Sigríður Benediktsdóttir, hagfræðingur við Yale háskóla og fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, segist telja að lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum hafi verið brotin við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka fyrir rúmum tveimur vikum.
Hún segir í samtali við Kjarnann að þegar yfir 150 aðilar séu valdir til að kaupa magn bréfa sem sé svo lítið að það hefði ekki hreyft við markaðsvirði Íslandsbanka ef þeir hefur keypt á eftirmarkaði þá brjóti það í bága við 3. grein og mögulega einnig 2. grein umræddra laga. „Á grundvelli þess þarf einhver að axla ábyrgð fyrir að hafa heimilað þetta og auk þess þarf að rifta þessum viðskiptum við einstaklinga og ehf., enda eru þau ekki í samræmi við lög og kaupendum og miðlurum hefði mátt vera það ljóst sem og því stjórnvaldi sem heimilaði þetta.“
Sigríður var einn þriggja sem mynduðu rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið sem skilaði umfangsmikilli skýrslu í apríl 2010. Hún sat einnig um nokkurra ára skeið í bankaráði Landsbankans.
Margir litlir aðilar fengu að kaupa
Bankasýsla ríkisins, fyrir hönd íslenska ríkisins, seldi 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka í lokuðu útboði til 207 fjárfesta fyrir 52,65 milljarða króna. Hópurinn fékk samtals 2,25 milljarða króna afslátt af markaðsvirði og kostnaður við útboðið var um 700 milljónir króna.
Í lok síðustu viku var greint frá því að alls 59 fjárfestar hafi keypt fyrir minna en 30 milljónir króna og 20 fyrir 30-50 milljónir króna. Alls 167 aðilar keyptu fyrir 300 milljónir króna eða minna. Auk þess var hluti seldur til erlendra skammtímasjóða sem keyptu líka umtalsverðan hlut í Íslandsbanka í fyrrasumar, en seldu sig hratt niður á fyrstu dögum eftir að bankinn var skráður á markað.
Framkvæmd útboðsins hefur verið harðlega gagnrýnd, meðal annars á Alþingi, vegna ofangreinds og sagt að söluferlið hafi verið kynnt þannig að fara ætti þessa leið, svokallaða tilboðsleið, til að fá inn stóra fjárfesta sem ætluðu sér að vera eigendur bankans til lengri tíma. Það hafi ekki orðið raunin.
Lög grundvölluð á skýrslu rannsóknarnefndarinnar
Frumvarp um lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum var lagt fram í september 2012.
Í greinargerð sem fylgdi með því sagði meðal annars: „Ljóst má vera að afdráttarlausar reglur með skýrri umgjörð þurfa að gilda um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sýnir fram á nauðsyn þess, þar sem sett er fram sú skoðun að við söluna á bönkunum árin 2002–2003 hafi Alþingi haft ríkar ástæður til að taka afstöðu til grundvallarforsendna varðandi sölu og fyrirkomulag hennar í sérstakri löggjöf um söluheimildina. Taka má undir það að fyrri aðkoma Alþingis við undirbúning á sölu á eignarhlutum í viðskiptabönkum hafi ekki verið nægjanleg og þarf breyting að verða á því til þess að tryggja megi að hafið sé yfir vafa að jafnræði og gagnsæi sé tryggt við sölu eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Ferlið þarf að vera skýrt, meginsjónarmið skilgreind og hlutverk hvers aðila í söluferlinu.“
Því var frumvarpið meðal annars grundvallað á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem Sigríður Benediktsdóttir átti sæti í.
Frumvarpið var samþykkt í desember 2012. Þriðja grein laganna fjallar um meginreglur við sölumeðferð. Í greininni segir: „Þegar ákvörðun er tekin um undirbúning og framkvæmd sölumeðferðar eignarhluta skal áhersla lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti. Þess skal gætt að skilyrði þau sem tilboðsgjöfum eru sett séu sanngjörn og að þeir njóti jafnræðis. Þá skal við sölu kappkosta að efla virka og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði.“