Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ekkert til í því að hann hafi einungis samráð við sjálfan sig um þær ráðleggingar sem hann gefur stjórnvöldum í minnisblöðum. Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna í dag þar sem Þórólfur vísaði gagnrýni um samráðsleysi á bug og nefndi marga aðila sem hann er í sambandi við daglega, svo sem samstarfsmenn innan embætti landlæknis, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, yfirstjórn Landspítala, farsóttarnefnd spítalans og heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Þá sagðist Þórólfur vera í góðu samráði við kollega sína á Norðurlöndunum um margvísleg mál sem tengjast COVID-19, sem og aðila innan Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins. „Þannig vísa ég því til föðurhúsanna þeirri gagnrýni að ekkert samráð sé haft, hvorki við vísindamenn né aðra aðila.“
Smitum fjölgar en innlögnum fækkar
1.488 smit greindust innanlands í gær og 93 á landamærunum. Aðeins einu sinni hafa fleiri greinst innanlands frá því að faraldurinn braust út.10.234 eru í einangrun og 12.817 í sóttkví sem þýðir að sex prósent landsmanna eru ýmist í einangrun eða sóttkví. Mesta útbreiðsla smita hér á landi sem stendur er hjá grunnskólabörnum en allt að 50 prósent af greindum smitum eru hjá þeim hópi.
Þrátt fyrir fjölgun smita hefur sjúklingum á Landspítala með COVID-19 fækkað, í dag eru 33 inniliggjandi og hafa ekki verið færri síðan í byrjun mánaðarins. Þrír eru á gjörgæslu, allir í öndunarvél, og hafa ekki verið færri síðan í desember.
Samkvæmt nýju spálíkani sem Landspítalinn og Háskóli Íslands kynntu í gær er von á betri tíð. „Greinileg teikn eru á lofti um að ómíkron afbrigði veirunnar valdi minni veikindum og leiði til færri gjörgæsluinnlagna,“ segir í tilkynningu farsóttarnefnd spítalans.
Fram kom í máli Þórólfs á upplýsingafundinum að ómíkron-afbrigðið er allsráðandi hér á landi en 90 prósent smita sem greinast í samfélaginu má rekja til þess. 0,2-0,3 prósent þeirra sem smitast þurfa á spítalainnlögn að halda vegna ómíkron-afbrigðisins, samanborið við tvö prósent vegna delta-afbrigðisins.
„Við erum að sjá fleiri inni á spítala með vægari einkenni en áður. Hins vegar þarf að hafa í huga jafnvel þó að smit verði inni á sjúkrahúsi eða greinist í skimun þá getur COVID-sjúkdómurinn orðið alvarlegur sem leiðir til meðferðar vegna COVID,“ sagði Þórólfur.
Til skoðunar að stytta einangrun
Sóttvarnareglur voru hertar á föstudag en Þórólfur segir að árangur sé ekki enn farinn að sjást. Reynslan hafi sýnt að um vika þurfi að líða þar til árangur hertra aðgerða fari að skila sér. Þá minnti Þórólfur á ástæðu þess að tempra faraldurinn sé fyrst og fremst til að koma í veg fyrir fjölda spítalainnlagna.
Þórólfur á ekki von á að koma með tillögu að breytingum á samkomutakmörkunum fyrr en stuttu áður en gildandi takmarkanir renna út 2. febrúar. „En auðvitað getur það breyst.“.
Meðal breytinga sem koma til greina er að stytta einangrun smitaðra en samkvæmt núgildandi takmörkunum er einangrun smitaðra sjö dagar. „Þetta er það sem við erum byrjuð á og þurfum að fara tiltölulega hægt í, við höfum brennt okkur á því áður, svolítið illa, að hætta öllu of hratt og fá hlutina í bakið og ég held að það vilji það ekki nokkur maður,“ sagði Þórólfur.