Tímasetning á bólusetningu og smiti fólks af kórónuveirunni gæti verið lykilatriði þegar kemur að því að verjast ómíkron-bylgjunni. Rannsókn japanskra vísindamanna bendir til að fólk sem smitast hefur af kórónuveirunni nýju, SARS-CoV-2, nokkrum mánuðum eftir að hafa fengið bólusetningu hafi betri vörn gegn ómíkron-afbrigði veirunnar en þeir sem styttra leið á milli bólusetningar og sýkingar.
Í grein í vísindatímaritinu Nature um rannsóknina segir að þetta gæti þýtt að lönd þar sem smitbylgja annarra afbrigða en ómíkron gekk yfir á síðari hluta síðasta árs séu í betri stöðu nú í upphafi nýs árs en annars hefði verið.
Í mörgum löndum hefur hver smitbylgjan á fætur annarri riðið yfir og ónæmi þar með að einhverju leyti myndast gegn alvarlegum sýkingum. En í Japan er staðan nokkuð önnur og ónæmi fyrst og fremst tilkomið með bólusetningum með mRNA-bóluefnum.
Aðalhöfundur rannsóknarinnar, smitsjúkdómasérfræðingurinn Takeshi Arashiro, segir teymi hans hafa viljað vita hvort að þessi staða gerði það að verkum að japanska þjóðin væri sérstaklega móttækileg fyrir ómíkron-afbrigðinu. Enn sem komið er hafa ekki margir bólusettir sýkst af ómíkron í landinu.
Teymið safnaði mótefni frá Japönum sem höfðu fengið tvo skammta af bóluefni Pfizer en höfðu síðar sýkst annað hvort af alfa-afbrigði veirunnar eða delta. Þeir rannsökuðu svo hæfni mótefnisins til að vernda ræktaðar frumur gegn sýkingu af veirunni. Niðurstaðan var sú að sá tími sem hafði liðið frá bólusetningu og til sýkingar fólks skipti sköpum þegar kom að því að verjast endursýkingu – sérstaklega af völdum ómíkron-afbrigðisins.
Samræmist almennum skilningi vísindanna
Nature ræðir einnig við ónæmissérfræðinginn Jennu Guthmiller sem starfar við Háskólann í Chigago. Hún segir rannsókn japönsku vísindamannanna, sem ekki hefur enn verið ritrýnd, áhugaverða og að hún samræmist almennum skilningi vísindanna á því hvernig mótefni virka og breytast með tímanum.
Guthmiller útskýrir að bólusetning kalli fram mótefnasvar í líkamanum rétt eins og náttúruleg sýking. Ef manneskja sýkist fljótlega eftir bólusetningu eru mótefnin líklega enn í blóðrásinni þar sem þau bindast veirunni og útrýma henni.
Þegar manneskja hins vegar sýkist nokkrum mánuðum eftir bólusetningu hefur hún myndað minnisfrumur sem þekkja sýkilinn (veiruna) er hann reynir inngöngu í líkamann og getur, fræðilega séð, varist sýkingu betur.
Þar sem náttúrulegt ónæmi er lítið í Japan eru miklar vonir bundnar við örvunarskammta bóluefnanna til að verjast ómíkron. Örvunarskammtarnir gætu mögulega virkað eins og hin sviðsetta endursýking í japönsku rannsókninni en það á hins vegar enn eftir að rannsaka sérstaklega.