Alþjóðasamtökin Transparency International lýsa yfir miklum áhyggjum af því sem fram hefur komið í umfjöllunum Kjarnans og Stundarinnar undanfarna daga um starfshætti starfsmanna, ráðgjafa og lögmanna Samherja.
Í yfirlýsingu á vef samtakanna er meðal annars fjallað um það sem fram kom í Kjarnanum um helgina, að starfsmenn Samherja hafi rætt um að safna upplýsingum um stjórnarmenn í Íslandsdeild Transparency International til þess að draga úr trúverðugleika þeirra.
„Fyrirtæki sem vilja sanna heilindi sín nota ekki undirförular aðferðir gagnvart þeim sem segja frá staðreyndum í þágu almannahagsmuna,“ er haft eftir Daniel Eriksson, framkvæmdastjóra skrifstofu samtakanna í Berlín, í yfirlýsingunni.
„Það er óskiljanlegt að Samherji hafi safnað persónuupplýsingum til þess að saurga orðspor Transparency International á Íslandi og annarra sjálfstæðra radda. Ísland þarf þróttmikið og varið borgaralegt samfélag til þess að veita valdi aðhald, sama hvar valdið liggur,“ er einnig haft eftir Eriksson.
Alþjóðasamtökin Transparency segjast standa með Íslandsdeild sinni og íslenskum almenningi, en á mánudag kallaði Íslandsdeildin eftir „breiðfylkingu almennings, félagasamtaka, stéttarfélaga, samtaka uppljóstrara, fræðasamfélags, stjórnmálanna og allra þeirra sem vettlingi geta valdið gegn tilraunum fyrirtækisins og „skæruliða“ til að grafa undan samfélagssáttmálanum og gildum þeim er hann byggir á.“
Transparency International segir í yfirlýsingu sinni í dag að ásakanir á hendur Samherja þurfi að rannsaka af hálfu yfirvalda — og ef í ljós komi að ásakanir á hendur fyrirtækinu verði staðfestar þurfi að draga fyrirtækið og fulltrúa þess til ábyrgðar.
Í umfjöllun Kjarnans á sunnudag kom meðal annars fram að Páll Steingrímsson, skipstjóri hjá Samherja, hefði spurt félaga sína í samskiptamiðlahópnum „PR Namibia“, Þorbjörn Þórðarson, ráðgjafa Samherja í almannatengslum, og Örnu Bryndísi McClure, yfirlögfræðing Samherjasamstæðunnar, að því hverjir væru í forsvari fyrir Íslandsdeild samtakanna Transparency International.
Honum var bent á að spyrja: „þmb [Þorstein Má Baldvinsson] út í þetta fólk. Hann veit allt um ansi mörg þeirra[...]og Jónas út í guðrunu [Johnsen, formann stjórnar Transparency International á Íslandi]. Hann þekkir eitthvað út í hennar forsögu“.
Umræddur Jónas er Sigurgeirsson og rekur Almenna bókafélagið sem gaf meðal annars út bókina Gjaldeyriseftirlitið – vald án eftirlits?, þar sem fjallað var með afar neikvæðum hætti um rannsókn Seðlabanka Íslands á Samherja sem hófst árið 2012.
Samherji keypti stórt upplag af bókinni og gaf starfsfólki sínu í jólagjöf. Jónas var upplýsingafulltrúi Kaupþings fyrir bankahrun og er giftur Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra í Hafnarfirði og oddvita Sjálfstæðisflokksins þar. Guðrún Johnsen, sem er doktor í hagfræði, vann meðal annars að gerð skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, skrifaði bók um íslenska bankahrunið, sat í stjórn Arion banka í átta ár, hefur starfað sem efnahagsráðgjafi VR og starfað í akademíu í rúm 20 ár.