Þinghald í málum er varða sóttvarnahús hefst á morgun en ekki í kvöld eins og útlit var fyrir. Þetta segir Ómar R. Valdimarsson, lögmaður eins kæranda, í skriflegu svari við spurningum Kjarnans. Fyrr í dag var Ómar vongóður um að málin yrðu tekin fyrir í dag. Samkvæmt frétt RÚV hafa að minnsta kosti þrír einstaklingar kært ákvörðun stjórnvalda um skyldusóttkví í sót eftir komuna til landsins.
Fréttir dagsins voru á þá leið að Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefði boðað kröfugerð til Héraðsdóms vegna málsins. Í fréttum RÚV og Vísis staðfesti Lárentsínus Kristjánsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, að von væri á kröfugerð Þórólfs í kvöld. Í kvöldfréttatíma RÚV kom fram að sóttvarnalæknir muni skila kröfugerð ti Héraðsdóms í kvöld og má lesa úr því að kröfugerðin hafi ekki borist fyrir fréttir. Málin verða hins vegar tekin fyrir á morgun, líkt og áður segir og kærendur þurfa því enn að halda sig í sóttvarnahúsi.
Gæti reynst fordæmisgefandi
Í kvöldfréttatíma RÚV voru tveir lögmenn kærenda til viðtals, áðurnefndur Ómar annars vegar og Jón Magnússon hins vegar. Í máli þeirra kom fram að málin sem tekin verða fyrir á morgun geti haft fordæmisgildi fyrir aðra sem dvelja í sóttvarnahúsi. Þá kom einnig fram að allir kærendur eigi heimili hér á landi.
Að mati Jóns er túlkun sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra á sóttvarnalögum sem samþykkt voru í febrúar ekki í takt við vilja Alþingis með lagasetningunni. Í sóttvarnalögum er kveðið á um að sóttvarnahús sé úrræði fyrir einstakling sem ekki á samastað á íslandi eða vill að öðrum ástæðum ekki einangra sig í húsi á eigin vegum. Jón segir að þetta ákvæði eitt og sér sýni að ákvörðun um að skylda umbjóðanda hans, sem á heimili á Íslandi, í sóttkví í sóttvarnahúsi standist ekki lög.
Ekki náðist í Þórólf Guðnason, sóttvarnalækni, við vinnslu fréttarinnar.