Ákveðið hefur verið að bjóða bæði gestum og starfsfólki á tónleikum sem fram fóru í Hörpu síðasta föstudagskvöld að mæta í aðra skimun fimmtudaginn 11. mars. Hópnum var einnig boðið upp á sýnatöku í gær, en er þau sýni voru tekin voru innan við þrír sólarhringar síðan tónleikarnir fóru fram.
Skimunin er sögð varúðarráðstöfun, í tilkynningu frá almannavörnum. Allir tónleikagestir og starfsfólk eru eindregið hvött til að mæta og jafnframt hvött til þess að huga vel að persónulegum smitvörnum og takmarka samskipti við aðra þar til niðurstaða liggur fyrir.
Kjarninn spurði Þórólf Guðnason sóttvarnalækni út í það í gær hvort öruggt væri að kórónuveiran myndi greinast í sýnatökum gærdagsins, ef fólk hefði smitast á tónleikunum á föstudag. Það sagði hann ekki alveg öruggt, en taldi þó ekki þörf á að skima allan hópinn aftur.
„Ég held að það sé nú kannski ekki þörf á því,“ sagði Þórólfur í samtali við Kjarnann, en undanfarið ár, frá því að veirufaraldurinn hóf að raska venjulegu lífi, hefur oft komið fram að það getur tekið nokkra daga frá því að fólk verður útsett fyrir veirunni og þar til einstaklingar greinast jákvæðir fyrir COVID-19 í prófum.
Í grein á Vísindavefnum frá því í október segir að það taki um 3-4 daga að jafnaði frá því að fólk byrjar að verða smitandi með COVID-19 eftir að hafa smitast sjálft. „Þetta passar við þá staðreynd að það tekur einnig nokkra daga fyrir sýni að verða jákvætt fyrir SARS-CoV-2 úr stroki frá upphafi smits,“ segir í greininni.