Þeir sem koma til Íslands eftir að hafa verið á áhættusvæðum erlendis þurfa að fara í sóttkví og skulu skrá sig fyrir komuna til landsins. Í dag eru öll lönd utan Íslands fyrir utan Grænland skilgreind sem áhættusvæði.
Þetta kemur fram í nýjum leiðbeiningum sóttvarnalæknis um sóttkví en þar er orðalagið „heimasóttkví“ notað um sóttkví í húsnæði sem ekki telst til opinberra sóttvarnahúsa, hvort sem um er að ræða heimahús, hótel, eða aðra gistimöguleika sem teljast viðeigandi húsnæði fyrir sóttkví. Þannig er orðið „heima“ notað um aðstöðu sem notuð er til sóttkvíar, hvort sem einstaklingur er búsettur þar að staðaldri eða ekki. Orðið „ferðamaður“ er notað yfir alla þá sem koma til Íslands, óháð búsetu, þjóðerni eða tilgangi ferðalags.
Sömu leiðbeiningar gilda um heimasóttkví fyrir ferðamenn og þá sem eru útsettir fyrir smiti innanlands nema að ferðamenn þurfa að dvelja 5 daga í sinni sóttkví, sem líkur eftir neikvæða seinni sýnatöku en útsetning innanlands krefst 7 daga sóttkvíar með sýnatöku í lok sóttkvíar.
Sóttkví er orð sem við erum flest farin að þekkja en sökum þess að brögð hafa verið á því að fólk haldi þær reglur sem fyrir liggja um slíkt úrræði, og ekki var lagastoð fyrir hendi til að skikka fólk í sóttvarnahús, hefur sóttvarnalæknir nú áréttað ýmislegt og skerpt á öðru í nýjum leiðbeiningum um hvað felst í því að vera í sóttkví.
Í nýju minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra þar sem hann leggur til nýjar aðgerðir á landamærum sem ráðherra hefur þegar ákveðið að setja í reglugerð er tekur gildi á morgun, segir um heimasóttkví:
- Aðilar á heimilinu sem ekki hafa verið útsettir fyrir smiti skulu ekki vera á heimilinu með einstaklingi sem er í sóttkví. Heimilismenn sem voru útsettir fyrir smiti á sama tíma geta verið í sóttkví saman á sama stað.
- Ef einstaklingar sem ekki hafa verið útsettir vilja ekki eða geta ekki farið af heimilinu eiga þeir að vera í sóttkví með hinum.
- Umgengni við annað fólk er óheimil. Þess vegna þarf einstaklingur að fá aðstoð við aðföng o.þ.h. Ef heimilið er í sóttkví geta vinir eða ættingjar sinnt aðföngum og skilið eftir við útidyr. Ef heimsending matvæla og annarra nauðsynja er í boði á svæðinu er hægt að nýta þá þjónustu á meðan sóttkví stendur. Sá sem er í sóttkví ætti að taka fram að um sóttkví sé að ræða og varning ætti að skilja eftir við útidyr.
- Ef einstaklingur í sóttkví fær einkenni COVID-19 sýkingar ber honum að fara tafarlaust í sýnatöku (nota má einkabíl eða leigubíl og taka skal fram að hann sé í sóttkví).
- Einstaklingur í sóttkví á að halda sig heima við og ekki hafa bein samskipti við aðra.
- Sóttkvíarstaður þarf að vera sér húsnæði sem telst fullnægjandi til sóttkvíar. Þetta getur verið heimili fólks en einnig leigu/lánsíbúðir eða hótelherbergi.
- Einstaklingur í sóttkví má sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, þá að höfðu samráði fyrirfram við heilsugæslu/1700/112.
- Einstaklingur í sóttkví má ekki nota almenningssamgöngur (þ.m.t. áætlunarflug innanlands, strætisvagna) en má nota leigubíla, bílaleigubíla eða einkabíl til að komast á sóttkvíarstað eftir komuna (og aftur á landamærastöð ef það á við), til að sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og til að komast til og frá seinni sýnatöku. Einstaklingar í sóttkví vegna ferðalags mega nota flugrútu.
- Einstaklingur í sóttkví má ekki fara til vinnu eða skóla.
- Einstaklingur í sóttkví má ekki fara á mannamót, hvort sem þau varða starf hans, fjölskyldu eða félagslíf.
- Einstaklingur í sóttkví má vera viðstaddur kistulagningu og jarðarför/bálför ef hann fylgir sérstökum leiðbeiningum þar að lútandi. Niðurstaða úr fyrri sýnatöku skal liggja fyrir eftir ferðalag erlendis. Einstaklingur í sóttkví sem dvelur á sama stað/heimili og sýktur einstaklingur með COVID-19 má ekki vera viðstaddur kistulagningu eða jarðarför/bálför.
- Einstaklingar í sóttkví mega ekki fara sjálfir eftir aðföngum, þ. á m. í apótek, matvöruverslun, pósthús, banka eða annað.
- Einstaklingar í sóttkví mega ekki fara á veitingastaði, krár/vínveitingastaði, heilsuræktarstöðvar, sundlaugar, í leikhús, kvikmyndahús, verslanir eða aðra staði þar sem margir koma saman.
- Einstaklingur í sóttkví má ekki dvelja í sameiginlegum rýmum fjölbýlishúsa, s.s. stigagöngum, þvottahúsum eða sameiginlegum görðum/útivistarsvæðum.
- Einstaklingur í sóttkví má ekki taka á móti gestum á heimili sínu meðan sóttkví stendur yfir.
- Einstaklingur í sóttkví má fara út á svalir eða í garð sem er til einkaafnota.
- Einstaklingur í sóttkví má fara í gönguferðir í nærumhverfi sóttkvíarstaðar en þarf að halda sig í a.m.k. 2 metra fjarlægð frá öðrum vegfarendum og má ekki heimsækja fjölsótta staði þrátt fyrir að vera undir beru lofti. Viðmið eru tvær gönguferðir á dag í hámark 30 mínútur í hvort sinn.
- Einstaklingur í sóttkví má ekki fara í skoðunarferðir og má ekki fara út að keyra nema við komuna til landsins, þegar mögulega þarf að ferðast milli landamærastöðvar og heimilis og í seinni sýnatöku eftir komu til landsins.