Líkt og í samantekt undirritaðrar yfir áhugaverðar plötur sem gefnar voru út fyrri part ársins 2014 er af nógu að taka þegar litið er til útgáfa síðari hluta ársins. Hlustið og njótið!
Tony Allen – Film Of Life
https://www.youtube.com/watch?v=OeNCLU_Ho6M
Fyrrum liðsmaður Fela Kuti og einn guðfeðra afró-bítsins sendi frá sér skemmtilega plötu sem heldur þéttingsfast í einkennishljóm Allen en kynnir jafnt til leiks nýjan hljóm hans, til að mynda með samstarfsmönnum á borð við Damon Albarn.
alt-J – This Is All Yours
https://www.youtube.com/watch?v=dCCXq9QB-dQ
Það verður seint sagt um alt-J, eða ∆, að sveitin kunni ekki að semja grípandi jaðarpopplög. This Is All Yours er kannski ekki jafn sneisafull af slögurum og forveri hennar An Awesome Wave, en hún er heilsteyptara verk sem rennur vel í gegn.
Oren Ambarchi - Quixotism
https://www.youtube.com/watch?v=uu11GQL8IQA
Oren Ambarchi lyftir tilraunatónlist á hærra plan með Quixotism, sem samanstendur af fimm pörtum sem meðal annars voru teknir upp í Hörpu ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands og í Japan með goðsögninni Jim O’Rourke. Sjaldan hafa raftónar blandast klassísk á jafn fagran máta.
Aphex Twin - Syro
Endurkoma rafgoðsins Aphex Twin var ein stærsta tónlistarfrétt árins og biðu margir með öndina í hálsinum eftir Syro, hans fyrsta verki síðan árið 2001. Þrátt fyrir háar væntingar féll platan vel í geðið hjá aðdáendum tónlistarmannsins sem er greinilega hvergi nærri hættur.
Ariel Pink – Pom Pom
https://www.youtube.com/watch?v=YS87mPfD_yI
Ariel Pink gefur hljómsveit sinni Haunted Graffiti frí á Pom Pom og heyrist það glöggt á breyttum hljóm á plötunni sem er talsvert frábrugðin plötunum á undan. Það kemur þó ekki að sök; platan er stórskemmtilegur sýru-poppbræðingur eins og forsprakkanum er einum lagið.
Avi Buffalo – At Best Cuckold
https://www.youtube.com/watch?v=jaFh5AqGo0g
Lágstemmdi ljúflingurinn Avigdor Zahner-Isenberg byrjaði að semja tónlist í menntó sem Avi Buffalo. Nokkrum árum og ágætis plötu síðar sendir hann loks frá sér sína aðra plötu. At Best Cuckold er metnaðarfull og flott plata, með skemmtilega texta og sérstaka rödd Avi í forgrunni.
Blonde Redhead - Barragán
https://www.youtube.com/watch?v=lNio2xDwTYg
Hið töfrandi tríó Blonde Redhead hefur sætt gagnrýni fyrir síðustu plötur sínar sem hafa þótt lakari en hinar stórkostlegu Melody of Certain Damaged Lemons og Misery is a Butterfly. Undirrituð er ein þessara gagnrýnisradda og því kom skemmtilega á óvart að heyra Barragán – sem er besta verk sveitarinnar í heil tíu ár.
Bonnie ‘Prince’ Billy – Singer’s Grave a Sea of Tongues
http://youtu.be/tIWWsreneG8
Will Oldham er margt til lista lagt og hefur hann verið iðinn við að spreyta sig á mismunandi tónlistarstefnum í fjölmörg ár sem hann gefur svo jafnan út án þess að auglýsa plötur sínar af einhverju viti. Singer’s Grave a Sea of Tongues samanstendur að miklu leiti af endurgerð laga af plötunni Wolfroy Goes To Town sem kom út árið 2011, en hér öðlast þau betra líf og nýju lögin eru með því betra sem Oldham hefur sent frá sér.
The Budos Band – Burnt Offering
https://www.youtube.com/watch?v=tO8CAjZYAY4
Daptones hljómsveitin Budos Band er í sérflokki þegar kemur að nýstárlegri heimstónlist eins og Burnt Offering er skýrt dæmi um. Á plötunni kemur í ljós dekkri hlið á sveitinni sem fer henni afar vel. Stutt er í tilraunamennsku og spilagleðin er við völd.
Caribou – Our Love
https://www.youtube.com/watch?v=BI2Et19vDCM
Rafsveitin Caribou með Dan Snaith fremst í flokki hefur heldur betur fest sig í sessi. Eftir hina frábæru Swim sem kom út árið 2010 er Our Love engu síðri – jafnvel betri og er þá mikið sagt. Hrikalega ávanabindandi plata með epískum smellum.
Dean Blunt – Black Metal
https://www.youtube.com/watch?v=YQfwPziK-SA
Dean Blunt er með skrítnari tónlistarmönnum okkar tíma. Fyrrum Hype Williams-liðsmaðurinn skrifaði undir samning við Rough Trade fyrir útgáfu Black Metal og er útkoman hreint út sagt mögnuð. Platan er laus við tilgerð og lagasmíðarnar eru einstakar og frábærar í kæruleysislegum búning sínum.
FKA twigs – LP1
https://www.youtube.com/watch?v=3yDP9MKVhZc
FKA twigs er tvímælalaust ein skærasta stjarna ársins og hefur frægðarsól hennar risið afar hratt síðan hún sendi frá sér stuttskífu á síðasta ári. Þó er rauður þráður í fjaðrafokinu – tónlist FKA twigs er óneitanlega hrífandi og ferskur blær inn í rafpoppið sem tröllríður öllu þessa dagana.
Flying Lotus – You’re Dead
https://www.youtube.com/watch?v=2lXD0vv-ds8
Steven Ellison, eða Flying Lotus, sendir frá sér sitt besta verk til þessa með hinni stjörnum prýddu You’re Dead þar sem hann tæklar viðfangsefnið dauðann á sérstaklega vel heppnaðan hátt.
Gooms – Beyond Life
https://soundcloud.com/gooms4life/gooms-trancers
Hin gjörsamlega óþekkta sveit Gooms kemur frá Danmörku og færir okkur kæruleysislegan popprokkbræðing sem minnir á flottar sýrusveitir á borð við Animal Collective. Sveit sem vert er að fylgjast með á næstu misserum.
Jenny Hval & Susanna – Meshes of Voice
https://www.youtube.com/watch?v=FaZo5QK0R4A
Norsku tónlistarkonurnar Jenny Hval, einnig þekkt sem Rockettothesky, & Susanna sameinuðu krafta sína og sendu frá sér hina töfrandi Meshes of Voice. Það er einhver dulúðlegur kraftur í tónlistinni sem þær skapa, sem er ólík flestu sem hefur heyrst áður og eru raddirnar kvennana engu líkar.
Old Man Gloom – The Ape Of God I & II
https://www.youtube.com/watch?v=sF2YF-ySHpw
https://www.youtube.com/watch?v=sF2YF-ySHpwOld Man Gloom er einskonar súpergrúppa harðkjarnasenunnar í Boston og standa undir því nafni. The Ape Of God er ein þéttasta rokkplata ársins. Eða, tvær þéttustu plötur ársins… I & II. Sveitin ákvað nefnilega að rugla í aðdáendum sínum og gagnrýna um leið ólöglegt niðurhal með því að senda fyrst frá sér ranga útgáfu af plötunni fyrir útgáfudag. Hvað sem því líður er tónlistin vel áheyrnarinnar virði.
Pallbearer – Foundations of Burden
https://www.youtube.com/watch?v=LTTt-ikVJSk
Pallbearer feta línu milli hinna ýmsu tónlistarstefna svo úr verður flottur bræðingur metals og sveimrokks. Foundations of Burden er flott plata sem kinkar kolli til forfeðra þungarokksins en setur í leiðinni tóninn fyrir það sem koma skal.
Vashti Bunyan - Heartleap
https://www.youtube.com/watch?v=QJ22AaQAIvY
Vashti Bunyan hefur stundum verið kölluð guðmóðir þjóðlagatónlistar, en saga hennar sem tónlistarkonu er einstök og ættu sem flestir að skoða hana. Heartleap, hennar fyrsta plata í langan tíma, er einstaklega fögur og brothætt – tímalaust meistarastykki.