Fjögur kórónuveirusmit greindust innanlands í gær, þar af var eitt utan sóttkvíar. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að einstaklingarnir þrír sem greindust í gær og voru í sóttkví voru hafi verið nýkomnir í sóttkví. Smit gærdagsins tengjast þeim smitum sem greindust í fyrradag en þá greindust tveir einstaklingar utan sóttkvíar.
Þórólfur sagði á fundinum að nokkrir tugir hafi þurft að fara í sóttkví í kjölfar smitana tveggja sem greindust í fyrradag. Hann sagði að umfangsmiklar skimanir stæðu nú yfir vegna smitana og að búast mætti við því að fleiri muni greinast á næstu dögum af þeim sem hafa þurft að fara í sóttkví. Síðastliðna viku hafa 17 greinst með COVID-19, þar af 14 í sóttkví, og sagði Þórólfur því ljóst að veiran væri hér enn í samfélaginu.
Íslensk erfðagreining skimar á landamærum
Heilbrigðisráðuneytið hefur farið þess formlega á leit við Íslenska erfðagreiningu að fyrirtækið taki að sér greiningu á sýnum á landamærunum út júnímánuð. Að sögn Þórólfs mun það létta verulega á sýkla- og veirufræðideild Landspítala en von er á auknum fjölda ferðamanna hingað til lands. Auknum fjölda fylgi auknar áskoranir og því notaði Þórólfur tækifærið og hrósaði starfsfólki sem sér um sýnatökur á landamærunum fyrir vel unnin störf.
Líkt og áður er stefnan sett á að verulega verði hægt að létta á takmörkunum, bæði innanlands og á landamærum, um eða eftir miðjan júní. Þórólfur sagði að líklegt megi teljast að búið verði að bólusetja á milli 60 og 70 prósent þjóðarinnar þegar þar að kemur og þá verði hægt að ráðast í tilslakanir. „Við erum núna á viðkvæmum tíma þar sem samfélagslegt ónæmi er ekki nægilegt til að koma í veg fyrir alvarlegar hópsýkingar þannig að það er mikilvægt að við gætum okkar vel og höldum áfram að huga að einstaklingsbundnum sóttvörnum.“
Kanna orsakatengsl milli bólusetninga og alvarlegra veikinda og dauðsfalla
Þórólfur greindi frá því að landlæknir og sóttvarnalæknir í samvinnu við lyfjastofnun væru að hefja vinnu við mat á alvarlegum atburðum sem orðið hefðu í kjölfar bólusetninga og yrðu sú vinna unnin af óháðum sérfræðingum. Hann sagði að um 20 tilkynningar um dauðsföll í kjölfar bólusetninga vegna COVID-19 hefðu borist Lyfjastofnun og um 20 tilkynningar vegna blóðsegavandamála.
Hann sagði það enn óljóst hvort tilkynnt dauðsföll og veikindi tengdust bólusetningum. „Ef við skoðum grunntíðni vikulegra dauðsfalla og blóðsegavandamála að undanförnum árum þá er ekki hægt að greina neina aukningu núna á undanförnum vikum meðan bólusetning hefur staðið yfir. Það er allavega ánægjulegt í sjálfu sér að Við erum ekki að sjá neina aukningu sem að gæti skýrst af bólusetningunum en auðvitað er ekki hægt að útiloka orsakasamhengi hjá einstaka einstaklingum og þetta viljum við skoða betur,“ sagði Þórólfur.