Oftar en ekki hlakkar í hverjum og einum djúpt þenkjandi tónlistarnirði þegar árið er á enda. Árslok er sá tími er farið er yfir hvað það var sem bar höfuð og herðar yfir annað og hvort árið í ár sé frábrugðið öðrum sem á undan eru gengin.
Sama hvað hver segir þá var árið 2014 hefur verið einstaklega gjöfult og skemmtilegt tónlistarár sem er sneisafullt af útgáfu af úrvalstónlist sem við Íslendingar getum verið mjög stolt af. 2014 var einnig eitt besta tónleikaár sem sögur fara af og báru ansi margar stöðufærslur það með sér að tónlistarunnendur væru gapandi yfir því framboði af tónleikum sem í boði voru á árinu.
Tónlistarsala náði ekki sögulegum hæðum í ár frekar en undanfarin tvö ár og á árinu hafa nokkrar innlendar blaðagreinar birst þar sem útgefendur hafa básúnað áhyggjum sínum af dræmri plötusölu og hefur frasinn „dauði geisladiskins“ ótt og títt fengið að hljóma eða verið birtur í rituðu máli.
Í þessari grein verður stiklað á því ferskasta og skemmtilegasta sem leit dagsins ljós í ár að mati greinarhöfundar Kjarnans, jafnt í útgáfu á tónlist og sem og tónleikum á árinu.
Rokkið varð aftur spennandi og hættulegt
Það er einlægt mat greinarhöfundar að rokkið á Íslandi hefur ekki verið eins beinskeytt í háa herrans tíð eins og í ár. Undanfarin ár hefur verið að grassera galsafengin rokktónlistarsena í skúmaskotum Reykjavíkur og nágrennis. Þetta eru hljómsveitir sem koma til dyrnar eins og þær eru klæddar og þora að tala hreint út, rífa kjaft, rífa niður og gefa skít í hluti og staðalímyndir.
https://www.youtube.com/watch?v=WCqsABla8r8
Í ár varð rokkið aftur spennandi fyrirbæri og á köflum jafnvel hættulegt. Þökk sé ungum hljómsveitum á borð við Börn sem sendi frá samnefnda sjö laga skífu hvössum textum er deila á staðalímyndir nútímans yfir kuldalegt og ögrandi síðpönk. Ein besta tónleikasveit landsins Grísalappalísa sendi í sumar frá sér sína aðra breiðskífu á tveimur árum og toppuðu sig með hinni frábæru Rökrétt Framhald sem í sjálfu sér ber nafn með rentu. Platan ber þó engin merki um erfiða aðra plötu þar sem sveitin betrumbætir sig að öllu leyti.
Pink Street Boys er án efa ein kaldhæðnasta, skítugasta og háværasta rokksveit sem stigið hefur fram á sjónarsviðið í langan tíma. Trash From The Boys kæruleysisleg, beinskeytt og galsafull plata sem gefur flestum og flestu langt nef. Íslenska rokkið aftur orðið sveitt, skítugt og á margan hátt kynþokkafullt eins og það á að vera. Rokkið er orðið verkfæri til að kveða niður flatneskju og ríkjandi meðalmennsku.
Aðrar frambærilegar nýjar rokksveitir eru Oyama, Atónal Blús, Kvöl, Icarus, Godchilla, russian.girls og Mercy Buckets sem allar létu að sér kveða á árinu og gáfu út afbragðs breiðskífur og þröngskífur sem eru ýmist fáanlegar á stafrænu eða físísku formi í helstu plötubúðum landsins.
https://www.youtube.com/watch?v=0KMEAwgB26g
Af öðrum toga eru eldri rokksveitir eins og Sólstafir og Kimono sem báðar sendu frá sér nýtt efni. Sveimmálmsveitin Sólstafir var stofnuð undir miðbik tíunda áratugar síðustu aldar og hafa verið að vaxa jafnt og þétt allan sinn feril enda virkilega metnaðarfull og þrautseig sveit og er Ótta með þeirra betri verkum. Kimono þekkja flestir þenkjandi tónlistarunnendur og sendi hún frá sér eina bestu smáskífu ársins, „Spectres“. Á A-hlið smáskífunnar hefur þríeykið sjaldan verið jafn grípandi og hnitmiðað en heldur þó fast í flækjustigið sem hefur einkennt lagasmíðar þeirra í gegnum árin. B-hliðin inniheldur þeirra útgáfu af einu besta lagi íslenskrar rokksögu, „Rúdolf“ eftir hljómsveitina Þeyr.
Góð tónlist úr öllum áttum
Prins Póló sendu frá sér sína þriðju breiðskífu í ár og er óhætt að segja að 2014 hafi á margan hátt verið þeirra ár. Sorrí inniheldur hvern smellinn af fætur öðrum og má þar nefna lög á borð við „Fallegi smiðurinn“, „Tipp Topp“ og „Bragðarefir“. Prins Póló gerðu líka tónlistina í hinni fínu kvikmynd París Norðursins og er titilag myndarinnar frábært lag sem vakti mikla lukku. Júníus Meyvant er tónlistarmaður úr Vestmannaeyjum og er smáskífan hans „Color Decay“ með betri frumburðum sem heyrst hafa lengi. Júníus hefur vakið einhverja athygli Vestanhafs og er biðin eftir hans fyrstu breiðskífu spennandi.
https://www.youtube.com/watch?v=8XVt7HBtc0k
Teitur Magnússon er þekktastur sem annar söngvari reggísveitarinnar Ojba Rasta.Hann sendi frá sér sína fyrstu sólóskífu undir lok árs og ber hún heitið Tuttugu og sjö. Skífuna vann hann í samvinnu við breska tónlistarmanninn Mike Lindsay og er frábær sýrupoppskífa sem sækir áhrif sín í heimstónlist, skynvillutónlist sjöunda áratugarins og eru lög eins og „Nenni“, „Munaðarhóf“ og „Vinur vina minna“ hreint út sagt frábær. Útgáfa hans af „Háflóð“, lagi Bubba Morthens, einnig glettileg skemmtileg.
Af öðrum framúrskarandi plötum í ár má nefna Innhverfi sem er fyrsta breiðskífa tónlistarmannsins Óbó, Skynvilla hans Futuregrapher, They Hold It For Certain sem er samstarfsskífa Skúla Sverrissonar, Anthony Burr og Yungchen Lhamo. Kippi Kanínus sendi einnig frá sér langþráða breiðskífu sem heitir Temperaments. Low Roar, M-Band og Kiasmos sendu einnig frá sér fínar plötur.
Einstakt tónleikaár
Árið 2014 var stútfullt af frábærum tónleikum og á árinu voru haldnar fjórar stórar tónlistarhátíðir og eru tvær af þeim alþjóðlegar, þ.e. All Tomorrow‘s Parties og Sónar Reykjavík, en með miklu íslensku ívafi.