Yfirkjörstjórn í Reykjavíkurkjördæmi Suður telur að fyrirkomulag kjörklefa fyrir fatlaða einstaklinga í alþingiskosningunum í september hafi í hvívetna staðist þær kröfur sem gerðar eru í lögum, en sé þó ekki hafið yfir gagnrýni. Vinna er þegar hafin til að bregðast við ábendingum sem fram komu um aðbúnað fyrir fatlaða á kjörstöðum.
Þetta kemur fram í svarbréfi yfirkjörstjórnarinnar við kosningakæru frá Rúnari Birni Herrera Þorkelssyni, sem kærði framkvæmd kosninganna á þeim grundvelli að hann hefði ekki talið sig geta kosið leynilega, en ekki var hægt að draga tjald fyrir kjörklefa sem útbúnir voru fyrir einstaklinga með fötlun.
Rúnar Björn greiddi atkvæði á Borgarbókasafninu í Kringlunni á kjördag og lýsti aðstæðum svo, í kæru sinni:
„Á bókasafninu höfðu kjörklefar verið reistir úr léttum bráðabirgða veggjum. Þeir voru staðsettir í miðju rýmisins og mynduðu þannig nokkurs konar eyju sem virðist hafa verið hægt að ganga í kringum. Kjörklefinn fyrir fatlað fólk var á hliðinni á þessari eyju og myndaðist þannig þröngur gangur aftan við klefann.
Sá kjörklefi sem ætlaður var fólki sem notar hjólastól var hins vegar ekki með tjaldi svo kærandi gat ekki dregið fyrir þegar hann kaus. Á sama tíma og hann greiddi atkvæði gekk ókunn manneskja fram hjá kjörklefanum og hefur viðkomandi sem kærandi kann engin deili á augljóslega getað séð hvernig kærandi kaus. Þess ber að geta að gangurinn sem viðkomandi manneskja gekk á var svo þröngur að umræddur einstaklingur hefur verið í um það bil eins til tveggja metra fjarlægð frá kæranda þegar hann merkti við kjörseðilinn. Engar hindranir virðast hafa verið settar upp á þennan gang til að minnka líkur á því að slík umferð ætti sér stað á meðan fólk kaus.“
Fram kom í kærunni að Rúnar hefði upplifað talsverð óþægindi í tengslum fyrirkomulagið. Meðal annars á grundvelli þess að á meðan hann kaus hafi hann séð þá kjósendur sem stóðu í biðröð við kjördeildina. Hann upplifði fyrir vikið alls ekki að hann væri að taka þátt í leynilegum kosningum.
Tjöld gætu flækst í hjólastólum
Í svarbréfi yfirkjörstjórnar segir að í kosningalögum sé kveðið á um að kjörklefar skuli þannig útbúnir að þar megi greiða atkvæði án þess að aðrir geti séð hvernig kjósandi kýs.
„Lagaákvæðið mæli ekki fyrir um að tjald skuli vera fyrir kjörklefa og málefnalegar ástæður voru fyrir því að notast ekki við slíkt tjald í kjörklefa sem ætlaður er einstaklingum sem þurfa á hjólastól að halda til að komast leiðar sinnar,“ segir í svarbréfinu, en þar er einnig rakið að klefar fyrir kjósendur hafi alls staðar verið með sama hætti, snúið 90° á hina kjörklefana og verið opnir.
Þetta hafi verið gert til að hægt væri að keyra hjólastól inn í klefana án þess að tjald væri fyrir, sem gæti flækst í stólum, og án þess að borðið í kjörklefanum væri í sjónlínu út fyrir kjörklefann.
„Borðin í þessum kjörklefum eru á ská í horni klefans en ekki gegnt inngangi eins og í öðrum klefum.í hjólastól af stærri gerð er möguleiki að kjósandi sé þannig staðsettur við atkvæðagreiðsluna að hann sjái út úr kjörklefanum en þó án þess að aðrir sjái inn og án þess að atkvæðagreiðslan sé sýnileg,“ segir í bréfi yfirkjörstjórnar.
Ekki kerfisbundin mismunun né tilefni til ógildingar kosninga
Þar kemur einnig fram að yfirkjörstjórn telji sig ekki hafa forsendur til að taka afstöðu til fullyrðingar kæranda um að ónefndur einstaklingur hafi gengið fram hjá kjörklefanum né hvort það sé rétt að sá einstaklingur hafi getað séð hvernig kærandi kaus.
„Yfirkjörstjórn telur hins vegar ekki að með fyrirkomulagi kjörklefa hafi fötluðum einstaklingum á Íslandi verið kerfisbundið mismunað sem þjóðfélagshópi eins og það er orðað í kæru né að fyrirkomulagið gefi tilefni til þess að ógilda í heild sinni niðurstöður Alþingiskosninganna þann 25. september sl.“