Hertar samkomutakmarkanir munu taka gildi næsta miðvikudag þegar fjöldatakmarkanir fara úr 2.000 manns í 500. Grímuskylda verður tekin upp og sú aðgerð tekur gildi á morgun. Opnunartími veitingastaða verður skertur enn á ný um tvær klukkustundir. Opið verður til kl. 23 á kvöldin og síðustu gestir skulu vera farnir fyrir miðnætti. Þá verður eins metra nálægðarreglan aftur kynnt til sögunnar.
„Það voru deildar meiningar get ég sagt,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra eftir ríkisstjórnarfund í morgun þar sem aðgerðirnar voru til umræðu og samþykktar.
Hún segir að sóttvarnalæknir hafi í sínu minnisblaði rifjað upp þrjár sviðsmyndir: Óbreyttar aðgerðir, miklar herðingar og „bil beggja“ sem hafi orðið hennar niðurstaða. Spurð hvort hún eigi von á að hertar aðgerðir sem samþykktar voru eigi eftir að duga til sagði hún „óþægilegt“ hvað kúrfan væri brött og risið á bylgjunni brattara en við hefðum séð áður. Metfjöldi tilfella hefði greinst síðasta sólahringinn. Hún minnti á að samfélagið væri vel varið með bólusetningum en að engu að síður þyrfti að fara í frekara átak í þeim efnum til að verja fólk með undirliggjandi sjúkdóma og þá sem eldri eru. Hvatti hún alla til að fara í bólusetningu. Sóttvarnalæknir hefur ennfremur boðað að allir sextán ára og eldri geti fengið örvunarbólusetningu á næstu vikum.
Aðgerðirnar munu gilda í fjórar vikur. Eins og fyrr segir taka þær flestar gildi á miðvikudag í næstu viku en grímuskyldan strax á morgun. Þá þarf aftur að bera grímur í verslunum, á sitjandi viðburðum og svo framvegis, líkt og landsmenn eiga að vera farnir að þekkja. „En við tökum grímurnar upp aftur.“
Engar frekari aðgerðir verða þó í grunnskólum landsins og þar verður ekki tekin upp grímuskylda.
Spurð um viðburði fram undan á borð við jólatónleika sagði hún að vissulega myndu aðgerðirnar hafa einhver áhrif þar á. Hún minnti hins vegar á leiðbeiningar um hraðpróf fyrir allt upp í 1.500 manns í sameiginlegu rými og hvatti þá sem ætla sér að halda stóra viðburði að nýta sér þau.
Svipuð staða á nágrannalöndum
Svandís sagði að nágrannaþjóðir okkar væru í svipuðum sporum, m.a. Bretar og hin Norðurlöndin. Þar er mikill vöxtur í faraldrinum og víða verið að ræða möguleg viðbrögð við honum. „Það er held ég enginn rólegur yfir því að Evrópa sé orðin miðpunktur í þessu aftur, því miður.“
Ráðherrann sagði að innan ríkisstjórnarinnar hefðu alltaf verið skiptar skoðanir um til hvaða aðgerða ætti að grípa og hvenær. „Ég veit ekki hversu marga klukkutíma þessi ríkisstjórn hefur rætt aðgerðir við faraldrinum. En það voru skiptar skoðanir.“ Sagði hún ágreining um áherslur og hvaða leiðir ætti að fara en vildi ekki meina að ágreiningurinn væri meiri nú en áður.
Blikur á lofti varðandi Landspítala
Spurð hvort Landspítalinn yrði aftur færður á hættustig sagði hún „raunhæft“ á áætla að það yrði gert. „Við vonum að það verði ekki en það eru blikur á lofti.“ Á hættustigi er valkvæðum aðgerðum m.a. frestað á spítalanum.
Um 20 mánuðir eru frá því að fyrsta smitið greindist hér á landi og fljótlega eftir það var farið að grípa til sóttvarnaaðgerða. Stundum hefði verið hægt að losa aðgerðir fyrr en til stóð en stundum hefur þurft að herða enn frekar. „Við erum orðin sjóuð í að fara fram og til baka í þessum hertu aðgerðum.“
Forðast ber hópamyndanir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skrifar í færslu á covid.is í morgun að nú gilti „að sýna samstöðu og viðhafa þær sóttvarnir sem við vitum að skila árangri. Forðumst hópamyndanir, virðum eins metra nándarreglu, notum andlitsgrímu ef ekki er hægt að viðhafa eins metra nánd við ótengda aðila og/eða í illa loftræstum rýmum, þvoum og sprittum hendur, höldum okkur til hlés ef við finnum fyrir einkennum sem bent geta til COVID-19 og mætum í PCR próf. Einnig er mikilvægt að viðhafa góða smitgát þar til niðurstaða úr PCR prófi liggur fyrir“.