Tvær sómalskar konur, sem stóðu frammi fyrir því að verða sendar til Grikklands af íslenskum stjórnvöldum og biðu brottfarardags, hafa nú fengið annað tækifæri og mun Útlendingastofnun taka mál þeirra efnislega fyrir með haustinu.
Ástæðan er sú að kærunefnd útlendingamála úrskurðaði í vikunni að vegna þess að 12 mánuðir eru liðnir frá því að þær sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þá verði Útlendingastofnun að taka mál þeirra fyrir að nýju. Nefndin hafði áður synjað þeim um efnislega meðferð umsóknar sinnar um vernd á grundvelli þess að þær höfðu fengið vernd í Grikklandi.
Þær eru báðar þolendur grimmilegs ofbeldis, meðal annars í Grikklandi, og þarfnast sárlega aðstoðar fagfólks til að vinna í sínum málum. Kjarninn hitti konurnar tvær í lok nóvember síðastliðins til að ræða aðstæður þeirra og reynslu þeirra af yfirvöldum í Grikklandi. Notast var við dulnefni í umfjölluninni.
Lögreglan var búin að hafa samband við þær
Konurnar tvær stóðu frammi fyrir brotflutningi frá Íslandi til Grikklands. Þær voru aðeins „korteri frá brottflutningi“, að sögn lögfræðings þeirra, Alberts Björns Lúðvígssonar, en lögreglan hafði verið búin að hafa samband við þær vegna yfirvofandi flutnings.
„Lögreglan talaði við þær þegar það voru ennþá COVID-takmarkanir í Grikklandi og svo þegar yfirvöld þar í landi felldi niður þær takmarkanir þá myndaðist biðröð hér heima og það var að einhverju leyti tilviljun sem réði því hverjir fóru fyrst,“ segir Albert.
Hann útskýrir að eftir að þær fengu seinni niðurstöðu sína, þar sem kærunefnd útlendingamála staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar um að neita þeim efnislega meðferð, þá hafi málum þeirra verið stefnt fyrir dóm. „Það er hægt að óska eftir endurupptöku máls í einhvern tíma frá því að lokaákvörðun kemur. Þá þarf oftast að vísa til einhverra nýrra atvika eða nýrra málsástæðna og í þessu tilfelli þá höfðu þær verið hér á landi í 12 mánuði og reglan sem sagt er sú að ef þú ert í 12 mánuði frá því að þú sækir um og þangað til þú ert fluttur, og tafir eru ekki þér að kenna, þá áttu rétt á efnismeðferð. Kærunefnd féllst á að það hafi ekki verið ekki þeim að kenna að málið hafi tekið svona langan tíma. Þær hafa ekkert gert til þess að orsaka það.“
Albert segir að þessi úrskurður kærunefndar staðfesti það að þær hafi alltaf komið rétt og heiðarlega fram hér á Íslandi og eiga enga sök á þessum drætti.
Hafa góða möguleika
Mál kvennanna fara því núna í nýja efnislega meðferð hjá Útlendingastofnun. Þar verður staða þeirra í heimalandi metin og ákvarðað hvort þær séu flóttakonur eða ekki. „Þær hafa þar góða möguleika,“ segir Albert. Þær munu líklegast fara í viðtal hjá stofnuninni í haust og svo mun niðurstaða hugsanlega berast rétt fyrir jól.
„Ég var svo heppinn á að fá að hringja í þær báðar og segja þeim þessa niðurstöðu og þær voru báðar gríðarlega meyrar og hamingjusaman.“
Hann segir að þær hafi ekki getað hugsað sér að snúa aftur til Grikklands enda biði þeirra ekkert nema hræðilegar aðstæður þar.
Þolandi kynfæralimlestinga og kynferðisofbeldis
Þær lýstu því báðar í samtali við Kjarnann í lok nóvember síðastliðnum að eftir að þær fengu stöðu sína sem flóttakonur viðurkennda í Grikklandi á sínum tíma hefði dvölin þar verið gríðarlega erfið.
Idil sagði meðal annars að hún hefði engin tækifæri fengið þar, hún hefði hvorki haft húsnæði né framfærslu. „Ég gat ekki fengið vinnu og mér var neitað um það að fá börnin mín til mín. Mér var sagt að það væri ekki möguleiki. Það var mjög erfitt. Ég þekkti engan á þessum slóðum sem gæti hjálpað mér,“ sagði hún.
Idil er þolandi kynfæralimlestinga og kynferðisofbeldis. Samkvæmt sálfræðingi hjá Göngudeild sóttvarna er nauðsynlegt að hún fái frekari stuðning og meðferð en ljóst þykir að það muni reynast henni útilokað að fá slíka hjálp í Grikklandi. Idil taldi það ljóst að henni væri það ómögulegt að afla sér nauðsynlegra skráninga í Grikklandi til að fá aðgengi að viðeigandi þjónustu og að henni stæði ekki til boða raunhæf úrræði til verndar í Grikklandi vegna fordóma og ofbeldis í landinu. Einnig taldi hún ljóst að hún myndi ekki geta fengið börnin sín til sín í Grikklandi enda hefði henni verið synjað um slíkt áður þar í landi.
Þegar hún var spurð hvað hún vonaðist til að gerðist í framtíðinni þá sagði hún að hana langaði að mennta sig og fá börnin til sín. „Mig langar að þetta land, Ísland, verði síðasta landið þar sem ég sæki um vernd.“
Boðin greiðsla eða aðstoð í skiptum fyrir „kynlíf“
Svipað var upp á teningnum hjá Söhru en þegar hún fékk alþjóðlega vernd í Grikklandi var henni hent út úr sérstökum búðum þar sem hún dvaldi. Hún missti jafnframt framfærslu sína og eftir það hafðist hún við á götunni við afar erfiðar aðstæður. Henni var boðinn peningur eða aðstoð í skiptum fyrir „kynlíf“. Hún óskaði ítrekað eftir aðstoð grískra stjórnvalda en var ávallt synjað. Hún reyndi að finna atvinnu og verða sér úti um nauðsynlegar skráningar í Grikklandi en án árangurs. Hún þurfti að greiða fyrir skattnúmer og kennitölu auk þess sem hún fékk engar upplýsingar eða leiðbeiningar frá grískum stjórnvöldum.
Sahra fékk heldur ekki nauðsynlega heilbrigðisþjónustu í Grikklandi en hún þurfti til að mynda sjálf að draga úr sér tönn. Þá upplifði hún mikla fordóma í Grikklandi frá almenningi og lögreglan veitti ekki henni aðstoð.
Vonin skiptir svo miklu máli
Albert segir að vonin kristallist vel í þessu máli. „Þú getur verið með mjög niðurbrotið fólk – fólk sem hefur misst mjög mikið í lífinu og lent í mjög alvarlegum áföllum – en á meðan það heldur í einhverja von þá fúnkerar það en um leið og vonin er tekin af þeim þá er allt farið. Þessar tvær konur upplifðu það á tímabili – algjört vonleysi.“
Hann telur að 12 mánaða reglan hafi sannað sig. Ekki sé eðlilegt að fólk sé hér á landi í 12 mánuði án þess að það fái niðurstöðu í sínum málum. „Skilvirkni er eftirsóknarverð upp að ákveðnu marki en það verður samt að segjast að röng ákvörðun og vond ákvörðun, jafnvel þótt hún sé skilvirk, er ekki góð. Þessi regla veitir mörgum skjól þannig að það er jákvætt út af fyrir sig en tímabilið mætti vera styttra.“