Martin Winterkorn er hættur sem forstjóri Volkswagen vegna útblásturshneykslisins sem fyrirtækið var staðið að í Bandaríkjunum á föstudag. Fyrirtækið þýska hefur viðurkennt að hafa framleitt ellefu milljón bíla sem voru forritaðir til að svindla á mælingum á útblæstri gróðurhúsalofttegunda.
Eins og Kjarninn greindi frá í morgun sat Winterkorn fund með stjórn fyrirtækisins í dag þar sem hann var krafinn svara við því hvort hann hafi haft vitneskju um svindlið sem hefur, á aðeins tveimur dögum þurkað út meira en þriðjung af markaðsvirði fyrirtækisins, eða um 26 milljarða evra við lokun markaða í gær.
Hekla, umboðsaðili Volkwagen á Íslandi, birti í dag yfirlýsingu frá Volkswagen í Þýskalandi. Þar segir að Volkswagen vinni nú „hörðum höndum að því að greiða úr frávikum í tilteknum hugbúnaði disilvéla“ en áréttað er að allar umræddar bifreiðar séu öruggar og aksturshæfar enda varðar málið aðeins útblástur mengunarefna. Fyrirtækið segist jafnframt ætla að taka á sig allan þann kostnað sem fylgir úrræðunum sem grípa þarf til. Ekki er hins vegar hægt að tilgreina þær tegundir og árgerðir sem um er að ræða, segir í yfirlýsingunni.
Þá hefur hlutabréfaverð í evrópskum bílaframleiðendum fallið með Volkswagen og talið er að þýskur efnahagur muni láta á sjá, þegar frá líður. Volkswagen mun að öllum líkindum þurfa að borga himinháar sektir bæði í Bandaríkjunum og Evrópu vegna þessa.
Fyrirfram er talið að Matthias Müller, yfirmaður hjá dótturfélaginu Porsche, muni taka við stöðu Winterkorn hjá Volkswagen. Winterkorn hefur verið forstjóri síðan árið 2007, tveimur árum áður en Volkswagen hóf að selja bíla sem búnir voru svindlkerfinu.
Hvernig svindlaði Volkswagen eiginlega á prófinu?
Samkvæmt Umhverfisráði Bandaríkjanna, og John German, embættismannsins sem komst að hinu sanna, þá vissi tölva bílsins hvenær verið væri að prófa bílinn og hvenær ekki. Svo þegar bílnum var stungið í samband til að reikna útblásturinn minnkaði hann sjálfkrafa. Um leið og bíllinn var svo tekinn úr sambandi 40 faldaðist losunin svo skyndilega.
Ekki er víst hvernig Volkswagen ætlar að tækla vandamálið; það má hugsanlega gera með hugbúnaðaruppfærslu. Hjá bílablaðinu Consumer Reports, sem er virt meðal bílgreina í Bandaríkjunum, benda menn á að bílarnir muni tapa eiginleikum sínum við lagfæringu á vandanum. „Það er mjög líklegt að uppfærsla muni hafa áhrif á eyðslu og eiginleika bílsins,“ segir Jake Fisher, yfirmaður bílprófana hjá blaðinu. Litlir díselbílar geta komist langleiðina að eyðslu bensínknúinna „hybrid“-bíla, svo það er kannski augljóst hvers vegna viðskiptavinir Volkswagen völdu þessa bíla.
The Guardian segir svo frá því í dag að samkvæmt greiningu þeirra á menguninni sem Volkswagen kann að bera ábyrgð á hafi allir þessir 11 milljón bílar blásið nærri milljón tonnum af loftmengandi efnum út í andrúmsloftið á hverju ári. Það sé um það bil jafn mikið og útblástur gróðurhúsalofttegunda frá öllum orkuverum, bílum, iðnaði og landbúnaði á öllu Bretlandi.