Suðurleið, líkt og aðalvalkostur Vegagerðarinnar að veglínu um Hérað að fyrirhuguðum Fjarðarheiðargöngum er kallaður, hugnast umhverfis- og framkvæmdaráði Múlaþings vel. Ráðið telur þá leið gefa þéttbýlinu á Egilsstöðum nægt svigrúm til stækkunar. „Jafnframt er horft til mikilvægis þess að fá þungaumferð út fyrir bæinn með tengingu við iðnaðarsvæði auk þess sem settar yrðu mögulegar takmarkanir á umferð og umferðarhraða í gegnum Egilsstaði. Ráðið telur mikilvægt að leiðarvalið sé skoðað heildstætt með stækkun flugvallarins og legu nýrrar Lagarfljótsbrúar til hliðsjónar,“ segir í tillögu sem ráðið samþykkti á fundi sínum í gær. Á fundinum voru umsagnir og athugasemdir sem bárust við vinnslutillögu breytinga á aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs til ársins 2028 vegna Fjarðarheiðarganga.
Umhverfis- og framkvæmdaráð beinir því til sveitarstjórnar Múlaþings að staðfesta ákvörðun ráðsins um leiðarval vegna Fjarðarheiðarganga Fljótsdalshéraðsmegin.
Þrír valkostir metnir
Vegagerðin kynnti í umhverfismatsskýrslu sinni þrjá valkosti um veglínu Héraðsmegin að hinum áformuðu jarðgöngum undir Fjarðarheiði. Umhverfisáhrif þeirra yrðu misjöfn en allir færu um Egilsstaðaskóg og Egilsstaðakletta að einhverju leyti. Ef suðurleiðin yrði farin myndi það valda „mjög miklu og óafturkræfu raski á gömlum og þéttum skógi“, líkt og það er orðað í matsskýrslu Vegagerðarinnar. Skógurinn nýtur verndar í náttúruverndarlögum og skal ekki raska nema að brýna nauðsyn beri til. Norðurleið og suðurleið færu einnig um stórt votlendi, sem nýtur sömu verndar.
Hannes Karl Hilmarsson, áheyrnarfulltrúi Miðflokksins, benti á það á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs í gær, að suðurleiðin krefðist „óafturkræfra umhverfisfórna“ og að mikilvægt væri að upplýsa og virkja íbúa í ákvarðanatökunni. Því lagði hann til að Múlaþing boðaði til íbúafunda í öllum kjörnum sveitarfélagsins þar sem hver listi í sveitarstjórn fengi að kynna afstöðu sína og skoðanir, auk opinna umræðna í sal þar sem íbúar fengju að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
Þessi tillaga Hannesar var felld með sjö atkvæðum.
Vill íbúakosningu
Á fundi ráðsins fyrir viku lét hann bóka að Miðflokkurinn vildi „vel auglýstan opinn íbúafund um þetta stórmál með tilliti til að fara eigi með leiðarvalið í íbúakosningu, þar sem svo virðist sem almennt fylgi sé með norðurleið fremur en suðurleið.“
Í þeirri bókun sagði ennfremur að svo virtist sem meirihlutinn væri búinn að taka „skammsýna ákvörðun um suðurleið bak við tjöldin án þess að viðurkenna það.“ Í henni kom einnig fram að Landvernd hefði verið gert viðvart.
„Þá vill M-listinn benda á að með suðurleið stefnir ekki bara í aðalskipulagsklúður heldur líka umhverfisslys í einstöku náttúruvætti Egilsstaðaskógar, stærsta fundarstað blæaspar á landinu,“ sagði í bókuninni.
Reynt hafi verið að friðlýsa skóginn á Náttúruverndaráætlun 2009-2013 en ekki hafi orðið af því vegna andstöðu landeigenda.