Ljóst er að vindorkuver sem Zephyr Iceland áformar á Brekkukambi í Hvalfjarðarsveit hefði mikil áhrif á ásýnd svæðisins enda Hvalfjörður svæði sem er þekkt fyrir fjölbreytt og fallegt landslag .Að mati Náttúrufræðistofnunar er mjög vandasamt að skipuleggja svo stórt inngrip í landslag á svæði af slíkum toga. Heilbrigðiseftirlit Vesturlands telur það mikla áskorun að ná sátt um byggingu vindorkuvers í svo lítilli fjarlægð frá sumarhúsum og lögbýlum og Umhverfisstofnun telur að frekar ætti að staðsetja vindmyllur á núverandi orkuvinnslusvæðum þar sem allir innviðir til flutnings raforku og vegir eru til staðar og á landi hefur þegar verið raskað.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögnum stofnana við matsáætlun Zephyr Iceland á fyrirhuguðu vindorkuveri í Hvalfjarðarsveit. Verið yrði 50 MW að afli og ráðgert er að það rísi á um 300 hektara svæði á Brekkukambi, í landi Brekku. Reistar yrðu 8-12 vindmyllur sem hver um sig yrðu 250 metrar á hæð. Brekkukambur er 647 metra hátt fjall í norðanverðum Hvalfirði.
Til framkvæmdarinnar þyrfti m.a. að steypa grunn undir hverja vindmyllu og gera vinnuplan fyrir þær allar. Reisa á safnstöð á framkvæmdasvæðinu og byggingar fyrir skrifstofur, snyrtingu, eldhús, geymslu og fleira tengt rekstri vindorkuversins. Innan framkvæmdasvæðisins á svo að leggja nýja malarslóða, alls 12 kílómetra á lengd og 6 metra á breidd. Gert er ráð fyrir að lagðir verði um 36 kílómetrar af jarðstrengjum á milli vindmylla og að safnstöð og alls 12 km af loftlínum frá tilteknum vindmyllum að safnstöð. Þá er gert ráð fyrir að loftlína frá safnstöð að tengivirki Landsnets verði um 10 kílómetrar. Loks er gert ráð fyrir að nýr slóði verði lagður frá Dragavegi að framkvæmdasvæðinu.
Tugir athugasemda frá fólki sem býr í Hvalfirði og næsta nágrenni mótmæla byggingu versins líkt og Kjarninn fjallaði nýverið um. Sjónmengun, hávaðamengun og áhrif á fuglalíf eru þeim ofarlega í huga. Vindmyllurnar myndu gnæfa yfir stórt svæði og sjást í tuga kílómetra fjarlægð.
Mjög nálægt mikilvægu fuglasvæði
Náttúrufræðistofnun hefur skilgreint Hvalfjörð sem mikilvægt fuglasvæði og er það tilnefnt á B-hluta náttúruminjaskrár. Um fjörðinn liggja m.a. farleiðir margæsa, rauðbrystinga og fleiri farfugla og þar verpa ýmsar tegundir. Hafernir heimsækja fjörðinn, íbúar segja þá hafa átt sér varpstað þar í áratugi.
„Þótt framkvæmdasvæðið skarist ekki við mörk fuglasvæðisins er það mjög nálægt því og afar mikilvægt er að meta hvort farleiðir t.d. margæsa liggi þar um,“ segir í umsögn stofnunarinnar. „Sérkennilegt og óheppilegt“ sé að ekki sé stefnt að því að framkvæma ratsjármælingar við fuglarannsóknirnar sem eru að mati stofnunarinnar nauðsynleg viðbót við sjónarhólsmælingar til að meta far fugla um svæðið.
Ljóst er að áhrif framkvæmdarinnar á landslag og ásýnd svæðisins verða mikil og í umhverfismatinu þurfi því að taka tillit til margra ásýndarsjónarhorna til að fá heildstæða sýn yfir landslagsáhrifin. Náttúrufræðistofnun telur ástæðu til að bæta við allmörgum myndatökustöðum t.d. viðkomustöðum ferðafólks eins og á útsýnisstaðnum ofan við Hvalfjarðareyri vestan Kjósar, Hvammsvík og Hvítanes í innanverðum Hvalfirði, af Þyrilsnesi, af gönguleið á Leggjabrjóti, af gönguleiðum í Skorradal og af útsýnisstöðum á gönguleiðum upp á Akrafjall, Esju, Móskarðshnúkum og Skarðsheiði.
Þá bendir Náttúrufræðistofnun á að í matsáætluninni sé ekki fjallað um mögulega plastmengun frá vindmylluspöðum en í nýlegu áliti Skipulagsstofnunar um matsáætlun fyrir áformað vindorkuver í Múla í Norðurárdal var gerð krafa um að í umhverfismatinu væri lagt mat á losnun örplasts.
Gera þarf nákvæma fornleifaúttekt
Minjastofnun telur ekki nóg að styðjast við fornleifaskráningu af svæðinu sem gera á í tengslum við nýtt aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar líkt og framkvæmdaaðili hugðist gera. Stofnunin bendir á í umsögn sinni að fornleifaskráning sem fram fari í tengslum við aðalskipulagsvinnu sé oft ónákvæmari en skráning sem unnin er t.d. vegna deiliskipulags þar sem verið er að ákveða endanlega nýtingu lands. Þá sé mjög ólíklegt að við skráningu fornleifa vegna aðalskipulags sé lögð áhersla á skráningu svæða fjarri þéttbýli og „öruggt að það svæði sem hér er til umfjöllunar hefur ekki verið gengið í leit að fornleifum,“ segir í umsögn Minjastofnunar. Því telur stofnunin að fá þurfi fornleifafræðing til að skrá allt það svæði sem áætlað er að fari undir vindorkuverið sem og svæði sem annað jarðrask er fyrirhugað vegna framkvæmdanna, s.s. vegna vegagerðar, endurgerðar vega eða lagningu rafstrengja.
Veðurstofan fer ekki mörgum orðum um matsáætlunina í sinni umsögn en bendir þó skýrt á að þar sem Brekkukambur sé í yfir 600 metra hæð sé líklegt að þar sé töluverð ísing að vetrarlagi, bæði slydduísing og skýjaísing.
Landsnet ítrekar í sinni umsögn mikilvægi þess að samráð verði haft við fyrirtækið um tengimöguleika. Brýnt sé að huga sérstaklega að því að þeir falli að framtíðarhugmyndum Landsnets um uppbyggingu flutningskerfisins á svæðinu. Enn fremur þurfi að kanna sérstaklega hvort mögulegar jarðstrengslagnir frá vindorkuverinu að tengipunkti við flutningskerfið hafi áhrif á afhendingargæði raforku.
Landsnet bendir á að háspennulínur fyrirtækisins myndu þvera vegi sem Zephyr áætlar að flytja vindmyllurnar um frá höfninni á Grundartanga að framkvæmdasvæðinu. Vinna þurfi áhættumat vegna þessa.
Að vera í þögn og vera ekki lengur í þögn
Heilbrigðiseftirlit Vesturlands segir margt enn vera óljóst hvað varðar hina fyrirhuguðu framkvæmd, s.s. hvar vegagerð að svæðinu mun liggja. Bendir Þorsteinn Narfason, framkvæmdastjóri stofnunarinnar á að áhrif af byggingu vega þurfi að vera innifalið í matsáætlun. Það stækki framkvæmdasvæðið til muna.
Heilbrigðiseftirlitið telur að þó svo að unnt yrði að halda hljóðvist innan við reglugerðarmörk s.s. í nálægri byggð þá geti hávaði eða hljóð frá vindmyllum valdið ónæði. Fram kemur að fjarlægð vindmylla frá mannabústöðum yrði að lágmarki 500 metrar sem sé ekki endilega nægileg fjarlægð til að koma í veg fyrir ónæði. „Þannig getur stöðugur niður sem mælist innan við meðaltalsmörk fyrir heilan sólarhring haft neikvæð áhrif á líðan og heilsu fólks. Fyrir íbúa og gesti getur þetta munað því að vera í þögn og vera ekki lengur í þögn,“ skrifar Þorsteinn. Heilbrigðiseftirlitið telur að það geti verið mikil áskorun að ná sátt um þessi mál í svo lítilli fjarlægð frá sumarhúsum og lögbýlum.
Óbyggð víðerni eru svæði sem eru að verða æ sjaldgæfari í heiminum og má reikna með að virði slíkra svæða muni aukast mikið í framtíðinni. Í umhverfismatsskýrslu ætti að fjalla um verðmæti víðerna með tilliti til þess að manngera þau, segir í umsögninni.
Getur haft áhrif á verð fasteigna
Þorsteinn telur ekki útilokað að vindmyllur geti haft neikvæð áhrif á virði nálægs lands og fasteigna vegna sjónrænna áhrifa og vegna breytinga á hljóðstigi. Kanna ætti í umhverfismati viðhorf íbúa á svæðinu og ferðaþjónustuaðila til vindorkuvers á þessum stað.
Að mati Umhverfisstofnunar er ljóst að framkvæmdin mun hafa veruleg áhrif á ásýnd svæðisins og vera einkennandi í landslagi. Vindmyllurnar yrðu sýnilegar á stóru svæði.
„Á Íslandi er að finna stóran hluta allra óbyggðra víðerna í Evrópu og því mikilvægt að stuðla að verndun þeirra,“ segir í umsögn stofnunarinnar. „Þar sem vindmyllurnar verða líklega sýnilegar og þar af leiðandi ráðandi í landslagi á svæðum sem gætu flokkast sem óbyggð víðerni telur Umhverfisstofnun að í umhverfismatsskýrslu ætti að fjalla sérstaklega um áhrif framkvæmdar á upplifunargildi víðerna.“
Umhverfisstofnun telur að gera skuli grein fyrir háspennulínum sem reisa þyrfti vegna vindorkuversins ef í ljós kæmi að jarðstrengur að næsta tengivirki henti ekki rekstrarforsendum Landsnets. Stofnunin telur að í stað þess að staðsetja vindorkuver á svæðum þar sem innviðir eru ekki til staðar og nauðsynlegt yrði að leggja nýjar háspennulínur sem séu „ekki sérlega vinsæl mannvirki um þessar mundir“ ætti frekar að staðsetja vindmyllur á núverandi orkuvinnslusvæðum þar sem allir innviðir til flutnings raforku og vegir eru til staðar og í landi hefur þegar hafi verið raskað.
Reikna með að umhverfismatið takið 2-3 ár
Matsáætlun er eitt fyrsta skrefið sem framkvæmdaaðilar taka í átt að mati á umhverfisáhrifum. Það næsta felst í því að yfirfara innkomnar athugasemdir, bæði frá einstaklingum og stofnunum og svara þeim og senda Skipulagsstofnun sem mun svo gefa álit sitt á matsáætluninni.
Þá hefst síðasta skrefið, að skila umhverfismatsskýrslu sem allir geta einnig skilað athugasemdum við. Ferlinu lýkur svo með áliti Skipulagsstofnunar.
Í matsáætluninni, sem verkfræðistofan EFLA vann fyrir Zephyr Iceland, segir óvíst hvenær framkvæmdir við uppsetningu vindorkugarðsins gætu hafist. Fram kemur að umhverfismatsferlið geti tekið 2-3 ár.