Hópur Íslendinga sem starfað hefur með NATO og öðrum alþjóðlegum stofnunum í Afganistan hefur sent ákall til íslenskra stjórnvalda um að grípa tafarlaust til aðgerða til að bregðast við þeim veruleika sem blasir við almennum borgurum – ekki síst konum og börnum – í Afganistan í ljósi atburða undanfarinna daga.
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu Brynju Huldar Óskarsdóttur, öryggis- og varnarmálafræðings með sérhæfingu í hryðjuverkum, á Facebook í dag.
„Það hefur ekki farið framhjá neinum að ástandið í Afghanistan þessa dagana er grafalvarlegt, og öll sem hafa tengingar við landið þungt hugsi vegna ástandins,“ skrifar hún.
Það hefur ekki farið framhjá neinum að ástandið í Afghanistan þessa dagana er grafalvarlegt, og öll sem hafa tengingar...
Posted by Brynja Huld Oskarsdottir on Tuesday, August 17, 2021
Í ákallinu kemur meðal annars fram að Ísland sem herlaust og friðsælt land, og eitt öruggasta lands heims, auk þess að vera í efstu sætum á lista yfir ríki þar sem hvað mest kynjajafnrétti ríkir, beri siðferðileg og lagaleg skylda til þess að sýna í verki að ályktun um konur, frið og öryggi sé raunverulega hornsteinn íslenskrar utanríkisstefnu.
Sjónum verði sérstaklega beint að konum sem stafar bein ógn af valdatöku Talibana
Fer hópurinn á leit við íslensk stjórnvöld og Alþingi að þau bjóði einstaklingum, sér í lagi konum og stúlkum, alþjóðlega vernd. Sjónum verði sérstaklega beint að konum og stúlkum sem stafar bein ógn af valdatöku Talibana m.a. vegna baráttu sinnar fyrir frelsi og réttindum kvenna og þátttöku í verkefnum sem voru studd af NATO eða öðrum alþjóðlegum stofnunum, samanber konur í leiðtogastöðum, blaðakonur, mannréttindafrömuðir og konur sem tilheyra ofsóttum minnihlutahópum.
Íslensk stjórnvöld leiti enn fremur samstarfs við önnur Norðurlönd og/eða NATO ríki um flutning fólks sem er í mikilli hættu vegna starfa sinna fyrir og/eða með Íslenskum friðargæsluliðum sem starfað hafa í Afganistan og veiti þeim einstaklingum og fjölskyldum þeirra alþjóðlega vernd.
Þá vill hópurinn að íslensk stjórnvöld beiti sér sérstaklega fyrir því að Sameinuðu þjóðirnar standi vörð um réttindi og vernd kvenna og að stúlkum verði tryggður réttur til skólagöngu og konum til atvinnuþátttöku. Íslensk stjórnvöld beiti sér jafnframt fyrir áframhaldandi uppbyggingar- og þróunarstarfi í landinu á grundvelli gagnrýnnar endurskoðunar á þeirri aðstoð, sem veitt hefur verið, og sem taki mið af Marshall-aðstoðinni, þ.e. markmiðssetning og framkvæmd verði miðstýrð í auknum mæli og aðstoðin taki mið af aðstæðum í landinu til að auka möguleikana á raunverulegum árangri.
Hér fyrir neðan má lesa ákall hópsins til íslenskra stjórnvalda í heild sinni:
Afghanistan hefur undanfarna tvo áratugi verið eitt af fimm áherslulöndum íslenska ríkisins í þróunarsamvinnu og þátttaka Íslands í uppbyggingu í landinu er ein umfangsmestu aðkoma Íslands að verkefnum á sviði öryggismála, endurreisnar og stjórnarfars í einu fátækasta þróunarlandi heims. Íslenskir friðagæsluliðar hafa tekið þátt í uppbyggingarverkefnum á sviði jafnréttismála víðsvegar um landið og undanfarin ár á sviði samskipta- og upplýsingamiðlunar. Síðustu íslensku friðargæsluliðarnir komu heim sumarið 2019 eftir alls 17 ára þátttöku Íslands í hinum ýmsu verkefnum í Afganistan. Allan þennan tíma, einkum frá 2010, hefur verið lögð höfuðáhersla á ályktun öryggisráð Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi.
Í utanríkisstefnu Íslands segir: „Jafnréttissjónarmið eru samþætt utanríkisstefnu og starfi á alþjóðavettvangi, meðal annars í tengslum við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi.“ Ísland var eitt af fyrstu ríkjum Sameinuðu þjóðanna sem setti sér árið 2008 landsáætlun um framkvæmd ályktunar öryggisráðsins nr. 1325 um konur, frið og öryggi og í samræmi við áherslur hennar í Afganistan hefur m.a. starfsemi kvennamálaráðuneytisins og frjálsra félagasamtaka kvenna verið studd. Um tíma var íslenskur þróunarfulltrúi m.a. tengiliður milli kvennasamtaka og uppbyggingarteymisins (e. Provincial Reconstruction Team) og vann að því að greiða fyrir þátttöku fulltrúa kvenna á fundum og í ýmissi starfsemi til að tryggja að sjónarmið þeirra kæmust á framfæri. Þá hafa íslenskir friðargæsluliðar verið tengiliður við afghanskar blaðakonur og aðgerðarsinna sem hafa verið að beita sér fyrir réttindum afganskra kvenna.
Þessi hópur kvenna í Afganistan er nú orðinn að skotmarki Talibana fyrir það eitt að hafa undanfarin ár komið sjónarmiðum kvenfrelsis, kvenréttinda og jafnréttis á framfæri. Í landinu er heill hópur kvenna sem hafa starfað í störfum hjá hinu opinbera, í kvennamálaráðuneytinu og frjálsum félagasamtökum á fjölmiðlum og unnið hjá afgönsku lögreglunni eða öðrum stofnunum. Sumar hafa verið áberandi í leiðtogastöðum og unnið náið með vestrænum bandamönnum. Unnið eftir því sem Talibanarnir kalla „vestræn“ gildi sem í augum þeirra réttlætir dauðarefsingu.
Undanfarnar vikur hafa bandalagslönd okkar, þar á meðal Bandaríkin og Bretland, gefið loforð þess efnis að bjóða upp á svokölluð „neyðarlandvistarleyfi“ eða hrað-vegabréfsáritanir til handa þeim sem unnu fyrir alþjóðlega varnarliðið eða einhver af sendiráðum Atlantshafsbandalags þjóðanna í Kabúl. Starfsfólk og sér í lagi konur, sem unnu náið með íslenskum friðargæsluliðum og öðrum bandalagsþjóðum, voru hins vegar fæstar á launaskrá hjá Bandaríkjaher eða vestrænum sendiráðum og uppfylla þar með ekki skilyrðin fyrir veitingu þeirra sérleyfa sem stendur til að opna umsóknir fyrir. Þetta er að hópurinn sem Ísland í sinni þróunar- og utanríkisstefnu hefur beitt sér fyrir og stutt hvað mest til aukinnar opinberar þátttöku og sýnileika í samræmi við ákvæði ályktunar 1325.
Nú er komið að þeim átakanlegu tímamótum að við þurfum að axla ábyrgð á þátttöku okkar í þeim aðstæðum sem nú hafa skapast í Afganistan og beita okkur fyrir verndun kvenna og stúlkna á átakasvæðum, ekki síst þeim sem hafa verið að beita sér opinberlega fyrir réttindum kvenna og stúlkna. Grípa það hugrakka fólk, og sér í lagi konur, sem við studdum og gerðu okkur kleift að koma okkar sjónarmiðum um jafnrétti, menntun og lýðræði á framfæri.
Með rökum má halda því fram að valdarán Talibana og stjórn þeirra í landinu feli sjálfkrafa í sér ofsóknir gegn fólki sem starfaði fyrir erlenda aðila og sér í lagi gegn konum og stúlkum sem eiga hættu á dauðarefsingu, pyntingum eða vanvirðandi meðferð, þar með talið kynferðisofbeldi, eða refsingu.
Ísland sem herlaust og friðsælt land, og eitt öruggasta lands heims, auk þess að vera í efstu sætum á lista yfir ríki þar sem hvað mest kynjajafnrétti ríkir, ber siðferðileg og lagaleg skylda til þess að sýna í verki að ályktun 1325 um konur, frið og öryggi sé raunverulega hornsteinn íslenskrar utanríkisstefnu. Það gera íslensk stjórnvöld með því að bjóða konum alþjóðlega vernd – konum sem hafa barist fyrir aukinni menntun kvenna, kvenréttindum, og því að koma konum í leiðtogastöðu.
Við sem undirritum þetta bréf förum eftirfarandi á leit við ríkisstjórn Íslands og Alþingi:
Innanlands
- Íslensk stjórnvöld bjóði einstaklingum, sér í lagi konum og stúlkum, alþjóðlega vernd. Sjónum verði sérstaklega beint að konum og stúlkum sem stafar bein ógn af valdatöku Talibana m.a. vegna baráttu sinnar fyrir frelsi og réttindum kvenna og þátttöku í verkefnum sem voru studd af NATO eða öðrum alþjóðlegum stofnunum, sbr. konur í leiðtogastöðum, blaðakonur, mannréttindafrömuðir og konur sem tilheyra ofsóttum minnihlutahópum.
- Íslensk stjórnvöld leiti samstarfs við önnur Norðurlönd og/eða NATO ríki um flutning fólks sem er í mikilli hættu vegna starfa sinna fyrir og/eða með Íslenskum friðargæsluliðum sem starfað hafa í Afganistan og veiti þeim einstaklingum og fjölskyldum þeirra alþjóðlega vernd.
Innan alþjóðastofnana
- Íslensk stjórnvöld beiti sér sérstaklega fyrir því að Sameinuðu þjóðirnar standi vörð um réttindi og vernd kvenna og að stúlkum verði tryggður réttur til skólagöngu og konum til atvinnuþátttöku.
- Íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir áframhaldandi uppbyggingar- og þróunarstarfi í landinu á grundvelli gagnrýnnar endurskoðunar á þeirri aðstoð, sem veitt hefur verið, og sem taki mið af Marshall aðstoðinni, þ.e. markmiðssetning og framkvæmd verði miðstýrð í auknum mæli og aðstoðin taki mið af aðstæðum í landinu til að auka möguleikana á raunverulegum árangri.
- Árni Arnþórsson, aðstoðarrektor við American University of Afghanistan í Kabúl frá árinu 2018
- Brynja Dögg Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi NATO í Afganistan 2018-2019
- Brynja Huld Óskarsdóttir, samskiptaráðgjafi NATO í Afganistan 2018-2019
- Böðvar Þór Kárason, friðargæsluliði alþjóðaflugvellinum Kabúl 2004-2005 og 2006-2008 og í eftirlits- og upplýsingasveit Endurreisnarteymis alþjóðasveita NATO í Ghor héraði 2005-2006
- Börkur Gunnarsson, aðstoðartalsmaður sendiherra NATO (Deputy Spokesperson and Public Diplomacy Officer on SCR Office) í Afganistan 2008 – 2009
- Erlingur Erlingsson, friðargæsluliði í höfuðstöðvum alþjóðaliðs NATO 2009 og starfsmaður Sameinuðu þjóðanna (UNAMA) 2009-2011
- Friðrik Jónsson, aðstoðaryfirmaður þróunarmála hjá höfuðstöðvum alþjóðaliðs NATO á vegum Friðargæslu Íslands 2009-2010 og starfsmaður Sameinuðu þjóðanna (development coordinator UNAMA) 2010
- Friðrik M. Jónsson, friðargæsluliði alþjóðaflugvellinum Kabúl 2004 og 2006-2009 og í eftirlits- og upplýsingasveit Endurreisnarteymis alþjóðasveita NATO í Meymaneh héraði 2005.
- Gerður Björk Kjærnested, upplýsingafulltrúi NATO, 2007-2008
- Gísli Gunnarsson, friðargæsluliði alþjóðaflugvellinum Kabúl 2007-2009
- Guðrún S. Þorgeirsdóttir, jafnréttisfulltrúi NATO 2010-2011 og 2013
- Halldóra Brandsdóttir, friðargæsluliði alþjóðaflugvellinum Kabúl 2007-2008 og starfsmaður NATO á flugvellinum 2008-2021
- Haraldur Sigurðsson, yfirmaður alþjóðaflugvallarins í Kabúl á vegum Friðargæslunnar
- Heiða Björg Ingadóttir Hjelm, friðargæsluliði alþjóðaflugvellinum Kabúl 2007-2009 og 2010-2012
- Helen María Ólafsdóttir, starfsmaður Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna í Afganistan 2007-2008
- Herdís Sigurgrímsdóttir, aðstoðarkona sendiherra NATO í Afganistan 2008
- Hörður Sigurðsson, friðargæsluliði alþjóðaflugvellinum Kabúl 2008-2013
- Jón Michael Þórarinsson, friðargæsluliði alþjóðaflugvellinum Kabúl 2007- 2008 og pólitískur ráðgjafi borgaralegs sendifulltrúa NATO í Afganistan 2016-2018
- Lára Jónsdóttir, verkefnisstjóri Lækna án landamæra (Medecins Sans Frontieres) í Afganistan 2013 og 2015
- Magnea Marinósdóttir, þróunar- og mannúðarráðgjafi Endurreisnarteymis NATO í Ghor héraði 2006-2007
- Magnús Árni Skjöld Magnússon, pólitískur ráðgjafi borgaralegs sendifulltrúa NATO í Afganistan 2018
- Ómar Þór Kristinsson, friðargæsluliði alþjóðaflugvellinum Kabúl 2004
- Pálína Ásgeirsdóttir, sendifulltrúi á vegum Rauða krossins í Afganistan 1992 og 2003-2005
- Sigríður Haraldsdóttir, starfsmaður NATO alþjóðaflugvellinum Kabúl 2011-2014
- Sigrún Andrésdóttir, friðargæsluliði höfuðstöðvum NATO í Afganistan 2007-2009 og 2010-2011
- Steinar Axelsson, friðargæsluliði alþjóðaflugvellinum Kabúl 2004-2005 og 2007
- Steinunn Björk Bjarkardóttir Pieper, friðargæsluliði / jafnréttisfulltrúi fjölþjóðaliðs NATO 2011-2013 og 2014-2015
- Svafa H. Ásgeirsdóttir, starfsmaður Creative Associates International 2012-2016 og hjá American University í Kabúl frá 20210
- Una Sighvatsdóttir, upplýsingafulltrúi NATO í Afganistan 2016-2018
- Þorsteinn Pálsson, friðargæsluliði alþjóðaflugvellinum Kabúl 2010-2013
- Þorbjörn Jónsson, Deputy Director Development, ISAF HQ 2010-2011