„Það er alveg skýrt í mínum huga að ef atvinnugreinar, sem byggja á dýrahaldi eða veiðum, geta ekki tryggt mannúðlega aflífun dýra – eiga þær sér enga framtíð í nútímasamfélagi.“
Þetta segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra við Kjarnann um þær fréttir að skot hvalveiðimanna á skipum Hvals hf. hafi geigað í að minnsta kosti tveimur tilfellum á yfirstandandi vertíð. Matvælastofnun, MAST, hefur staðfest við Kjarnann að slíkt hafi átt sér stað við veiðar á langreyði í byrjun júlí og sjávarverndarsamtökin Hard To Port segja slíkt hið sama hafa gerst við veiðarnar í fyrradag.
Skutull hlaðinn sprengiefni er notaður við veiðar á hvölum við Ísland lögum samkvæmt. Á slíkt vopn að tryggja að dýrið deyi samstundis. En þá þarf skotið að hæfa hold. Ef það fer hins vegar í bein, höfuðkúpu líkt og gerðist þann 4. júlí, springur sprengiskutullinn ekki. Hlaða þarf byssuna aftur, miða og hleypa af. Það getur tekið margar mínútur.
„Ekki verður nógu mikil áhersla lögð á mikilvægi þess að dýr séu aflífuð á mannúðlegan hátt við veiðar,“ segir Svandís. Lög og reglur um slátrun dýra í sláturhúsum séu skýr og kveði á um að aflífun sé skjót og án þjáningar. „Um aflífun hvala liggja ekki fyrir nægar upplýsingar til að segja til um hvort hún sé mannúðleg eða ekki,“ heldur hún áfram. „Rannsókn sem unnin var fyrir Fiskistofu árið 2015 á aflífun 50 langreyða bendir til að óásættanlega stór hluti hvala sem eru veiddir í atvinnuskyni heyi langdregið dauðastríð. Mikilvægt er að skera úr um þetta með því að afla betri gagna.“
Svandís segir að við veiðar sé aldrei hægt að tryggja að aflífun eigi sér stað við fyrsta skot, hvort sem verið sé að veiða hvali, fugla eða hreindýr. Verklagsreglur við hvalveiðar kveði þó skýrt á um að ef skot geigar skuli draga hval að borði og aflífa sem fyrst með skoti í heila.
„Hvorki ráðuneytið, né undirstofnarnir þess, hafa upplýsingar um hvort svo sé gert. Því þarf að breyta og þess vegna hef ég sett í Samráðsgátt stjórnvalda drög að reglugerð sem skyldar þau sem hafa leyfi til stórhvalveiða að tilnefna einn úr áhöfninni sem dýravelferðarfulltrúa.“ Samkvæmt drögunum skal hann bera ábyrgð á því að rétt sé staðið að velferð hvala við veiðar, með því að halda skrá yfir allar aðgerðir er varða veiðarnar, mynda þær á myndband og skrá þær niður. Þessum gögnum skal svo komið til eftirlitsdýralæknis eftir hverja veiðiferð og skal hann ganga úr skugga um að ákvæði laga um velferð dýra hafi verið fylgt. Komi eitthvað þar í ljós sem bendir til þess að ákvæði laga um velferð dýra séu ekki virt er það á hendi Matvælastofnunar að meta það hvort vísa skuli málinu til lögreglu.
„Það er mikilvægt að stjórnvöld byggi ákvarðanir sínar á gögnum og staðreyndum,“ segir Svandís. „Það er hins vegar alveg skýrt í mínum huga að ef atvinnugreinar, sem byggja á dýrahaldi eða veiðum, geta ekki tryggt mannúðlega aflífun dýra – eiga þær sér enga framtíð í nútímasamfélagi.“