Tólf einstaklingar greindust smitaðir af COVID-19 innanlands í gær en þar af voru fimm í sóttkví. Ekki er vitað hvert hlutfall bólusettra er í þessari tölu en á síðustu dögum hefur hátt hlutfall þeirra sem greinst hafa með COVID-19 verið bólusett. Á síðustu fimm dögum hafa 36 greinst smituð af COVID-19 innanlands.
Samkvæmt tilkynningu frá Almannavörnum stendur smitrakning enn yfir. „Ekki er enn vitað hvert hlutfall bólusettra er í þessari tölu. Eins og síðustu daga þá stendur smitrakning yfir, eftir daginn í gær eru 340 manns í sóttkví og 97 í einangrun, búast má við að enn fleiri fari í sóttkví eftir daginn í dag.“
Á landamærunum greindust einnig tólf smitaðir af COVID-19.
Breytingar á sóttvörnum væntanlegar
Fram kom í frétt Vísis í gær að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hygðist leggja til breytingar á sóttvörnum á landamærunum vegna þeirrar aukins smits. Hann vildi ekki gefa upp hverjar tillögur hans til ráðherra yrðu en sagði að minnisblað væri í smíðum.
65 manns höfðu greinst með delta-afbrigði kórónuveirunnar hér á landi þann 13. júlí. Líkt og áður segir stendur raðgreining yfir á smitum síðustu daga svo talan kann að vera hærri. Þórólfur sagði í svari við fyrirspurn Kjarnans að til greina komi að hefja skimanir á bólusettum ferðamönnum fari svo að delta-afbrigðið haldi áfram að greinast í miklum mæli. Hætt var að skima bólusetta ferðamenn við komuna tili landsins þann 1. júlí.