Tvær konur sem saka bandaríska auðjöfurinn Jeffrey Epstein um kynferðisbrot hafa höfðað mál gegn tveimur bankastofnunum JP Morgan Chase og Deutsche Bank. Þær saka bankana um að hafa hunsað „rauð flögg“ um viðskiptahætti og meint brot Epsteins og hagnast á mansali sem hann stundaði. Epstein var handtekinn vegna fjölda ásakana um kynferðisbrot gegn ungum stúlkum árið 2019. Hann svipti sig lífi í fangelsinu skömmu síðar og áður en sakamálin, sem m.a. snéru að mansali voru tekin fyrir dómstóla.
Kærur kvennanna eru skilgreindar sem hópmálsóknir. Konurnar tvær eru ekki nafngreindar í fréttum Wall Street Journal sem sagði fyrst frá málinu og hefur málsskjölin undir höndum.
Önnur konan er í þeim sögð hafa verið ballettdansari sem lenti í neti Epsteins og samverkamanna hans árið 2006. Brotin sem hún sakar auðmanninn um stóðu allt til ársins 2013.
Í kærunni er því haldið fram að starfsmenn JP Morgan hafi vitað að Epstein og félög honum tengd hafi notað reikninga hjá bankanum í tengslum við mansal. Í gegnum þessa reikninga hafi flætt háar fjárhæðir. Þá hafi glæpsamleg saga Epsteins átt að vera á vitorði stjórnenda bankans.
Hin konan höfðar mál gegn Deutsche Bank. Samkvæmt dómsskjölum misnotaði Epstein hana kynferðislega og seldi mansali í fimmtán ár. Hún segir hann hafa borgað sér fyrir kynlífsathafnir með beinhörðum peningum.
Í kærunni kemur fram að Epstein hafi snúið sér til Deutsche Bank með viðskipti sín er tengsl hans við JP Morgan rofnuðu árið 2013. Einnig er vísað til niðurstöðu eftirlitsstofnunar í New York sem var sú að þrátt fyrir að stjórnendur Deutsche Bank hafi skilgreint Epstein sem „áhættu“ fyrir bankann hafi þeir ekki grandskoðað viðskipti hans í tengslum við meinta glæpsamlega starfsemi sem hefði átt að vera þeim ljós.
Deutsche Bank hefur viðurkennt að hafa gert „grundvallar mistök“ er Epstein flutti viðskipti sín til bankans. Hins vegar hafnar bankinn umkvörtunarefnum kvennanna og segist ætla að taka til varna fyrir dómstólum.
„Epstein og samverkamenn hans hefðu ekki getað framkvæmd brot sín án aðstoðar frá efnuðum einstaklingum og fjármálastofnunum,“ segir Bradley Edwards, lögfræðingur í teymi kvennanna, við BBC. „Við munum ekki hætta að berjast fyrir þolendunum fyrr en allir sem komu að málum hafa verið dregnir til ábyrgðar. Þetta er stórt skref í þá átt en markar engin endalok.“
Hann segir tímabært að þeir sem gerðu Epstein kleift að misnota stúlkur axli ábyrgð, hvort sem það eru auðugir einstaklingar eða bankarnir. „Þessir aðilar spiluðu stórt hlutverk.“