Óbyggð víðerni Vonarskarðs myndu skerðast um 54 prósent yrðu vélknúin ökutæki leyfð þar að mati Wildland Research Institute, sjálfstæðrar rannsóknarstofnunar við háskólann í Leeds á Englandi. Í nýútgefinni skýrslu stofnunarinnar, sem unnin var að frumkvæði margra íslenskra náttúruverndarsamtaka, er að finna fyrstu kortlagningu óbyggðra víðerna á miðhálendi Íslands með alþjóðlegri aðferðafræði. Í upphafi árs setti Alþingi lagaákvæði um skyldu til að kortleggja óbyggð víðerni á landinu. Kortlagningu víðerna á samkvæmt náttúruverndarlögum að vera lokið fyrir júní 2023.
Aðferðum WRi var fyrst beitt hér á landi árið 2019 er kortlögð voru áhrif Hvalárvirkjunar á víðerni hefði hún verið byggð. Þegar er hafin samsvarandi kortlagning miðhálendisins alls.
Vonarskarð í Vatnajökulsþjóðgarði liggur milli Vatnajökuls og Tungnafellsjökuls. Þar er að finna háhitasvæði í um 950–1100 metra hæð yfir sjávarmáli með óvenjulega fjölbreyttum gróðri, litskrúðugu hverasvæði og sjaldgæfum háhitalífverum með hátt verndargildi. Þar finnst einnig ein hæsta mýri landsins í yfir 900 m hæð yfir sjó. „Landslag er óvenjulegt, stórbrotið og fjölbreytt; jöklar og há fjöll, sandsléttur og áraurar, jökulár, bergvatnsár og volgar lindir og litfagrir hverir,“ segir m.a. í umfjöllun um það á vef Vatnajökulsþjóðgarðs.
Frá árinu 2011 hefur það verið lokað fyrir bílaumferð „nema á frosinni og snæviþakinni jörð í samræmi við almenna skilmála um vetrarakstur“ og er því samkvæmt stjórnunar- og verndaráætlun garðsins vettvangur göngufólks. Lokunin hefur hins vegar verið umdeild og mikil umræða skapast um hana síðustu misseri.
Í skýrslu Wildland Research Institute eru áhrif þess að opna Vonarskarð fyrir jeppaumferð metin með sérstakri áherslu á víðernin sem þar er að finna. Niðurstaðan er sú að ef umferð jeppa yrði leyfð um skarðið á slóðunum sem þar lágu áður milli Svarthöfða í suðri og Gjóstuklifs í norðri myndu 6.515 hektarar óbyggðra víðerna svæðisins, eða um 54 prósent, glatast. Við greininguna voru áhrif aksturs að sumar- og haustlagi sérstaklega metin, en ekki akstur á frosinni jörð að vetri.
Greiningin var gerð með kortlagningu ákveðinna þátta í Vonarskarði, s.s. náttúrulegu landslagi og fjarlægð frá ökufærum leiðum og öðrum mannanna verkum. WRi hefur þróað nákvæmar stafrænar aðferðir til að kortleggja og skilgreina óbyggð víðerni (e. wilderness) sem byggist á greiningu á stafrænum, þrívíðum landupplýsingagögnum, landnotkun, fjarlægð frá mannvirkjum og aðgangsstöðum vélknúinna farartækja. Gögnin eru m.a. notuð til að greina með mikilli nákvæmni sýnileika mannvirkja sem geta haft áhrif á víðernaupplifun. WRi hefur þróað forrit til þessarar greiningar sem byggir á svipuðum aðferðum og forrit tölvuleikja.
Nokkur náttúruverndarsamtök tóku höndum saman fyrr á þessu ári undir heitinu Óbyggð og fengu WRi til að beita þessum aðferðum til kortlagningar víðerna miðhálendisins. Ráðnir voru þrír sumarstarfsmenn, allt íslenskir háskólanemar, til að halda utanum verkefnið á Íslandi, en þrír sérfræðingar WRi hafa unnið að verkefninu undanfarna mánuði.
„Það er löngu tímabært og mjög mikilvægt að beita alþjóðlega viðurkenndum aðferðum við kortlagningu víðerna hér á landi,“ er haft eftir Árna Finnssyni, formanni Náttúruverndarsamtaka Íslands og Hörpu Barkardóttur, formanni Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, í fréttatilkynningu sem Óbyggð sendi frá sér í tilefni af útkomu skýrslu WRi. „Faglegur undirbúningur ákvarðana er ávallt til bóta og samtök okkar fagna þessu skrefi.“
Í tilkynningunni er einnig haft eftir Steve Carver, forstöðumanni WRi, að það að standa vörð um óbyggð víðerni séu nú efst á blaði markmiða Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. „Íslendingar eru vörslumenn tæpra 43 prósenta af villtustu víðernum Evrópu og það er á ábyrgð okkar allra að vernda þau.“
WRi hefur unnið að þróun ítarlegrar kortlagningar á víðernum í samráði við skosk stjórnvöld, meðal annars í þjóðgörðum og óbyggðum víðernum. Að auki er WRi meðhöfundur viðamikillar víðernakortlagningar Evrópusambandsins og aðstoðar Alþjóða náttúruverndarsambandið (IUCN) við kortlagningu víðernagæða í Frakklandi. WRi hefur einnig unnið með þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna og unnið að mati á víðernagæðum í Kína.
Hér er hægt að nálgast skýrslu WRi um Vonarskarð í heild.