Eftirlitsdýralæknir á vegum Matvælastofnunar var viðstaddur er langreyðartarfi var landað í Hvalfirði á mánudag, en fjórir sprengiskutlar voru notaðir við veiðina. Samkvæmt upplýsingum frá dýralækninum geiguðu fyrstu tvö skot hvalveiðimanna á bátnum Hval 8 með þeim hætti að þau hæfðu hvalinn of framarlega, fóru í höfuð hans og sprungu því ekki.
Þetta kemur fram í svari Sigurborgar Daðadóttur yfirdýralæknis Matvælastofnunar við fyrirspurn Kjarnans, þar sem óskað var eftir nánari upplýsingum um löndun langreyðartarfsins.
Kjarninn sagði frá því á þriðjudag að fjórum skutlum hefði verið beitt, sem þýðir að dauðastríð hvalsins hefur að líkindum verið langdregið, einhversstaðar úti á miðunum. Alla jafna á einn sprengiskutull að duga til þess að granda hvölum.
Myndir sem samtökin Hard to Port, sem berjast fyrir því að hvalveiðum við Íslandsstrendur verði hætt, birtu af löndun og verkun hvalsins, sýndu þrjá skutla standa út úr dýrinu er það kom á landi. Fjórði sprengiskutullinn gekk svo að öllu leyti inn í hold dýrsins og kom ekki í ljós fyrr en starfsmenn Hvals hf. hófu að brytja skrokkinn í sundur á bryggjunni.
Eins og Kjarninn hefur sagt frá hafa fleiri dæmi verið um að skot hvalveiðimanna geigi við langreyðarveiðar á undanförnum vikum og fleiri en einn sprengiskutul hafi þurft til að granda þessum miklu skepnum.
Hvalveiðarnar til „frekari rannsóknar“ hjá MAST
Sigurborg segir í skriflegu svari til Kjarnans að hvalveiðarnar í sumar séu „til frekari rannsóknar hjá Matvælastofnun“ og að í kjölfarið verði „lagt mat á hvort þær samræmist 27. gr. laga um dýravelferð sem fjallar sérstaklega um hvernig staðið skuli að veiðum.“
Eins og fram hefur komið er Matvælastofnun ekki ætlað að hafa reglubundið eftirlit með veiðum villtra dýra, en stofnuninni er þó almennt ætlað að framfylgja lögum um velferð dýra. Í 27. grein þeirra laga segir meðal annars að ávallt skuli „staðið að veiðum þannig að það valdi dýrunum sem minnstum sársauka og aflífun þeirra taki sem skemmstan tíma“ og að veiðimönnum sé skylt „að gera það sem í þeirra valdi stendur til að aflífa þau dýr sem þeir hafa valdið áverkum.“ Þá segir einnig í lagagreininni að við veiðar sé „óheimilt að beita aðferðum sem valda dýri óþarfa limlestingum eða kvölum“.
„Reikna má með að rannsókn geti tekið einhvern tíma,“ segir Sigurborg í svari til Kjarnans.
Ráðherra vill sjá dýraeftirlitsmenn skipaða í áhafnir
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra sagði í samtali við Kjarnann nýlega að það væri alveg skýrt í hennar huga að ef atvinnugreinar sem byggðu á dýrahaldi eða veiðum gætu ekki tryggt mannúðlega aflífun dýra, ættu þær sér „enga framtíð í nútímasamfélagi“.
Svandís hefur lagt fram til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda drög að breytingum á reglugerð um hvalveiðar, en breytingarnar sem ráðherra leggur til myndi hafa þau áhrif að skipstjórum yrði skylt að tilnefna einn áhafnarmeðlim sem dýravelferðarfulltrúa. Sá einstaklingur þyrfti að sækja námskeið hjá Matvælastofnun, auk þess sem honum væri ætlað að taka upp myndefni um borð og láta eftirlitsdýralækni stofnunarinnar í té.
Hvalur hf. hefur sent inn umsögn í samráðsgátt stjórnvalda um fyrirhugaðar reglugerðarbreytingar ráðherra, og segist fyrirtækið þar meðal annars telja það „vandséð, vægt til orða tekið, að umþrætta reglugerðarbreytingar rúmist innan meðalhófsreglunnar“ eins og hún hefði verið skýrð og túlkuð og kom fyrirtækið því á framfæri að það teldi ráðherra skorta lagastoð til þess að setja á umræddar kvaðir um dýraeftirlitsmenn.
Hagsmunasamtök útgerðarfyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, komust einnig að þeirri niðurstöðu í umsögn sinni um fyrirhugaðar reglugerðarbreytingar að viðunandi lagastoð væri ekki til staðar, auk þess sem hægt væri að ná sömu markmiðum og reglugerðinni væri ætlað að ná með „öðrum og vægari aðferðum.“