Dreifing misvísandi upplýsinga um bólusetningar gegn COVID-19 hefur nú verið bönnuð hjá notendum YouTube. Í færslu frá fyrirtækinu þar sem ákvörðunin er tíunduð segir meðal annars að bólusetningar hafi í gegnum tíðina verið þrætuepli fólks, þrátt fyrir að heilbrigðisyfirvöld tali einum rómi um ágæti þeirra.
Fram til þessa hefur verið bannað að dreifa heilbrigðisupplýsingum og -ráðum sem beinlínis geta haft skaðleg áhrif á fólk. Sú breyting sem nú er gerð á viðmiðunarreglum YouTube snýr að dreifingu misvísandi upplýsinga um bóluefni sem hafa fengið markaðsleyfi og eru talin örugg af heilbrigðisyfirvöldum og Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO). Í áðurnefndri færslu frá YouTube segir að frá því á síðasta ári hafa yfir 130 þúsund myndbönd verið fjarlægð af vef miðilsins sem brjóta í bága við reglur um COVID-19 í skilmálum YouTube.
Fólk geti enn deilt reynslusögum
Spjótin beinast fyrst og fremst að myndböndum þar sem því er ranglega haldið fram samþykkt bóluefni séu hættuleg og valdi langvinnum heilsufarsvandamálum, að fullyrðingum um að bóluefni dragi ekki úr hættu á smiti og að misvísandi upplýsingum um þau efni sem notuð eru í framleiðslu bóluefna.
Nokkrar undanþágur eru gerðar á tali um meint gagnsleysi eða skaðsemi bóluefna. Enn verður hægt að dreifa efni sem fjallar um stefnu stjórnvalda í bóluefnamálum, um bóluefnaprófanir og um bóluefni í sögulegu samhengi – hvort sem þau virkuðu eða virkuðu ekki. Þá verða reynslusögur fólks enn í birtingarhæfar á YouTube svo lengi sem notendur gerist ekki uppvísir af því að sá ítrekað efasemdarfræjum með sögum sínum og að myndböndin fari ekki á svig við aðrar greinar í notendaskilmálum síðunnar.
Robert F Kennedy yngri stórtækur í hræðsláróðri gegn bólusetningum
Í umfjöllun New York Times um málið segir að í kjölfar þessarar skilmálabreytingar hafi verið lokað fyrir aðgang margra áberandi efasemdarmanna að YouTube, manna sem dreift hafa misvísandi upplýsingum í gegnum síðuna.
Þeirra á meðal er Robert F. Kennedy yngri, sem er sonur Robert F. Kennedy, Bobby Kennedy, sem skotinn var til bana árið 1968 en hann var þá í framboði til embættis forseta Bandaríkjanna. Robert Kennedy yngri hefur um árabil barist gegn bólusetningum en hann er á meðal þeirra sem bera mesta ábyrgð á dreifingu misvísandi upplýsinga um bólusetningar og gildi þeirra á samfélagsmiðlum.
Samkvæmt upplýsingum Our World in Data eru 55 prósent Bandaríkjanna nú fullbólusettir.