Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Ölfuss segja ekki koma til greina að það efni sem fyrirhugað er að vinna úr fjallinu Litla-Sandfelli í Þrengslum og flytja úr landi frá Þorlákshöfn, verði fært um Þrengslaveg og Þorlákshafnarveg í almennri umferð.
„Ekki kemur til greina að efni verði flutt frá námum eftir almenna þjóðvegakerfinu. Finna þarf aðrar leiðir svo sem blöndu af námuvegum og færiböndum,“ segir í bókun sjálfstæðismanna, sem fara með hreinan meirihluta í bæjarstjórninni.
Í bókun tveggja nýrra bæjarfulltrúa flokksins segir aukinheldur að ef ekki verði hægt að uppfylla þá „sjálfsögðu kröfu að flutningur efnis fari ekki um hið almenna þjóðvegakerfi“ verði verkefninu sjálfhætt.
Ekkert fjallað um námuvegi eða færibönd í umhverfismatsskýrslu
Umhverfismatsskýrsla vegna fyrirhugaðrar námuvinnslu í Litla-Sandfelli á vegum félagsins Eden Mining liggur frammi til umsagnar hjá Skipulagsstofnun þessa dagana. Mögulegir námuvegir og færibönd úr Þrengslum niður í Þorlákshöfn eru ekki nefndir einu orði í skýrslunni, heldur er gengið út frá því að keyrt verði með efnið úr Þrengslum. Sveitarfélagið Ölfus gerði enga kröfu um að möguleg umhverfisáhrif námuvega eða færibanda yrðu tekin til skoðunar í umhverfismatsskýrslunni.
Samkvæmt skýrslunni má gera ráð fyrir að alls 33.350 vörubílaferðir verði farnar á ári hverju á milli námunnar og Þorlákshafnar, eða 222 ferðir á dag fram og til baka, að því gefnu að ekið verði með efni 300 daga á ári. Þetta samsvarar um 9,7-13,4 prósenta aukningu umferðar um vegkaflann sem um er að ræða.
Rúmlega fjórtán kílómetra leið er frá Litla-Sandfelli og niður að höfninni í Þorlákshöfn, þar sem fyrirtækið Heidelberg Cement, þýskur iðnrisi sem er með starfsemi víða um heim og er meirihlutaeigandi í íslenska félaginu Hornsteini sem m.a. rekur BM Vallá og Björgun, hefur fengið úthlutaðri alls 49 þúsund fermetra lóð í grennd við höfn bæjarins til vinnslu efnisins.
Styr hefur verið um þessi mál á bæjarmálasviðinu í Ölfusi undanfarnar vikur og fulltrúar minnihlutans hafa sett fram gagnrýni á áformin.
Í bókun sem bæjarstjórnarmeirihlutinn lagði fram á fundinum síðasta fimmtudag segir að nánast ekkert af því sem fram hafi komið í máli fulltrúa minnihlutans eigi „stoð í veruleikanum“.
Meirihlutinn segir sömuleiðis að engar ákvarðanir hafi verið teknar, málið sé eingöngu á umræðustigi og ekki sé talin ástæða til þess, að svo stöddu, að hverfa frá samtali við Heidelberg.
Minnihlutinn efast um gildi verkefnisins fyrir atvinnulífið
Gunnsteinn R. Ómarsson, sem var bæjarstjóri í Ölfusi árin 2013-2018, er nú orðinn varamaður í bæjarstjórninni fyrir hönd B-lista Framfarasinna. Í bókun sem hann lagði fram á fundinum fyrir hönd minnihluta bæjarstjórnar, B-lista og H-lista, sagði að ekki ætti að halda áfram með verkefnið fyrr en íbúar væru búnir að fá greinargóða og gagnrýnda kynningu, ekki aðeins frá framkvæmdaraðila heldur öðrum og ólíkum hagsmunaaðilum.
„Það er ljóst að það eru a.m.k. tvö ár síðan samstarf sveitarfélagsins og þessara aðila hófst með viljayfirlýsingu þar sem sérstaklega var kveðið á um að á undirbúningstíma úthluti sveitarfélagið ekki öðrum aðilum tilgreindar lóðir nærri hafnarsvæðinu sem fyrirhugað er að félagið nýti undir byggingar sem það þarf vegna starfsemi sinnar. Nú hefur þessum lóðum verið úthlutað, umhverfismatsskýrslan liggur fyrir hjá Skipulagsstofnun til umsagnar og ef ekki þykir ástæða til að hafa samfélagið með í áframhaldandi ákvörðunartöku hvenær þá?“ sagði í bókun minnihlutans.
Minnihlutinn sagði einnig að skoða þyrfti málið í stærra samhengi, t.d. í sambandi við framtíðaruppbyggingu á atvinnustarfsemi við höfnina í Þorlákshöfn.
„Gert er ráð fyrir 60-80 störfum í Heidelberg verkefninu sem tekur upp allar lausar lóðir við höfnina eða um 50.000 fm. lands og 25 ha. svæðis sem er undir í Þrengslunum. Sem sagt mjög fá störf m.v. upptöku lands, þar sem gæðalóðir við höfnina eru af skornum skammti,“ sagði í bókun minnihlutans í bæjarstjórninni.
Báðust afsökunar á því að hafa samþykkt lóðaúthlutun
Tveir fulltrúar B-lista Framfarasinna sem eiga sæti í skipulagsráði sveitarfélagsins greiddu atkvæði með lóðaúthlutuninni til Heidelberg Cement á fundi fyrr í sumar. Fyrir rúmri viku síðan báðust fulltrúarnir hins vegar afsökunar á því, í aðsendri grein sem þær birtu í staðarmiðlinum Hafnarfréttum.
„Margur kann að hugsa að þessi grein sé skrifuð af pressu frá samflokksmönnum, H-listanum eða vegna umræðunnar í samfélaginu en það er svo sannarlega ekki málið. Þeir sem standa okkur næst vita að svo er ekki. Málið búið að liggja þungt á okkur enda var okkur strax ljóst að við gerðum mistök. En til að læra af mistökunum þurfum við að horfast í augu við þau og viðurkenna þau,“ sögðu þær Hrönn Guðmundsdóttir og Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir í grein sinni.