„Varðandi spurninguna um siðferði bólusetninganna þá væri hægt að ræða það lengi og hafa á því margar skoðanir,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir spurður hvort það sé siðferðilega réttlætanlegt að gefa þeim sem fengu bóluefni Janssen örvunarskammt á meðan innan við 2 prósent íbúa í fátækustu ríkjum heims hafa fengið nokkuð bóluefni yfir höfuð. „Sú stefna hefur hins vegar verið tekin hér að reyna að bólusetja sem flesta og gera það á eins áhrifaríkan hátt og mögulegt er,“ heldur Þórólfur áfram í skriflegu svari sínu við fyrirspurn Kjarnans. „Þar undir fellur sú ákvörðun að gefa þeim sem fengu Janssen örvunarskammt.“
Þórólfur greindi frá því á upplýsingafundi á fimmtudag að uppi væru áætlanir um að bjóða öllum þeim sem bólusettir eru með bóluefni Janssen hér á landi aukaskammt af öðru bóluefni. Líklega yrði bóluefni Pfizer-BioNtech fyrir valinu. „Sömuleiðis að bjóða fólki sem að líklegt er að hafi verr svarað bólusetningu en aðrir aukaskammt.“
Þetta mun að sögn Þórólfs ekki koma til framkvæmda fyrr en seinni hluta ágústmánaðar vegna þess að ákveðinn tími þarf að líða frá síðasta skammti þar til örvunarskammtur er gefinn. Ríkisstjórnin samþykkti áformin á föstudag og í frétt á vef heilbrigðisráðuneytisins, vegna hertra samkomutakmarkanna er sérstaklega fjallað um málið og þar segir: Í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis er þegar hafinn undirbúningur að því að bjóða þeim sem bólusettir hafa verið með bóluefni Janssen seinni bólusetningu í ágúst. Einnig verður einstaklingum með undirliggjandi ónæmisvandamál og þeim sem talið er að tveir skammtar veiti ekki nægilega góða vörn gegn COVID-19 boðinn þriðji skammtur bóluefnis.
Græðgi Vesturlanda
Eftir að smitum tók að fjölga á ný á Vesturlöndum hefur umræða um örvunarskammta af bóluefnum (e. Boosters) orðið háværari. Lyfjafyrirtækið Pfizer greindi frá því nýverið að það ætti í viðræðum við stjórnvöld í Bandaríkjunum um að gefa þeim sem fengið hefðu bóluefnið þriðja skammtinn.
Hins vegar hafa sérfræðingar Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) nýlega sagt að enn væru ekki komnar fram nægjanlegar sannanir fyrir því að þörf væri á þriðja skammtinum og hvöttu stjórnendur Pfizer, Moderna og fleiri bóluefnaframleiðenda, til að einbeita sér frekar að því að bæta aðgengi að bóluefnum um allan heim.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO sagði að græðgi væri drifkrafturinn í mismunun í bólusetningu milli heimshluta. „Við erum að taka meðvitaðar ákvarðanir núna um að vernda ekki þá sem þurfa mest á því að halda,“ sagði hann og að þeir sem ekki hefðu enn fengið einn einasta skammt af bóluefni ættu að ganga fyrir, áður en kæmi að því að gefa „örvunarskammta“ á Vesturlöndum. Bóluefnaframleiðendur ættu að gera allt sem þeir gætu til að styðja við COVAX-samstarfið og almennt við dreifingu bóluefna til fátækari ríkja heims.
Soumya Swaminathan, helsti vísindasérfræðingur WHO, sagði að WHO myndi gefa út tilmæli varðandi örvunarskammta byggð á vísindum – ekki yfirlýsingum einstakra lyfjaframleiðenda.
Michael Ryan, sem fer fyrir bráðaaðgerðum WHO, sagði að ef ríku löndin ákveða að gefa örvunarskammta í stað þess að gefa bóluefni til fátækari ríkja myndum við síðar „líta til baka í reiði og ég held að við myndum líta til baka með skömm“.
Einn af hverjum 76
Í ríkustu löndum jarðar, sem Ísland tilheyrir, hefur að meðaltali annar hver maður verið bólusettur. Í fátækari löndum hefur aðeins einn af hverjum 76 fengið bólusetningu eða um 1,32 prósent íbúa þeirra.
Rúmlega 53 þúsund manns hafa fengið bóluefni Janssen hér á landi. Um 21.500 eru á aldrinum 16-29 ára eða um 40 prósent, og um 16.400 á aldrinum 30-39 ára eða um 30 prósent allra sem fengið hafa bóluefnið.
Langflestir sem greinst hafa með COVID-19 síðustu daga eru á aldrinum 18-29 ára.
Því hefur ítrekað verið haldið fram bæði af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi og íslenskum stjórnvöldum að heimsfaraldrinum ljúki ekki fyrr en heimsbyggðin öll hafi verið bólusett. Í óbólusettum samfélögum er hætta á stökkbreytingum veirunnar mest. Því sé það allra hagur að bólusetja alla.