Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur ekki fjallað um eða tekið afstöðu til byggingar vindorkuvers á Brekkukambi í Hvalfirði enda hefur málið ekki komið inn á borð hennar nema að því leyti að gefa umsögn um matsáætlun framkvæmdarinnar.
Þetta segir Linda Björk Pálsdóttir, sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar, við Kjarnann. Tugir athugasemda bárust við matsáætlunina, allar á einn veg: Fólkið í nágrenni hins fyrirhugaða vindorkuvers vill að horfið verði frá áformunum.
„Ég fagna því að sem flestar umsagnir berist og að íbúar, landeigendur, frístundahúsaeigendur og aðrir hagsmunaaðilar komi sjónarmiðum sínum á framfæri,“ segir Linda. „Ég ber virðingu fyrir þeim skoðunum sem fram eru komnar og ítreka það að framkvæmdin, eins og henni er lýst í drögum að matsáætlun framkvæmdaraðila, er ekki í samræmi við aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar og ekki verður tekin afstaða til breytinga aðalskipulags vegna vindlunda og/eða vindrafstöðva yfir 35 metra nema fyrir liggi skýr stefnumörkun á landsvísu um vindorkunýtingu og/eða í rammaáætlun.“
Fyrirtækið Zephyr Iceland, sem er í meirihluta eigu norska fyrirtækisins Zephyr AS, vill reisa 50 MW vindorkuver á hæsta fjallinu við Hvalfjarðarströnd. Vindmyllurnar, sem yrðu 8-12 talsins og 250 metrar á hæð, myndu því sjást víða að. Kjarninn hefur áður fjallað um athugasemdir íbúa sem og stofnana við áformin.
Matsáætlun verkefnisins, sem verkfræðistofan EFLA vann fyrir Zephyr, var auglýst á vef Skipulagsstofnunar í vor. Í áætluninni er útskýrt hvernig staðið verði að umhverfismati framkvæmdarinnar og hvaða þættir verði teknir til skoðunar. Skipulagsstofnun gefur svo álit sitt á matsáætluninni, að teknu tilliti til athugasemda og umsagna.
Umhverfismatið rétt að hefjast
Framkvæmdaaðili, í þessu tilviki Zephyr Iceland, þarf að taka tillit til þess sem Skipulagsstofnun kveður á um varðandi umhverfismatið. Þá hefst ferli hjá framkvæmdaaðila sem er gagnaöflun, rannsóknir o.s.frv. Þegar öll gögn liggja fyrir gerir framkvæmdaaðili umhverfismatsskýrslu, þar sem umhverfisáhrif eru metin.
Umhverfismatið er síðan auglýst af Skipulagsstofnun og enn á ný leitar hún umsagnar meðal hagsmunaaðila og almennings, þ.m.t. sveitarfélagsins. „Þegar þessu ferli lýkur getur, að undangenginni umfjöllun í sveitarstjórn, hafist ferli deiliskipulags og mögulega breytinga á aðalskipulagi, en þessi tvö skipulagsferli má einnig auglýsa samhliða umhverfismatsskýrslu,“ útskýrir Linda. „Sveitarfélagið hafi skipulagsvaldið varðandi þessi tvö ferli, þ.e.a.s. varðandi aðal- og deiliskipulag.“ Að loknu skipulagsferli vegna aðal- og deiliskipulags, gefur sveitarfélagið út framkvæmdaleyfi vegna fyrirhugaðra framkvæmda.
Linda ítrekar að vindorkuver á Brekkukambi, eins og framkvæmdinni er lýst í drögum að matsáætlun, sé ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar né endurskoðað aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar til ársins 2032 sem væntanlega muni hljóta staðfestingu ráðherra og öðlast gildi í árslok 2022. Hún ítrekar einnig að samkvæmt ákvæðum í endurskoðuðu aðalskipulagi verði ekki tekin afstaða til breytinga aðalskipulags vegna vindorkuvera og/eða vindrafstöðva yfir 35 metra nema fyrir liggi skýr stefnumörkun á landsvísu um vindorkunýtingu og/eða í rammaáætlun.
Engin bein samskipti við Zephyr
Hún segir sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar ekki hafa átt í beinum samskiptum við Zephyr ehf. fyrir utan forsamráðsfund vegna fyrirhugaðs vindorkuvers við Brekku er haldinn var á vegum Skipulagsstofnunar líkt og stofnunin fór fram á. „Á þeim fundi bentu fulltrúar Hvalfjarðarsveitar á að takmarkaðar upplýsingar lægju fyrir um afstöðu íbúa til vindorkuvera og ítrekuðu mikilvægi samráðs við nærsamfélagið við undirbúning verkefnisins,“ segir Linda.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði í sumar starfshóp sem á að gera tillögur að lagaramma fyrir nýtingu vindorku hér á landi. Hópurinn á að skila af sér tillögum í febrúar á næsta ári.