Rannsóknarnefnd á vegum breska þingsins mun rannsaka hvort Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hafi vísvitandi afvegaleitt þingmenn í umræðum um samkvæmi sem haldin voru á vegum forsætisráðuneytisins á tímum strangra sóttvarnaregla vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
Þetta var ákveðið á breska þinginu í gær í sérstakri umræðu um Partygate-hneykslið svokallaða. Þingmenn ríkisstjórnarinnar gerðu hvað þeir gátu til að tefja atkvæðagreiðslu um hvort vísa ætti máli forsætisráðherra til rannsóknarnefndar en hættu því skyndilega og varð skipan rannsóknarnefndarinnar því samþykkt. Rannsókn nefndarinnar mun þó ekki hefjast fyrr en rannsókn lögreglu á tíðum veisluhöldum í Downingstræti 10 lýkur en lögreglan er með tólf samkvæmi til rannsóknar.
„Ef stjórnarandstaðan vill einblína á þetta og ræða frekar er það í góðu lagi mín vegna,“ sagði Johnson, sem er staddur í opinberri heimsókn á Indlandi. Johnson var að minnsta kosti viðstaddur þrjú samkvæmi á vegum forsætisráðuneytisins, ýmist þegar útgöngubann eða strangar sóttvarnareglur voru í gildi vegna útbreiðslu COVID-19 voru í gildi. Hann hefur ítrekað beðist afsökunar en telur sig ekki þurfa að segja af sér embætti.
Rannsókn sérstaks saksóknara, lögreglurannsókn og nú rannsókn þingnefndar
Sue Gray, sérstakur saksóknari, er með 16 samkvæmi til rannsóknar, en hennar rannsókn felst í að meta eðli og tilgang veisluhaldanna ásamt því að taka saman hverjir voru viðstaddir. Um innri rannsókn er að ræða frekar en sjálfstæða rannsókn og er hún fyrirskipuð af Johnson sjálfum. Krafist er hlutleysi af hálfu Gray og ber henni að skila niðurstöðum sínum til forsætisráðherra. Hún skilaði bráðabirgðaskýrslu í lok janúar en lokaskýrsla er væntanleg þegar rannsókn lögreglu lýkur.
Johnson ávarpaði þingmenn í fyrsta sinn í vikunni eftir að lögregla sektaði hann, Carrie Johnson eiginkonu hans og Rishi Sunak, fjármálaráðherra Bretlands, fyrir að vera viðstödd afmælisveislu forsætisráðherra sem fram fór í Downingstræti 10 19. júní 2020.Fyrstu 20 sektirnar voru gefnar út í byrjun mánaðarins en þær telja nú 50 talsins og von er á fleirum.
Johnson var búinn að gefa það út að hann ætlaði að upplýsa um það yrði hann sektaður. Það gerði hann og í gær gaf hann út að hann hafi ekkert að fela, ætli ekki að standa í vegi fyrir rannsókn og er hann sannfærður um að Íhaldsflokkurinn vilji hann áfram sem leiðtoga.
Tveir þingmenn flokksins voru hins vegar allt annað en sáttir í umræðum í þingsal í dag. Steve Baker, fyrrverandi ráðherra, krafði Johnson um afsögn og William Wragg, þingmaður flokksins, hefur lagt fram vantrauststillögu á formennsku Johnson.
Litlar líkur á að niðurstaða nefndarinnar hafi áhrif á störf forsætisráðherra
Rannsókn nefndarinnar mun felast í því sem stjórnarandstöðuflokkarnir hafa haldið statt og stöðugt fram: Að Johnson hafi afvegaleitt þingmenn af ásettu ráði þegar hann sagði að gildandi sóttvarnareglum hafi ávallt verið fylgt í forsætisráðuneytinu og í viðburðum á vegum þess.
Þegar nefndin hefur komist að niðurstöðu mun hún leggja fram tillögur sem þingmenn greiða atkvæði um, em gætu meðal annars falist í einhvers konar refsiaðgerðum gegn forsætisráðherra. Litlar líkur eru þó taldar á því að málinu verði vísað til nefndarinnar í ljósi tryggs meirihluta Íhaldsmanna á þinginu.