Þrír sjúklingar eru inniliggjandi á legudeildum Landspítalans með COVID-19. 608 eru í eftirliti á COVID-göngudeild, þar af 62 börn. Í heild eru 13 starfsmenn í einangrun, 27 í sóttkví og 244 í vinnusóttkví og mun þeim fjölga nokkuð í dag.
Skýringin er sú að um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum spítalans. Rakning er langt komin og enn er enginn grunur um smit út frá þessum smitum. Nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga fer í sóttkví, annars vegar sóttkví A og hins vegar vinnusóttkví. Einnig er skimað í kringum þessi smit, segir í tilkynningu frá farsóttarnefnd spítalans.
Áfram er verið að skoða breytt verklag í eldhúsi og matsölum varðandi matarskömmtun og matarsendingar á deildir í ljósi stöðunnar sem komin er upp í faraldrinum og er starfsfólk Landspítalans beðið um að gæta ítrustu sóttvarna.
71 innanlandssmit greindist í gær. Um helmingur fólksins var í sóttkví við greiningu. Þriðja farsóttarhúsið hefur verið opnað og í morgun voru fimmtán gestir þegar komnir þar inn. Gríðarlegt álag er á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem heldur utan um sýnatökur enda eftirspurnin orðin gríðarleg.