Að minnsta kosti 115 greindust með veiruna innanlands í gær samkvæmt tölum sem birtar voru á COVID.is í morgun. Enn er verið að greina sýni gærdagsins svo að tala um smitfjölda á eftir að hækka, segir í tilkynningu almannavarna. Mikill meirihluti þeirra 115 sem þegar hafa verið greindir eða rúmlega 77 prósent voru ekki í sóttkví og sömuleiðis voru langflestir bólusettir. Tæplega 6.000 sýni voru tekin í gær og hafa þau ekki verið fleiri það sem af er ári.
Í fyrradag voru smitin 123 og hafa þau ekki verið fleiri í faraldrinum hingað til. Þann 24. mars í fyrra greindust 106 smit og urðu þau ekki fleiri á einum degi í fyrstu bylgju faraldursins. Þann dag lágu sautján sjúklingar á sjúkrahúsi með COVID-19 og tveir á gjörgæslu. Sá fjöldi jókst mikið dagana á eftir og 2. apríl lágu 44 á sjúkrahúsi og 12 á gjörgæslu.
Um hádegi í gær lágu þrír á legudeildum Landspítalans með COVID-19. Í morgun voru sjúklingarnir orðnir átta og einn þeirra kominn á gjörgæsludeild, að því er segir í frétt Vísis. Þá eru tveir íbúar á Grund smitaðir.
Í þriðju bylgjunni síðasta haust urðu smitin flest 100 talsins þann 5. október.
Þrjátíu hafa látist úr COVID-19 hér á landi.