„Það eru um 100.000 skammtar til hjá okkur af Covid-bóluefni, mest til af Pfizer og Moderna,“ segir Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins Distica sem sér um geymslu þeirra. Af þessum skömmtum eru um 25 þúsund af bóluefni Pfizer. Von er á 50.000 skömmtum af bóluefni næstu vikurnar.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir tilkynnti í gær að tími örvunarskammts bólusetningar gegn COVID-19 eftir skammt númer tvö yrði styttur í fjóra mánuði. Hingað til hefur verið mælt með því að 5-6 mánuðir séu látnir líða á milli.
Nokkuð misjafnt er milli landa er hversu langur tími er látinn líða í örvunarbólusetninguna. 4-6 mánuðir er algengt en sem dæmi þá ákváðu yfirvöld í Nýju Suður-Wales í Ástralíu í gær að stytta tímann í þrjá mánuði.
Þórólfur sagði í pistli sínum á covid.is að þessi nýja tilhögun kæmi til framkvæmda í næstu viku, þ.e. frá og með 24. janúar. Stefnt sé að því að fólk verði kallað inn í bólusetninguna.
Í pistli Þórólfs kom ennfremur fram að örvunarbólusetningin yrði með bóluefni frá Moderna eða Pfizer en benti á að takmarkað magn af bóluefni Pfizer væri nú til staðar í landinu.
77 prósent allra Íslendinga eru fullbólusettir, þ.e. hafa fengið tvo skammta af bóluefni. Tæplega 176 þúsund manns hafa að auki fengið örvunarskammt. Frá því að bólusetningarherferð vegna COVID-19 hófst hér á landi í upphafi árs 2020 hafa rúmlega 753 þúsund skammtar verið gefnir.
Langtum flestir hafa fengið bóluefni Pfizer eða um 168 þúsund landsmanna. Fæstir hafa verið fullbólusettir með Moderna eða rúmlega 20 þúsund. Síðustu mánuði hafa mjög fáir skammtar af bóluefni AstraZeneca og Janssen verið gefnir.