Ríki sem keypt hafa bóluefni AstraZeneca eru mörg hver að ganga lengra í varúðarráðstöfunum en Evrópska lyfjastofnunin telur óhætt. Stofnunin greindi frá því í vikunni að „möguleg tengsl“ hefðu fundist milli notkunar bóluefnisins og sjaldgæfs blóðtappa í heila. Hún telur enn að ávinningurinn af því að nota efnið trompi það að gera það ekki.
Yfirvöld í mörgum löndum hættu að nota bóluefni AstraZeneca tímabundið eftir að fréttir bárust af nokkrum dauðsföllum vegna blóðtappa hjá fólki sem fengið hafði fyrri skammtinn. Sum þeirra hafa ekki, þrátt fyrir niðurstöður og ráðleggingar Evrópsku lyfjastofnunarinnar og Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar, hafið bólusetningu með efninu á ný. Þau sem nota efnið í dag hafa mörg hver ákveðið að gefa það aðeins fólki yfir ákveðnum aldri þar sem dauðsföllin voru fyrst og fremst meðal fólks milli fertugs og fimmtugs.
Frönsk heilbrigðisyfirvöld hafa ákveðið að fólk undir 55 ára sem fengið hefur fyrri skammtinn af AstraZeneca skuli héðan í frá fá annað bóluefni, annað hvort frá Pfizer eða Moderna, í síðari skammti.
Spánn og Ítalía hafa einnig ákveðið að setja aldursmörk á notkun efnisins og eru hætt að gefa það fólki yngra en sextíu ára. Í Belgíu eru aldursmörkin dregin við 56 ára aldurinn. Þá ákvörðun á að endurskoða innan fjögurra vikna. Líkt og í Frakklandi hefur verið ákveðið að yngra fólk sem fengið hafði fyrri sprautu með AstraZeneca fái á meðan þessi óvissa ríki þá seinni af öðru efni. Þetta er verið að gera þrátt fyrir að WHO segi að engin gögn liggi fyrir um hvaða áhrif það hefur að skipta um bóluefni, eftir að bólusetning er hafin með efni frá öðrum framleiðenda.
Í Bretlandi hefur svo verið ákveðið að mæla með öðru bóluefni fyrir fólk á aldrinum 18-29 ára. Ástralar og Filippseyingar hafa einnig sett aldursmörk en Afríkubandalagið, sem semur um bóluefnakaup fyrir hönd landa innan álfunnar, hefur ákveðið að hætta við kaup á efninu.
Í Þýskalandi, Svíþjóð, Hollandi, Finnlandi og Norður-Makedóníu hafa einnig verið sett aldursmörk og efnið ekki gefið yngra fólki. Sömu sögu er að segja héðan frá Íslandi. Notkun efnisins var hætt tímabundið í byrjun mars líkt og víðar. Það var tekið í notkun á ný í lok mars en er nú einungis gefið fólki yfir sjötugu. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í gær að hugsanlega yrðu aldursmörkin færð niður í 65 ára sem yrði þá í samræmi við leiðbeiningar og notkun á því í Svíþjóð og Finnlandi.
Í Kanada er aðeins eldra fólki gefið bóluefni AstraZeneca. Þar í landi á nú að fara þá leið að lengja mjög tímann á milli fyrri og seinni sprautu allra bóluefnanna sem eru notuð. Er þetta gert til að bólusetja sem flesta á sem stystum tíma, með sérstakri áherslu á framlínustarfsfólk. Kanadísk heilbrigðisyfirvöld telja þetta gríðarlega mikilvægt en sambærileg leið hefur verið farin víðar, m.a. í Bandaríkjunum og Bretlandi. „Fullbólusettir“ eru mun færri en tölur yfir „bólusetta“ gefa til kynna.
Í Kanada munu nú líða allt að fjórir mánuðir á milli fyrri og fyrstu sprautu samkvæmt nýjum leiðbeiningum sóttvarnayfirvalda. Seinni skammtinn á þó að bjóða um leið og mögulegt er eftir að ákveðinn hluti allrar þjóðarinnar hefur fengið fyrri skammtinn. Í forgangi eru sem fyrr fólk í viðkvæmum hópum, eldra fólk og framlínustarfsmenn.
Ákvörðunin er m.a. byggð á nýjum rannsóknum sem þykja sýna að með fyrri sprautu bóluefna sem eru á markaði dragi verulega úr hættu á því að fólk veikist alvarlega, fái það COVID-19, eða um 80 prósent.
Danmörk og Noregur hafa enn ekki hafið bólusetningu með AstraZeneca á ný og nú eru komnar blikur á loft varðandi nýjasta bóluefnið sem fengið hefur markaðsleyfi í Evrópu: Bóluefni Johnson & Johnson sem dótturfyrirtæki þess Janssen framleiðir. Evrópska lyfjastofnun varaði við því í dag að það efni gæti mögulega valdið sambærilegum veikindum, blóðtappa, og AstraZeneca-bóluefnið. Bæði efnin eru framleidd með samskonar aðferðum.
Enn er ekki farið að nota Janssen-efnið í Evrópu en í Bandaríkjunum, þar sem notkun þess er hafin, hafa komið í ljós nokkur tilfelli blóðtappa hjá fólki sem hefur verið bólusett með því. Þessi tilfelli eru enn mjög fá, aðeins fjögur. Einn þeirra sem fékk blóðtappa í þriðja fasa rannsóknar á bóluefninu er látinn.
Þetta er enn eitt höggið í bóluefnaherferð heimsins og í Noregi, svo dæmi sé tekið, mun þetta mögulega hafa þau áhrif að markmiðum um bólusetningu bróðurparts landsmanna mun seinka nokkuð. Sérstaklega í ljósi þess að engin ákvörðun hefur enn verið tekin um hvort og þá hvenær farið verði að bólusetja með AstraZeneca á ný.
Mikil eftirvænting ríkti vegna Janssens-bóluefnisins þar sem það þarf aðeins að gefa í einni sprautu. Sóttvarnayfirvöld í Noregi segja að mögulega verði um 9-13 vikna dráttur á því að markmið um bólusetningar náist.
Sóttvarnarstofnun Noregs hefur nú yfir að ráða lager með 166 þúsund skömmtum af AstraZeneca-bóluefninu. Það hefur ekki verið notað í landinu í fjórar vikur. Hvort að notkun þess hefjist á ný mun koma í ljós 15. Apríl er yfirvöld skila af sér ítarlegum gögnum um mögulegar aukaverkanir þess.
„Ég er alveg handviss um það að það verður erfitt að byrja að nota þetta bóluefni aftur í Noregi,“ hefur NRK eftir Gunnveig Grødeland, bóluefnasérfræðingi við Háskólann í Ósló. Hún segist svartsýn á að það verði gert.