Það að fræða netnotendur og allan almenning um netöryggi er skilvirkasta leiðin til þess að koma í veg fyrir netsvindl, að sögn Guðmundar Arnars Sigmundssonar framkvæmdastjóra CERT-IS, netöryggissveitar Fjarskiptastofu. Hann segir nauðsynlegt að hefja fræðslu um netöryggismál snemma, líkt og gert er í tilfelli fræðslu um umferðaröryggi.
„Við kennum börnum að umgangast umferðina alveg frá því að þau eru nýbúin að læra að labba af því að umferð er hættuleg. Hún er líka rosalega skilvirk og nauðsynleg og við þurfum að kenna fólki að umgangast þetta,“ segir Guðmundur.
„Það er tekið á þessu í nýrri netöryggisstefnu Íslands sem nær til næstu 15 ára. Það er verið að vinna í aðgerðaáætlun hennar og innleiðingu og þar er hreinlega verið að taka á því hvernig við aukum netöryggisvitund almennings,“ segir hann og bætir því við að að kennsla í netöryggi muni jafnvel ná inn í námskrá á grunnskólastigi.
Margföldun í tilkynningum til CERT-IS
Í áðurnefndri netöryggisstefnu Íslands sem kom út seint á síðasta ári er fjallað um fræðslu og kennslu í netöryggismálum. Þar segir meðal annars að „vitundarvakning og fræðsla um netöryggismál verði aukin með áherslu á fræðslu við hæfi fyrir þá hópa sem viðkvæmastir eru,“ og að með „fjölbreytileika í menntun og fræðslu á sviði netöryggismála á öllum skólastigum og á vegum atvinnulífsins næst framþróun þekkingar og hæfni sem er nauðsynleg hérlendis og í alþjóðlegri samkeppni.“
Guðmundur bendir á að aukin fræðsla, líkt og kennsla á mismunandi skólastigum sé eitt af langtímamarkmiðum í netöryggismálum. Til skamms tíma snúist baráttan fyrir bættu netöryggi fyrst og fremst um að ræða hætturnar sem steðja að fólki á netinu og þær aðgerðir sem fólk getur gripið til. Veruleg aukning hefur orðið á svindlherferðum á netinu að undanförnu, að sögn Guðmundar en til að mynda bárust CERT-IS 446 tilkynningar vegna netsvindls í fyrra samanborið við 181 tilkynningu árið áður.
Fólk geti aukið öryggi sitt með margvíslegum leiðum
Spurður að því hvað sé til ráða segir Guðmundur: „Það er gífurlega mikilvægt að fara eftir þessum helstu öryggisráðum fyrir fólk sem er með einhverja viðveru á internetinu. Þá erum við að tala um að nota lengri og flóknari lykilorð og að nota tvöfalda auðkenningu. Það er sennilega einhver besta aðgerð sem hægt er að fara í, það er að virkja þessa tvöföldu auðkenningu.“
Kjarninn tók nýverið saman nokkur ráð sem snúa að netöryggi en til viðbótar við löng og flókin lykilorð og tvöfalda auðkenningu mælir Guðmundur með því að fólk nýti sér þjónustu lykilorðabanka (e. Password manager). Þá sé mikilvægt að fólk passi vel upp á hvaða upplýsingar það sendi yfir netið og að það beiti tortryggni í netsamskipti þegar við á, til dæmis þegar óskað er eftir viðkvæmum upplýsingum eða millifærslum – jafnvel þó að þau skilaboð virðist koma frá einhverjum nákomnum.