Karl III. konungur mun ekki sækja loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP27, sem fram fer í Egyptalandi í nóvember.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá konungshöllinni í kjölfar fréttar the Sunday Times um helgina þar sem fullyrt er að Liz Truss, forsætisráðherra Bretlands, hafi „skipað“ kónginum að mæta ekki.
Í tilkynningu konungshallarinnar segir að konungurinn hafi leitað ráða hjá forsætisráðherranum. „Í sátt og samlyndi og af virðingu var það samróma samkomulag að konungurinn mun ekki sækja ráðstefnuna,“ segir í tilkynningu hallarinnar.
Karl hafði lýst yfir áhuga á að sækja ráðstefnuna áður en hann tók við krúnunni í síðasta mánuði við fráfall Elísabetar II. Englandsdrottningar, móður hans. Konunglegur fréttaritari BBC telur að ráðleggingar forsætisráðherra hljóti að valda konunginum vonbrigðum þar sem hann hefur sýnt umhverfismálum ástríðu svo áratugum skiptir.
COP er stytting á enska heitinu „Conference of the Parties“ eða ráðstefna aðildarríkja og er þar vísað til alþjóðlegra samninga, annars vegar um loftslagsmál og hins vegar fjölbreytni lífríkisins. Sameinuðu þjóðirnar skipuleggja ráðstefnurnar en þátttakendur eru háttsettir fulltrúar ríkja, staðbundinna samtaka og frjálsra félagasamtaka. Loftslagsráðstefnan í Egyptalandi verður sú 27. í röðinni og kallast því styttingar og einföldunar COP27.
Karl flutti ávarp á COP26 í Glasgow á síðasta ári, þá sem prinsinn af Wales. Strax að ráðstefnunni lokinni sýndi hann áhuga á að taka þátt í COP27 þar sem hann ferðaðist til Egyptalands, með samþykki þáverandi ríkisstjórnar Bretlands, og fundaði með Abdel Fattah Al-Sisi, forseta Egyptalands.
Talaði um loftslagsbreytingar á meðan flestir þögðu
Karl hefur verið ötull talsmaður fyrir umhverfis- og loftslagsmálum, löngu áður en slík mál komust í almenna umræðu. Árið 1968 talaði hann um loftslagsbreytingar í ræðu sinni, hugtak sem fáir könnuðust við á þeim tímapunkti.
Þegar hann tók við krúnunni fyrir tæpum mánuði síðan heyrðust raddir þær efnis að konungurinn myndi ekki tóna niður ástríðu sína fyrir umhverfismálum. En konungurinn þarf að fara eftir strangari reglum, það er, að viðhalda pólitísku hlutleysi.
Markmið COP síðustu ár hefur verið að hægja á loftslagsbreytingum, einna helst með því að halda hlýnun jarðar undir 1,5 gráðum. Í lokayfirlýsingu ráðstefnunnar í fyrra var í fyrsta sinn kveðið á um að draga úr kolanotkun. Viðfangsefni ráðstefnunnar í ár eru snúin, ekki síst vegna orkukrísunnar sem ríkir vegna innrás Rússa í Úkraínu.
Ekki er þó útilokað að konungurinn muni koma að ráðstefnunni með einum eða öðrum hætti. Í Glasgow í fyrra flutti Elísabet Englandsdrottning ávarp en í gegnum fjarfundarbúnað. Ekki er útilokað að Karli muni gera slíkt hið sama í ár í Egyptalandi þó svo að Truss hafi meinað honum að mæta í persónu. COP27 hefst 8. nóvember og lýkur þann 16.
Tobias Ellwood, þingmaður Íhaldsflokksins, vonar að almenn skynsemi muni ráði för og að konunginum verði leyft að sækja ráðstefnuna. Í færslu á Twitter segir hann að konungurinn njóti virðingar um allan heim þegar kemur að umhverfismálum og loftslagsmálum. „Nærvera hans mun styrkja og valdefla bresku sendinefndina.“
👇
— Tobias Ellwood MP (@Tobias_Ellwood) October 1, 2022
I hope common sense will prevail.
King Charles is a globally respected voice on the environment and climate change.
His attendance would add serious authority to the British delegation.
Can we really go from hosting COP26 to benching soft power at COP27? pic.twitter.com/Zq8nEFn7k1