Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur í samráði við heilbrigðisráðuneytið ákveðið að vísa úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur, um að ekki megi skikka fólk í sóttvarnahús, til Landsréttar. Þetta mun ekki breyta því að niðurstaða héraðsdóms mun standa þangað til og henni er nú þegar framfylgt. Sagði sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag að svo virtist sem niðurstaða héraðsdóms byggði á því að skilgreining á sóttvarnarhúsi í sóttvarnalögum væri ekki fullnægjandi. Því væri ekki hægt að byggja reglugerð heilbrigðisráðuneytisins frá 1. apríl, þar sem fólki frá áhættulöndum er gert að vera í sóttkví í sóttvarnahúsum, á því.
Í gær var öllum sem dvelja í sóttvarnarhúsi boðið að fara annað í sína sóttkví. Um fimmtán manns af vel yfir hundrað gerðu það í gær og sagði Þórólfur að mögulega myndu fleiri yfirgefa sóttvarnahús í dag.
Þórólfur sagði niðurstöðu héraðsdóms „óheppilega“ út frá sóttvarnarsjónarmiðum og geta sett ýmsar sóttvarnir hér á landi í uppnám „ef hann fær að standa“. Þetta gæti orðið til þess að auka líkur á því að smit komist út í samfélagið „mögulega með alvarlegum afleiðingum fyrir okkur Íslendinga“ og að síður yrði hægt að slaka á takmörkunum innanlands.
„Ég tel mikilvægt að lagagrundvöllur verði tryggður svo hægt verði að vernda heilsu þjóðarinnar sem mest,“ sagði Þórólfur sem hefur skorað á stjórnvöld að tryggja hann. „Vonandi verður það gert áður en að heilsufarslegur skaði hlýst af.“
Spurður hversu bjartsýnn hann væri á að Landréttur myndi snúa niðurstöðu héraðsdóms við sagðist hann vona það besta. „Ég held að það sé mjög mikilvægt að við fáum lagagrundvöll undir þær aðgerðir sem við erum að grípa til. Ef það er ekki svo þá munum við alveg örugglega ekki geta haft eins góð tök á þessu eins og við vildum. Við vitum öll hverjar afleiðingar af því gætu orðið.“
Margar ástæður til að beita ýtrustu aðgerðum á landamærum
Alma Möller landlæknir ítrekaði það sem yfirvöld hafa oftsinnis sagt að það eigi, að þeirra mati, að viðhafa áfram ýtrustu aðgát á landamærunum. Fyrir því væru nokkrar ástæður. Sú fyrsta er sú að ekki er enn búið að bólusetja nægilega hátt hlutfall þjóðarinnar þó að það standi til bóta „sem betur fer“.
Í öðru lagi vegna þess að faraldurinn er á mikilli siglingu erlendis m.a. í nágrannalöndum „og það þrátt fyrir umtalsverðar aðgerðir víða“.
Í þriðja lagi er enn margt á huldu varðandi ný afbrigði veirunnar. Ekki er enn ljóst hvort þau valdi alvarlegri veikindum, svo dæmi sé tekið.
Alma sagði að glufur hefðu komið upp á landamærunum sem reynt hefði verið að bregðast við. „En nú eru þau mál í ákveðnu uppnámi og verið er að skoða hvernig brugðist verður við.“
Fjórir greindust með veiruna innanlands í gær og voru þeir allir í sóttkví. „Auðvitað er maður smeykur um það að það séu fleiri smit þarna úti,“ sagði Þórólfur.
Á síðustu sjö dögum hafa 64 greinst innanlands. Um 70 prósent voru í sóttkví. Í nokkrum tilvikum hefur reynst erfitt að rekja smit þeirra sem greinst hafa utan sóttkvíar. Öll smit sem greinst hafa bæði innanlands og á landamærunum síðustu daga hafa verið vegna hins breska afbrigðis veirunnar.
Af þessum sökum telur Þórólfur þörf á því að halda áfram aðgerðum innanlands til að minnsta kosti 15. apríl.