Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, fór fram á það á fundi fjárlaganefndar í morgun að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mæti fyrir nefndina og geri grein fyrir a stöðu mála um næstu skref við söluna á Íslandsbanka, en íslenska ríkið á enn 42,5 prósent hlut í bankanum. Gert er ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar að hlutir verði seldir í bankanum fyrir 75 milljarða króna á næsta ári. Verði ekki af þeirri sölu mun ríkissjóður þurfa að brúa það gat, annaðhvort með niðurskurði eða lántöku, og tilheyrandi vaxtagjöldum.
Þorbjörg segir fjárlagavinnu næsta árs vera í uppnámi vegna þessa og því sé nauðsynlegt að forsætisráðherra komi fyrir nefndina og svari því með skýrum hætti hvort staðan hafi breyst með einhverjum hætti eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar eða hvort áfram sé einhugur innan ríkisstjórnarflokkanna um að halda áfram sölu á Íslandsbanka á næsta ári undir forystu og á ábyrgð Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra.
Ekkert hafði breyst í byrjun nóvember
Í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í byrjun september var gert ráð fyrir að eftirstandandi 42,5 prósent hlutur ríkisins í Íslandsbanka yrði seldur fyrir 75,8 milljarða króna á næsta ári. Það var gert þrátt fyrir yfirlýsingu formanna stjórnarflokkanna þriggja frá 19. apríl, þar sem segir að ekki verði ráðist í sölu á frekari hlutum í Íslandsbanka að sinni og að sú ákvörðun verði ekki endurskoðuð á meðan að Ríkisendurskoðun og FME rannsökuðu það sem átti sér stað í mars.
Kjarninn greindi frá því fyrr í október að ekki hafi verið tekin ákvörðun um áframhaldandi sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka og að yfirlýsingin stæði þar af leiðandi áfram. Katrín staðfestir að ekkert hafi breyst í þeim efnum í samtali við Kjarnann í byrjun nóvember. Þar sagði hún einnig að engin áform væru uppi um að selja hlut í Landsbankanum en heimild er til þess að selja allt að 30 prósent hlut í honum í fjárlagafrumvarpinu. Bjarni sagði í viðtali við Dagmál á mbl.is í ágúst að hann vildi ekki bara vilja losa ríkið úr eignarhluta í Íslandsbanka heldur líka selja hlut í Landsbankanum þegar fram í sækir, þótt hann væri þeirrar skoðunar að ríkið geti vel farið þar með ráðandi hlut.
Þriðji ráðherrann sem situr í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins er Lilja D. Alfreðsdóttir. Í svari hennar við fyrirspurn á Alþingi í síðasta mánuði sagði að stefna Framsóknarflokksins væri að Landsbankinn verði áfram í eigu ríkisins og að flokkurinn sé til í að skoða hugmyndir þess efnis að bankinn verði samfélagsbanki.
Áfelli Ríkisendurskoðunar
Síðan þá hefur skýrsla Ríkisendurskoðunar um söluferlið í mars verið birt. Að mati stofnunarinnar voru annmarkar söluferlisins fjölmargir sem lúta bæði að undirbúningi og framkvæmd sölunnar. Þar segir meðal annars að ljóst megi vera að „orðsporðsáhætta við sölu opinberra eigna var vanmetin fyrir söluferlið 22. mars af Bankasýslu ríkisins, fjármála- og efnahagsráðuneyti og þingnefndum sem um málið fjölluðu í aðdraganda sölunnar.“ Hægt hefði, að mati Ríkisendurskoðunar, verið hægt að fá hærra verð fyrir eignarhlut ríkisins en ákveðið var að selja á lægra verði til að ná fram öðrum markmiðum en lögbundnum. Þá hafi huglægt mat ráðið því hvernig fjárfestar voru flokkaðir, en útboðið var lokað með tilboðsfyrirkomulagi og einungis 207 fengu að kaupa hlut í því, samtals fyrir 52,65 milljarða króna.
Bankasýslan hefur hafnað nánast allri gagnrýni sem sett hefur verið fram á hana og sagt að skýrslan afhjúpi takmarkaða þekkingu Ríkisendurskoðunar á viðfangsefninu.
Talið er að Fjármálaeftirlitið muni opinbera niðurstöður rannsóknar sinnar á söluferlinu í janúar.