Rafbílaframleiðandinn Tesla hefur losað sig 75 prósent af eignum sínum í rafmyntinni Bitcoin. Virði rafmyntarinnar hefur hríðfallið á síðustu misserum og er virði eins Bitcoin nú rúmlega 22 þúsund Bandaríkjadalir, rúmar þrjár milljónir króna. Þegar virði rafmyntarinnar stóð sem hæst í nóvember á síðasta ári var verðið tæplega 69 þúsund dalir, sem samsvarar tæplega níu og hálfri milljón króna.
Fram kemur í umfjöllun BBC að fyrirtækið hafi selt Bitcoin fyrir um 936 milljónir Bandaríkjadala, það er um 129 milljarðar króna. Við lok síðasta árs var andvirði rafmyntarinnar sem fyrirtækið hefur nú selt mun hærra eða um tveir milljarðar Bandaríkjadala, um 275 milljarðar króna.
Stærsti hluthafi fyrirtækisins og forstjóri þess, Elon Musk, hefur verið ötull talsmaður rafmynta á borð við Bitcoin. Þannig hafa tíst hans um kaup á hinum ýmsu rafmyntum haft mikil áhrif á bæði verð þeirra og umfang viðskipta með rafmyntirnar.
Hét því að selja ekki
Í febrúar á síðasta ári greindi fyrirtækið frá því að það hefði keypt Bitcoin fyrir einn og hálfan milljarð dala, rúmlega 200 milljarða króna. Í kjölfar kaupanna jókst eftirspurn eftir rafmyntinni til muna.
Í maí í fyrra greindi fyrirtækið aftur á móti frá því að kaupendum rafbíla fyrirtækisins stæði ekki lengur til boða að greiða fyrir bílana með Bitcoin. Í yfirlýsingu sem Musk sendi frá sér á Twitter í kjölfarið sagði hann það gert vegna áhyggja af notkun jarðefnaeldsneytis við vinnslu rafmyntarinnar en svokallaður námugröftur (e. mining) eftir Bitcoin fer fram með orkufrekum tölvum. Í yfirlýsingunni sem sjá má hér að neðan sagði Musk einnig að fyrirtækið ætlaði ekki að selja eignarhlut sinn sem bundinn var í Bitcoin og að það hygðist bjóða upp á notkun rafmyntarinnar í viðskiptum um leið og sjálfbærari leiðir til Bitcoin vinnslu stæðu þeim sem grafa eftir myntinni til boða.
Tesla & Bitcoin pic.twitter.com/YSswJmVZhP
— Elon Musk (@elonmusk) May 12, 2021
Taka þurfi orðum Musks með ákveðnum fyrirvara
Sérfræðingur BBC í bandaríska tæknigeiranum, James Clayton, ritar að þetta sé enn eitt loforðið sem Musk stendur ekki við og áminning um að taka þurfi orðum auðkýfingsins með ákveðnum fyrirvara. Orð hans, sem svo sannarlega geti haft mikil áhrif á markaði, séu alls ekki meitluð í stein, ritar Clayton.
Töluvert hefur verið fjallað um fyrirhuguð kaup Musk á samfélagsmiðlinum Twitter sem hann reynir nú að losna undan. Twitter hefur stefnt Musk fyrir að standa ekki við bindandi kauptilboð sem Musk gerði í apríl á þessu ári. Tilboðið hljóðaði upp á 44 milljarða dala, um 6000 milljarða króna. Að mati lögfræðinga Musk hefur hann fullan rétt til þess að ganga frá kaupunum vegna ófullnægjandi upplýsingagjafar frá Twitter um fjölda gervimenna (e. bots) á samfélagsmiðlinum. Mál Twitter gegn Musk verður tekið fyrir af bandarískum dómstólum í október.