Embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur auglýst sjö nýjar stöður til að styrkja rannsóknir kynferðisbrota. Auglýst er eftir rannsóknarlögreglumönnum, sérfræðingum til rannsókna lífsýna og stafrænna gagna sem og aðstoðarsaksóknurum á ákærusviði. Stöðurnar eru auglýstar í kjölfar aukinna fjárframlaga sem ríkisstjórnin ákvað að setja í málaflokk sem hefur tekið stakkaskiptum síðustu misseri, ekki síst vegna heimsfaraldursins. „Það er uppi ákall um að stytta málsmeðferðartíma í þessum alvarlegu málum,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á rannsóknarsviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, við Kjarnann. „Rannsóknartíminn hefur því miður verið of langur og nú hefur verið ákveðið að við fáum frekari bjargir til að takast á við þennan málaflokk.“
Lögreglu bárust tilkynningar um 59 nauðganir fyrstu þrjá mánuði ársins 2022, sem samsvarar 17 prósent fjölgun frá síðustu þremur árum þar á undan. Þá bárust lögreglunni tilkynningar um 610 tilvik heimilisofbeldis og ágreinings milli skyldra eða tengdra aðila á sama tímabili. Um er að ræða 19 prósent aukningu frá síðustu þremur árum þar á undan.
Síðastliðin tvö ár hefur orðið veruleg aukning á eftirspurn eftir þjónustu í Bjarkarhlíð, sem veitir stuðning og ráðgjöf til einstaklinga eldri en 18 ára sem orðið hafa fyrir ofbeldi. Á árinu 2021 leituðu 1059 einstaklingar eftir aðstoð í fyrsta sinn sem er nærri 30 prósent aukning milli ára. Þar á undan var nærri 50 prósent aukning milli áranna 2019 og 2020.
Tíu stöðugildi til fjögurra embætta
Með fjárstyrkingu ríkisstjórnarinnar skapast svigrúm til tíu nýrra stöðugilda hjá fjórum embættum til rannsóknar og saksóknar á kynferðisbrotum. Auk lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu verður fjölgað um eina stöðu hjá ríkissaksóknara, eina hjá héraðssaksóknara og eina hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.
„Við auglýstum strax og við fengum upplýsingar um að þessar fjárheimildir væru okkar,“ segir Grímur. „Og við erum þegar farin að taka viðtöl við fólk sem hefur sótt um störfin. Það var gengið strax í málið.“
Þegar ráðið hefur verið í allar stöðurnar verða sextán starfsmenn við rannsóknir á kynferðisbrotum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, auk stjórnenda.
Nauðganir og brot gegn börnum í forgang
Ríkissaksóknari hefur lagt fyrir lögreluembættin að setja rannsóknir á nauðgun, það er að segja brotum á 194. grein almennra hegningarlaga, og brotum gegn börnum í forgang. Grímur segir að þegar kórónuveirufaraldurinn skall á og aðgerðir vegna hans, m.a. samkomutakmarkanir, voru settar á, hafi lögreglan hér á Íslandi sem og annars staðar búið sig undir að heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi gegn börnum myndi aukast. Börn gátu ekki farið í skóla, í sumum löndum ekki langtímum saman, og margt fólk að vinna heima eða missti vinnu sína. Grímur segir að vissulega hafi lokun skemmtistaða haft þau áhrif að brotum sem framin eru í tengslum við skemmtanalífið fækkaði. Hann bendir hins vegar á að gerendur og þolendur flestra kynferðisbrota þekkist.
Rannsóknir hafa enda sýnt að heimsfaraldurinn hafði í för með sér verulega aukningu á ofbeldi á heimilum, einkum ofbeldi karla gegn konum og börnum. Kynbundið ofbeldi hafi einnig aukist utan heimila sem megi m.a. merkja í aukinni eftirspurn eftir starfrænu barnaníðsefni og kynferðisofbeldi og kynbundinni hatursorðræðu.
Kynferðisbrot koma oft fljótt inn á borð lögreglu eftir að þau eru framin og þá skiptir máli að hægt sé að rannsaka sönnunargögn hratt, m.a. með tilliti til lífsýna. Þá hefur aukist sá fjöldi mála þar sem rafræn rannsóknargögn koma við sögu, s.s. úr tölvum og símum. Þess vegna er að sögn Gríms mjög mikilvægt að nú sé að koma stuðningur í þann hluta rannsókna.
Stoppi ekki með litlum skýringum
Hann segir lengi hafa verið þörf á að bæta við starfsmönnum á líftæknisviði tæknideildarinnar. Hingað til hefur aðeins einn sérfræðingur sinnt því starfi en nú verða stöðugildin tvö. „Við erum sérstaklega ánægð með þessa styrkingu,“ segir hann. „Með öllum þessum nýju stöðum erum við að ég tel komin á nokkuð góðan stað við rannsóknir á kynferðisbrotum hvað mannahald og bjargir varðar.“
Grímur segir að alltaf sé svo unnið að því að bæta verkferla við rannsóknir kynferðisbrota. „Það sem við erum alltaf leynt og ljóst að reyna að gera er að stytta málsmeðferðartímann og að mál stoppi ekki einhvers staðar í ferlinu með litlum skýringum. Og nú þýðir ekkert annað en að gera allt sem við getum til að þessi styrking skili sér í einmitt þessu; styttri málsmeðferðartíma. Að þetta verði stuðningur fyrir alla, ekki síst þann sem brotið er gegn.“