Aðeins lítill hluti þess bóluefnis sem dreift hefur verið um heimsbyggðina hefur ratað til fátækustu íbúanna. Gjáin milli ríkra og fátækra, sem var djúp fyrir, hefur því dýpkað enn meira vegna faraldurs COVID-19. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri rannsókn Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP).
Í september síðastliðnum setti Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) fram það metnaðarfulla markmið að 70 prósent allra jarðarbúa yrðu bólusettir um mitt árið 2022. Þá höfðu aðeins rétt rúmlega þrjú prósent íbúa fátækustu ríkjanna fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni en yfir 60 prósent íbúa þeirra efnameiri.
Nú, sex mánuðum síðar, erum við ekki einu sinni að nálgast það að ná þessu markmiði WHO.
Framleiðsla á bóluefnum hefur aukist stórkostlega á þessum tíma en einnig ójöfnuður þegar kemur að dreifingu þeirra. Aðeins eitt prósent af þeim tæplega 11 milljörðum skammta sem hefur verið dreift hefur ratað til efnaminni landa.
„Þetta þýðir að 2,8 milljarðar manna í heiminum eru enn að bíða eftir að fá sína fyrstu sprautu,“ segir tilkynningu UNDP. Stofnunin segir að þessi mismunun stefni öryggi og heilsu allra í hættu. Ekki aðeins auki þetta hættuna á því að faraldurinn dragist á langinn heldur hægi einnig á efnahagsbata heilu landanna – landa sem geta þá ekki greitt af lánum sínum eða fjárfest í grunnþjónustu. Atvinnuleysi er enn útbreitt og skuldir fólks og heimila hækka.
Ríkin sunnan Sahara verst sett
Rannsókn UNDP leiddi í ljós að Afríkuríki sunnan Sahara, m.a. Búrúndi og Austur-Kongó eru verst sett. Þar er innan við eitt prósent íbúa bólusett. Utan Afríku eru Haítí og Jemen í verstu stöðunni en þar eru innan við tvö prósent íbúa bólusett.
UNDP segir að ef efnaminni ríki hefðu haft sama bólusetningarhlutfall og þau efnameiri í september á síðasta ári (um 54 prósent) hefði verg landsframleiðsla þeirra verið 16 milljörðum Bandaríkjadala meiri í fyrra en raun bar vitni. Þau ríki sem töpuðu mest af óréttlátri dreifingu bóluefna í faraldrinum samkvæmt greiningum UNDP eru Eþíópía, Austur-Kongó og Úganda.
Þótt faraldurinn og aðgerðir vegna hans hafi komið illa niður á vinnandi fólki alls staðar í heiminum er himinn og haf á milli áhrifanna sem fólk í efnameiri ríkjum varð fyrir og þeirra efnaminni. Ríkari lönd fóru í ríkiskassann og greiddu út alls konar bætur og styrki en því var og er almennt ekki fyrir að fara í fátækari löndum. Raunin er sú að bótagreiðslur, ef einhverjar voru, drógust saman enda engir djúpir ríkiskassar að grafa í.
Brýnt er að leiðrétta þessa óréttlátu dreifingu bóluefna sem fyrst og auka á sama tíma aðgang að fjármagni, svo sem í gegnum Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, að mati UNDP.
„Ef ekki verður tekið á ójafnri dreifingu bóluefna sem fyrst þá verða afleiðingarnar grafalvarlegar,“ segir í skýrslu UNDP. Líkt og Michelle Bachelet, yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum segir, þá þarf að auka samvinnu ríkja til að dreifa bóluefnum til að ná því sameiginlega markmiði að stöðva framgang faraldursins alls staðar. Áframhaldandi ójöfnuður mun ýta undir misrétti, átök og ofbeldi og uppbygging hagkerfa efnaminni landa, sem náðst hefur árangur í síðustu ár, tapast.