Innan við helmingur Íslendinga, eða 45 prósent, segjast telja það eins öruggt eða jafnvel öruggara að ferðast með Boeing 737 MAX-þotum en öðrum farþegaþotum. Rúmlega einn af hverjum fimm, eða 22 prósent, telja það hins vegar óöruggara.
Könnunin var framkvæmd frá 30. desember til 11. janúar, en niðurstöður hennar birtar af hálfu MMR í gær.
Er niðurstöðurnar eru brotnar nánar niður sést að 10 prósent aðspurðra sögðust telja það mun öruggara að ferðast með Boeing MAX þotunum heldur en öðrum farþegaþotum, 12 prósent töldu það nokkuð öruggara, 23 prósent sögðu töldu það eins öruggt/óöruggt, 11 prósent nokkuð óöruggara og 11 prósent mun óöruggara. 33 prósent sögðust svo ekki vera viss.
Karlar (54 prósent) sögðust oftar en konur (35 prósent) telja vélarnar væru jafn öruggar eða öruggari en aðrar flugvélar. Svipað hlutfall karla og kvenna, eða rúm 20 prósent, sögðust telja MAX-vélarnar óöruggari. Konur voru líklegri til að segjast óvissar en karlar.
Icelandair hóf nýlega að fljúga MAX-vélunum aftur, en flugvélar af þessari tegund voru kyrrsettar á heimsvísu snemma árs 2019 í kjölfar þess að tvö mannskæð flugslys voru rakin til galla í hugbúnaði þeirra.
Búið að fenna yfir vandræði Boeing hjá mörgum í Bandaríkjunum
Kjarnanum lék forvitni á að vita hvernig þessar vísbendingar um traust Íslendinga til MAX-vélanna væru í alþjóðlegum samanburði og leitaði uppi nýlegar skoðananakannanir erlendis frá sem mæla traustið til MAX-vélanna með svipuðum hætti.
Í könnun frá Reuters og Ipsos á meðal neytenda í Bandaríkjunum sem gefin var út 28. desember 2020, degi áður en MAX-vélarnar fengu greint ljós á að fljúga aftur í Bandaríkjunum, kom fram að einungis 39 prósent svarenda mundu eftir flugslysunum mannskæðu og ástæðunum fyrir því að MAX-vélarnar voru kyrrsettar.
Er svarendur voru minntir á öryggisbrestina sem komu í ljós í stýrisbúnaði vélanna og unnið hefur verið að því að bæta úr síðustu tvö árin eða svo sögðust heil 57 prósent ekki vera líkleg til að fljúga með MAX-þotunum. Allavega fyrsta kastið – en 37 prósent sögðust vera til í að fljúga með MAX-þotum þegar þær væru búnar að vera í notkun í sex mánuði án óhappa.
Fleiri (43 prósent) en færri (22 prósent) Bandaríkjamanna sögðust telja að flugfélög, heilt yfir, tækju hagnað fram yfir öryggi, samkvæmt könnuninni frá Reuters/Ipsos. Mörg, ef ekki bara flest flugfélög, bjóða farþegum upp á að breyta fluginu sínu ef þeir eru bókaðir í flug sem á að fara á MAX-vél frá Boeing.
Lítið er um nýlegar skoðanakannanir á trausti til Boeing MAX-vélanna, samkvæmt snarpri leit Kjarnans. Þegar vandræði fyrirtækisins voru í hámæli árið 2019 og vélarnar nýlega kyrrsettar var þó fjöldi kannanna framkvæmdur.
Bank of America framkvæmdi sína eigin könnun síðla árs 2019 og komst að því að einungis einn af hverjum fimm aðspurðum Bandaríkjamönnum myndi fljúga með MAX-vél um leið og þær færu aftur í loftið. Nærri tveir þriðju aðspurðra sögðu að þeir myndu bíða allavega hálft ár með að fljúga með MAX-vél eftir að þær fengju leyfi til að fljúga – eða þá aldrei fljúga með þeim.
Það hefur því verið ljóst lengi að traust í garð þessara véla þyrfti að endurheimta af hálfu Boeing og flugfélaganna sem hafa þær í flota sínum.
Þeir sem fljúga oftar segjast vissari um öryggi vélanna
Í könnun MMR kemur fram að þeir Íslendingar sem fljúga oft til útlanda eru líklegri til þess að telja MAX-vélarnar jafn öruggar eða jafnvel öruggari en aðrar flugvélar.
Samkvæmt niðurstöðunum hér á landi eru þeir sem fóru að jafnaði fimm sinnum eða oftar til útlanda fyrir kórónuveirufaraldurinn líklegastir til að treysta MAX-vélunum, en 56 prósent þeirra sögðust telja vélarnar jafn öruggar eða meira öruggar en aðrar farþegaþotur.
Þeir sem aftur á móti sögðust ekki ferðast erlendis á hverju ári bera minnst traust til vélanna, en einungis 34 prósent í þeim hópi sögðust telja MAX-vélarnar jafnöruggar eða öruggari en aðrar farþegarþotur.
Píratar ólíklegastir til að telja vélarnar öruggar
Áhugavert er að í könnun MMR mátti greina nokkurn mun á viðhorfum til flugvélanna eftir stjórnmálaskoðunum.
Stuðningsfólk Miðflokksins (56 prósent), Sjálfstæðisflokksins (53 prósent) og Framsóknar (52 prósent) reyndist líklegast til að segjast telja ferðalög með Boeing 737 MAX flugvélum eins örugg eða öruggari heldur en ferðalög með öðrum farþegaþotum en stuðningsfólk Pírata (35 prósent), Samfylkingarinnar (41 prósent) og Flokks fólksins (44 prósent) ólíklegast.
Er mælingunni er snúið við reyndist stuðningsfólk Samfylkingarinnar (33 prósent), Sjálfstæðisflokksins (29 prósent) og Framsóknar (25 prósent) líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að segjast telja ferðalög með MAX vélunum óöruggari en með öðrum farþegaþotum en stuðningsfólk Vinstri-grænna (12 prósent) og Viðreisnar (17 prósent) voru ólíklegust til að vera á þeirri skoðun.
Stuðningsfólk Pírata, Vinstri grænna og Viðreisnar virðist í mestri óvissu, á bilinu 34-40 prósent þeirra sögðust ekki viss um hvort MAX-vélarnar væru öruggari eða óöruggari en aðrar flugvélar.
Könnun MMR var framkvæmd dagana 30. desember 2020 til 11. janúar 2021. Alls bárust 2.002 svör frá einstaklingum 18 ára og eldri sem voru valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR, en um netkönnun var að ræða.