Frönsk yfirvöld lögðu í dag hald á berskan togara sem var við veiðar innan lögsögu þeirra án leyfis að þeirra sögn. Þau hafa gefið út viðvörun um sambærilegar aðgerðir gegn öðrum togara en málið er til komið vegna deilna í kjölfar Brexit.
Yfirvöld í Frakklandi eru ævareið yfir því að Bretar hafi neitað mörgum frönskum sjómönnum um leyfi til veiða innan breskrar fiskveiðilögsögu sem Frakkar telja sig eiga rétt á. Náist ekki sættir í þessum málum ætla Frakkar að grípa til aðgerða frá 2. Nóvember, m.a. því að auka tollaeftirlit með breskum varningi sem fluttur er inn til Frakklands. Í frétt Reuters um málið segir að slíkar takmarkanir gætu valdið efnahagslegum skaða á Bretlandseyjum ofan á vanda sem þegar er þar til staðar, m.a. skorti á fólki til margra starfa og hækkandi orkuverðs.
Frakkar hafa svo hótað því að grípa til enn frekari refsiaðgerða ef þær fyrstu hreyfa ekki við Bretum og hafa þá ekki útilokað að þær tengist endurskoðun á flutningi rafmagns yfir Ermarsundið.
„Þetta er ekki stríð en þetta er bardagi,“ sagði Annick Girardin sjávarútvegsráðherra Frakklands í útvarpsviðtali.
Bresk stjórnvöld segja að ef Frakkar ætli sér að fara í hefndaraðgerðir verði þeim mætt með „viðeigandi“ hætti.
„Hótanir Frakka eru vonbrigði og í engu samræmi við umtalsefnið og ekki það sem við áttum von á frá nánum bandamanni,“ hefur Reuters eftir talsmanni bresku ríkisstjórnarinnar. Frá stjórninni hefur hins vegar ekkert enn heyrst í morgun eftir að lagt var hald á togarann.
Reuters hefur eftir framkvæmdastjóra samtaka breskra sjávarútvegsfyrirtækja að veiðileyfi í lögsögunni væru gefin út í takti við skilmála samninga sem gerðir voru eftir að Bretar fóru út úr Evrópusambandinu um síðustu áramót. Framkvæmdastjórinn vill meina að hótanir Frakka séu pólitísks eðlis þar sem þar fari senn fram forsetakosningar.