Lögregla hafði afskipti af 781 einstaklingi í fyrra vegna vörslu ávana- og fíkniefna til eigin nota. Það er um 37 prósent fækkun frá árinu 2014 þegar lögregla hafði afskipti af 1.246 einstaklingum vegna neysluskammta og hafa aldrei verið fleiri.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Diljár Mist Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um vörslu ávana- og fíkniefna til eigin nota.
Síðsutu ellefu ár, frá 2010-2021 hafði lögregla afskipti afskipti af 7.513 einstaklingum vegna vörslu neysluskammta. Árið 2010 hafði lögregla afskipti af 721 einstakling vegna vörslu ávana- og fíkniefna til eigin nota. Þeim fjölgaði svo milli ára, voru 929 árið 2011, 1.016 árið 2012, 1.119 árið 2013 og 1.246 árið 2014. Síðustu sjö ár hefur lögreglan haft afskipti af færri vegna vörslu ávana- og fíkniefna til eigin nota og í fyrra var talan aftur komin niður fyrir 800, þegar lögregla hafði afskipti af 781 einstaklingi.
Lögregla hafði í 40 prósent tilvika afskipti af sömu einstkalingum oftar en einu sinni
Á tímabilinu hafði lögregla í um 40 prósent tilvika afskipti af sömu einstaklingum oftar en einu sinni. Þannig hafði lögregla afskipti af 18 einstaklingum oftar en 20 sinnum, 147 einstaklingum 10-20 sinnum og 1.453 einstaklingum 3-9 sinnum. Í flestum tilvikum, eða 4.515, hafðu lögregla einu sinni afskipti af viðkomandi einstaklingi vegna vörslu neysluskammta.
Á árunum 2010-20121 var algengasta magn ávana- og fíkniefnis sem lögregla haldlagði í hvert skipti af einstaklingi um eitt gramm. Í flestum tilvikum var um að ræða gras (marijúana), hass, kókaín og MDMA.
Algengasta sektin 54 þúsund krónur
Af öllum málum síðustu ellefu ára sem skráð eru í kerfi lögreglu sem varsla eða meðferð ávana- og fíkniefna má sjá að í að meðaltali 37 prósent tilvika lauk afgreiðslu brotsins með ákærumeðferð. Í svari dómsmálamálaráðherra kemur fram að ein ástæða þess getur verið að einstaklingar hafi einnig verið grunaður um fleiri brot eða ítrekuð brot.
Á síðustu ellefu árum hefur 36 prósent brota, að meðaltali, lokið með sektarmeðferð. Algengasta sektarupphæðin var 54 þúsund krónur. Í svarinu er bent á að hluti mála frá því í fyrra er enn til afgreiðslu og því megi gera ráð fyrir að einhver hluti þeirra mála eigi eftir að fara í ákæru-eða sektarmeðferð.
Diljá spurði einnig um fjölda færslna í sakaskrá einstaklinga voru gerðar frá 2010-2021 vegna vörslu neysluskammta en slíkar upplýsingar liggja ekki fyrir hjá embætti ríkissaksóknara.
Frumvörp um afglæpavæðingu neyrsluskammta hafa ekki náð fram að ganga
Hugmyndafræði skaðaminnkunnar og afglæpavæðing neysluskammta hefur verið til umræðu síðustu ár, umræða þar sem fjallað er um að ekki eigi að refsa fólki fyrir vörslu takmarkaðs magns fíkniefna til eigin nota og að efnin eigi ekki að gera upptæk hjá fullorðnu fólki.
Rauði krossinn hefur boðið upp á skaðaminnkunarúrræði hér landi frá 2009 þegar Frú Ragnheiður, öruggt neyslurými í bíl sem ekur um höfuðborgarsvæðið, tók til starfa. Í mars á þessu ári tók Ylja, fyrsta færanlega neyslurýmið til starfa, og sagði verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í samtali við Kjarnann að opnun rýmisins endurspegli viðhorfsbreytingu á skaðaminnkun.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, hefur í tvígang lagt fram frumvörp um afglæpavæðingu neysluskammta sem hafa ekki náð fram að ganga. Svandís Svavarsdóttir lagði fram frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta í apríl 2021 og byggði það að hluta til á vinnu við og umsögnum um frumvarp Halldóru og meðflutningsfólks hennar.
Frumvarpið varð ekki að lögum en til stóð að endurflytja það með breytingum af Willum Þór Þórssyni, sem tók við sem heilbrigðisráðherra eftir kosningarnar síðasta haust. Frumvarpið var hins vegar fellt niður af þingmálaskrá yfirstandandi þings í mars. Í svari ráðuneytisins til Kjarnans vegna ákvörðunarinnar sagði að ráðherra hefði ákveðið að vinna ða frekari útfærslu á frumvarpinu, meðal annars með því að skilgreina hugtakið neysluskammtur. Starfshópur var skipaður í febrúar um verkefnið og stendur vinna hans nú yfir.