Yfirmaður leyniþjónustu úkraínska hersins hefur varað við því að Rússar gætu haft áætlanir uppi um að skipta Úkraínu í tvennt í ljósi þess að verr gangi að hernema landið allt en vonast var til. Þannig virðist rússneskar hersveitir nú einbeita sér að svæðum í austur- og suðurhluta Úkraínu og hörfa frá þar sem verr gengur, svo sem í höfuðborginni Kænugarði.
Kyrylo Budanov segir því hættu á að sköpuð verði eins konar Kórea í Úkraínu, þar sem landinu verði skipt á milli hernumdra og óhernumdra svæða. Úkraína ætlar þó ekki að láta þar við sitja, og er haft eftir Budanov að fljótlega eigi að hefja skæruliðahernað á þeim svæðum sem Rússar hafa þegar náð á sitt vald.
Rúmlega mánuður er síðan innrás Rússlands í Úkraínu hófst, en er hún talin ganga mun hægar og erfiðar fyrir sig en ráðamenn í Kreml höfðu vonað. Sérfræðingar telja að um sé að kenna meðal annars bágum undirbúningi hermanna og lélegum tækjabúnaði, og er þolinmæði Vladimírs Pútín Rússlandsforseta sögð á þrotum, en hann er til að mynda sagður hafa rekið fjölmarga herforingja og kennt þeim um hægaganginn.
Nú eru hins vegar teikn á lofti um að hann sé hættu að eygja von um algjöra yfirtöku og ætli þess í stað að einbeita sér að svæðum í austur- og suðurhluta Úkraínu sem þegar eru að miklu leyti komin undir stjórn Rússa.
Fregnir hafa til að mynda borist af því að hersveitir Rússa sem staddar voru norðan við höfuðborgina Kænugarð séu að horfa í gegnum Chernobyl, sem Rússar náðu á sitt vald snemma í innrásinni, og til Hvíta-Rússlands. Þó er ekki útilokað að um sé að ræða einhvers konar endurskipulagningu og að hersveitirnar snúi tvíefldar til baka til að halda áfram árásunum á Kænugarð, sem hingað til hafa borið takmarkaðan árangur. Í öllu falli er ljóst að talsverðra áherslubreytinga er þörf ef halda á áfram áætlunum um að hertaka Úkraínu í heild sinni.