Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hefur húðskammað embættismenn í heibrigðismálum vegna COVID-19 faraldursins sem loks hefur náð fótfestu í ríkinu. Helsta gagnrýni Kim beindist að því að apótek hafi ekki verið opin allan sólarhringinn og hefur hann skipað norður-kóreska hernum að dreifa lyfjum til þeirra sem hafa veikst.
Mistök við að útdeila lyfjum sem skyldi má rekja til „embættismanna og heilbrigðisstarfsfólks sem átti að sjá um dreifinguna sem bretti ekki upp ermarnar og viðurkenndi ekki krísuna sem nú stendur yfir,“ hefur ríkismiðillinn í Norður-Kóreu eftir Kim.
Á allt öðrum stað en heimsbyggðin
Á meðan flest lönd eru farin að einbeita sér að lífinu eftir COVID greindist fyrsta COVID-19 smitið í Norður-Kóreu á fimmtudag, um tveimur og hálfu ári eftir að fyrsta smitið greindist í Kína. Sérfræðingar eru þó sannfærðir um að faraldurinn hafi geisað í einræðisríkinu í nokkurn tíma.
Norður-Kóreubúar berskjaldaðir fyrir smiti
Íbúar í Norður-Kóreu eru berskjaldaðir fyrir veirunni. Bólusetningarhlutfall er lágt og heilbrigðisþjónusta takmörkuð.Alþjóðasamfélagið bauðst til að útvega Norður-Kóreu milljónir skammta af bóluefnum, frá kínverskum bóluefnaframleiðanda og AstraZeneca, en yfirvöld í Pyongyang fullyrtu að Norður-Kórea hefði fulla stjórn á faraldrinum með því að hafa lokað landamærum sínum kyrfilega í janúar 2020.
Nú er staðan hins vegar önnur og allsherjarútgöngubanni hefur verið komið á. Ríkismiðlar greina frá því að Kim hafi boðað til neyðarfundar um helgina þar sem hann sakaði embættismenn í heilbrigðiskerfinu um hálfkák og klaufaskap við útdeilingu lyfja. Kim kallaði því til herinn og skipaði honum og dreifa lyfjum í höfuðborginni.
Norður-Kórea á landamæri að Suður-Kóreu og Kína þar sem faraldurinn hefur verið að taka sig upp að nýju. Í Kína snýst baráttan við undirafbrigði ómíkron-afbrigðisins og hefur útgöngubönnum verið komið á í stærstu borgum landsins. Yfirvöld í Suður-Kóreu hafa boðist til að senda hjálpargögn eftir þörfum, þar á meðal bóluefnaskammta, heilbrigðisstarfsfólk og lækningavörur.
Kim hefur ekki þegið boðið en hefur skipað sjálfan sig sem „yfirmann sjúkdómsviðbragða“ og stendur fyrir nær daglegum neyðarfundum sérstaks ráðs um faraldurinn.