Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar segir að það ríki þögn á stjórnarheimilinu eftir að Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra setti fram „pólitíska stríðsyfirlýsingu“ gagnvart Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra með orðum um að fjármálaráðherra ætti að axla pólitíska ábyrgð á því hvernig sala á fjórðungseignarhluta ríkisins í Íslandsbanka fór fram.
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu þingmannsins á Facebook í dag.
„Viðskiptaráðherra beindi gagnrýni sinni einnig að forsætisráðherra, sem situr í ráðherranefnd um efnahagsmál með viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra. Þar segist viðskiptaráðherra hafa greint frá áhyggjum sínum vegna þeirrar aðferðafræði sem beita átti við söluna. Forsætisráðherra svarar bara að engin bókun liggi fyrir en segir ekkert um hvað var rætt á fundum þeirra þriggja,“ skrifar Þorbjörg.
Mjög stór orð
Þorbjörg spyr hvaða áhrif það hefði þegar viðskiptaráðherra segir að það sé því miður „fátt sem kemur á óvart í þessu máli og hver útkoman varð“ eða þegar hún bætir í og segir að „það muni koma meira í ljós í þessu máli á komandi dögum“.
„Þau orð gefa ekki bara til kynna að skoðanamunur hafi verið milli hennar og fjármálaráðherra, heldur að hún hafi talið ástæðu til að ætla að illa færi. Þessi orð ráðherrans eru mjög stór og til marks um að hún telji frekari upplýsingar um málið verði öðrum ráðherrum erfiðar,“ skrifar hún.
Þá telur hún að það skipti þess vegna máli að fram komi hvað hafi verið rætt á ráðherrafundi um efnahagsmál og hvernig umræður hafi verið á ríkisstjórnarfundum.
„Það liggur fyrir að viðskiptaráðherra bókaði ekkert um afstöðu sína, en það vekur athygli að hvorki forsætisráðherra né fjármálaráðherra hafi tjáð sig um umræður á þessum fundum. Varaði viðskiptaráðherra þau við því að illa kynni að fara? Hverjar voru áhyggjur hennar og varnaðarorð?“ spyr hún.
Mikilvægt að fá fram fundargerðir ríkisstjórnar og ráðherranefnda
Þorbjörg telur að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra þurfi að svara spurningum þar um og geti ekki verið á flótta undan fjölmiðlum. „Hagsmunir almennings kalla á að upplýst verði hvernig sú ákvörðun var tekin innan ríkisstjórnarinnar að selja aðeins völdum hópi fjárfesta. Það er þess vegna sem svo mikilvægt er að fá fram fundargerðir ríkisstjórnar og ráðherranefndar til að varpa ljósi á aðdraganda sölunnar og umræður um hvernig átti að haga sölunni.“
Hún segir ennfremur að ábyrgð Lilju hafi einnig mikla þýðingu og vísar í siðareglur ráðherra þar sem fjallað er um upplýsingagjöf ráðherra til almennings. Í siðareglunum segir að ráðherra eigi ekki að leyna upplýsingum sem varða almannahag nema lög bjóði eða almannahagsmunir krefjist þess að öðru leyti. Ráðherra beri að hafa frumkvæði að birtingu slíkra upplýsinga sé hún í almannaþágu.
Lilja upplýsti Alþingi ekki um áhyggjur sínar
Bendir Þorbjörg á að fyrir liggi að viðskiptaráðherra upplýsti Alþingi ekki um áhyggjur sínar um aðferðafræði við sölu á ríkiseign upp á tugi milljarða. „En ræddi hún áhyggjur sínar á ríkisstjórnarfundi? Hvað sagði viðskiptaráðherra þingmönnum Framsóknarflokksins? Og getur virkilega verið að formaður Framsóknarflokksins hafi ekki heyrt varnaðarorð varaformanns síns?“ spyr hún.
„Siðareglur ráðherra eru skýrar um upplýsingagjöf sem varða almannahag og frumkvæði ráðherrans þar um. Skyldur ráðherrans gagnvart Alþingi eru enn ríkari. Almenningur heyrði ekki af þessum áhyggjum og varnaðarorðum viðskiptaráðherra fyrr en eftir söluna og eftir að þung umræða hófst. Þá steig viðskiptaráðherra fram og talaði um mikilvægi þess að „hafa vaðið fyrir neðan sig“.
Sú ákvörðun ráðherrans að greina þingi ekki frá áhyggjum sínum í svo stóru máli er auðvitað sérstök svo ekki sé fastar að orði kveðið. Ekki síst þegar litið er til hennar eigin orða um mat á því hvað þarna var í uppsiglingu. Fyrirkomulag við sölu í þriðja stærsta hlutafjárútboð Íslandssögunnar var áhyggjuefni viðskiptaráðherrans. Hvorki Alþingi né almenningur fékk þó að heyra af því að innan ríkisstjórnarinnar voru áhyggjur ræddar og sjónarmiðum þar um komið „skýrt á framfæri“ að sögn viðskiptaráðherra. Þennan aðdraganda verður að upplýsa,“ skrifar hún og lýkur færslunni á því að segja að þögn ráðherra yfir páskahátíðina muni ekki kæfa kröfur um svör.
Hvað meinar viðskiptaráðherra með að “það muni koma meira í ljós í þessu máli á komandi dögum”? Það ríkir þögn á...
Posted by Thorbjorg Sigridur Gunnlaugsdottir on Thursday, April 14, 2022