Hinn yfirvegaði, einbeitti og orðheppni vísindamaður Þórólfur Guðnason hefur tilkynnt að hann ætli að hætta sem sóttvarnalæknir í haust. Sú ákvörðun ætti ekki að koma eins og þruma úr heiðskíru lofti því hann hefur sinnt starfinu í tuttugu ár og verður sjötugur á næsta ári. En engu að síður virðist sem ákvörðunin hafi komið þjóðinni nokkuð á óvart.
Ekki leið á löngu eftir að tilkynning var birt á vef embættis landlæknis að Þórólfur var mættur í beina útsendingu á Vísi til að útskýra ákvörðunina. Maðurinn sem hefur leitt íslensku þjóðina í gegnum heimsfaraldur, brýnt endalaust fyrir okkur að viðhafa persónubundnar sóttvarnir – sagt okkur að þvo hendur og spritta oftar er nokkur annar. Kenndi okkur að lesa í kúrfur, hvað R-tala væri, hjarðónæmi, raðgreining, nýgengi og svo mætti áfram telja endalaust.
Og það er einmitt staðan í faraldri COVID-19 sem er m.a. ástæða þess að Þórólfur ætlar að hætta á þessum tímapunkti. Hann sagði við Vísi í morgun að hann teldi okkur vera komin á góðan stað í þeirri bylgju faraldursins, eins og hann orðaði það, sem gengið hefur yfir síðustu vikur og mánuði. En ítrekaði, eins og svo oft áður, að faraldurinn væri ekki búinn. „En ég held að þetta sé góður tími fyrir mig og sóttvarnirnar að stokka aðeins upp.“
Ágætt væri að hafa einhvern annan í brúnni þegar faraldurinn og viðbrögð við honum verða gerð upp sem og við að uppfæra allar okkar viðbragðsáætlanir út frá fenginni reynslu.
Ákvörðunina segist hann hafa tekið „algjörlega“ á sínum eigin forsendum.
„Mér líður bara mjög vel,“ sagði hann. „Ég er stoltur af því sem við höfum verið að gera hér [hjá landlækni og almannavörnum] og ég held að allir geti borðið höfuðið hátt. En við þurfum að halda áfram.“ Og svo sagði hann það sem við höfum heyrt hann segja svo oft áður: „Það getur komið bakslag í faraldurinn.“
Ekki láta villa sér sýn
Spurður hvort hann væri með einhver skilaboð til næsta sóttvarnalæknis svaraði Þórólfur: „Að standa eins faglega að hlutum eins og mögulegt er. Láta ekki einhver annarleg sjónarmið villa sér sýn.“
Hann segir „alveg óljóst“ hvað taki við hjá sér í haust. „Ég þarf að huga betur að mér sjálfum og minni fjölskyldu.“
Upplýsingafundir almannavarna og embættis landlæknis er faraldurinn stóð sem hæst skiptu tugum. Og Þórólfur var í aðalhlutverki á þeim flestum. Hann sagðist ekki útilokað að hann ætti eftir að sakna upplýsingafundanna og að hann ætti eftir að „fara í gegnum ákveðið hugarangur þegar þessu lýkur. En ég held að það gildi um alla sem hefur liðið vel í vinnunni“.
Er gaman að vera sóttvarnalæknir? spurði fréttamaður Vísis.
„Já það er mjög gaman. Gaman að vinna við það fag sem maður hefur lagt fyrir sig og að vinna með svona frábæru fólki. Það eru forréttindi.“