríkjanna í norðri. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er áhugaverð í sögulegu ljósi því Suður-Karólína var fyrsta ríkið til að segja sig úr sambandi við Bandaríkin árið 1860, vegna fyrirhugaðra lagabreytinga um þrælahald sem höfðu mikil áhrif á landbúnað syðstu ríkjanna sem reiddu sig á þrælahald.
Dæmi eru um að fáninn fái jafn mikla vernd í lögum og þjóðfáni Bandaríkjanna fyrir vanvirðingu. Í Flórída, Georgíu, Louisiana, Mississippi og Suður-Karólínu viðurkenna fánan á sama hátt og þjóðfána sinn.
Landamæri ríkjanna sem mynduðu Suðurríkin í dag
Rök andstæðinganna 27 sem kusu gegn því að fáninn yrði tekinn niður segja rasista hafa gert tákn hans að sínum og þannig rænt fánanum. Fáninn væri í raun jafngildi ættargrips sem hefur gengið í erfðir.
Mike Pitts, repúblikani, sagðist minnast fána Suðurríkjanna sem tákni þeirra fátæku bænda sem börðust gegn norður-ríkjamönnnum, ekki af því að þeir hötuðu svertingja og studdu þrælahald, heldur vegna þess að verið var að gera árás á landið þeirra.
Suðurríkjafáninn hefur mikið tilfinngalegt gildi og táknar mismunandi hluti fyrir fólk í Bandaríkjunum. (Mynd: EPA)