Þorgeir Tryggvason, Toggi, mun sinna bókaumfjöllun fyrir Kjarnann fram að jólum en margar bækur eru að koma út þessa dagana. Jólabókaflóðið nær svo hámarki í desember.
Guðrún Eva Mínervudóttir
Englaryk
Höfundur: Guðrún Eva Mínervudóttir
Útgefandi: JPV
Þegar trúmál eru til umræðu erum við orðin vön tryllingi. Facebook-froðufellingum og gagnkvæmum ásökunum um óheilindi og heimsku. Fyrirlitningu á báða bóga. Að ógleymdri hinum þreytandi undirliggjandi deilum um hvor aðilinn sé minni máttar og eigi undir högg að sækja. Sumsstaðar flýtur blóð í boði þessara deilna.
Fyrir nú utan þann trúarlega vinkil sem er á átökunum á stærstu vígvöllum nútímans, þó aftur megi rífast um hvort hann er rótin eða felulitirnir.
Það er kannski þess vegna sem hin lágværa stemming Englaryks Guðrúnar Evu Mínervudóttur – tíðindaleysi jafnvel – kemur manni á óvart og veldur jafnvel dálitlum vonbrigðum. Það gekk til dæmis öllu meira á í síðustu bók um trúardeilur í Stykkishólmi, þegar sumir vildu nota sem útikamar nesið sem aðrir höfðu helgað guði sínum.
Það tekur smá stund að stilla viðtækið, eiginlega komst þessi lesandi varla í almennilegt samband við bókina fyrr en að henni lesinni. Því hún neitar að fara.
Við erum stödd í fjölskyldu í lágsemmdri krísu, sem þykist vera hástemmd. Í Stykkishólmi. Dóttirin Alma, á fermingaraldrinum, hefur fengið vitrun. Jesú birtist henni þar sem hún hafði orðið viðskila við fjölskyldu sína í sumarfríi í Cadiz. Síðan reynir hún að fylgja í fótspor hans, og fyrir utan einstaka predikanir og rifrildi við útbrunninn prestinn í fermingarfræðslunni hefur hún stigið vægast sagt róttækt skref. Svo róttækt að fjölskyldan leggst á bekk hjá fjölskyldusálfræðingi í Reykjavík.
Þarna er kominn sögurammi og form sem Guðrún fer vel með, nýtir en lætur aldrei taka af sér ráðin. Við fylgjumst með brasi og hugsunum allra fjölskyldumeðlima (foreldrar, eldri hálfbróðir, yngri bróðir og Alma sjálf) auk þess sem við fylgjumst með heimsóknum þeirra hjá Snæfríði, sem reyndar tengist fjölskyldunni sjálf, á máta sem verður að teljast á gráa siðferðissvæðinu fyrir þerapista.
Og svo gengur lífið fyrst og fremst sinn vanagang. Þetta er bæði mjög venjuleg og óvenjuleg fjölskylda, og þó svo það séu áreynslupunktar í henni þá gæti ég trúað að ansi margir væru tilbúnir að skipta við hana. Hlutir jafna sig, fólk talar saman, nýtur samvistanna. Lífið gengur sinn gang. Þrátt fyrir Jesú, eða kannski á hans vegum, enginn veit. Nema þá Alma. Eða kannski einmitt ekki hún.
Öllu þessu segir Guðrún Eva frá af yfirvegun hins flinka höfundar. Eins og henni gæti ekki verið meira sama um væntingar lesendans til höfundar hryllingsleikhússins í Yosoy eða kynlífsdúkkusmiðsins í Skaparanum. Hún er með sínu fólki í Stykkishólmi, fylgist með hvunndagsbjástri þess og núningnum sem vitrun dótturinnar skapar, en alls ekki bara því. Allir fá sitt pláss, sín verkefni, sína leið í gegnum þessa daga. Þetta er allt mjög sannfærandi og Guðrún Eva vinnur vel með sína “„líkamlegu“, manni liggur við að segja „lífeðlisfræðilegu“ nálgun á tilfinningar:
Sárindin og vonleysið þrengdu að öndunarvegi hennar innan frá, eins og hálsbólga. (bls. 73)
Það fauk í hann en að gerðist svo sjaldan að hann vissi varla hvaða tilfinning það var; þessi málmkenndi, storknandi hiti sem vall um brjóst og höfuð. (bls. 114)
Sögusviðið er vel valið og það er afrek að lýsa og nýta sér andrúmsloft og lífshætti smábæjarins jafn sannfærandi en þó klisjufrítt og hér er gert. Englaryk er ljúf bók um lágstemmd svör við stærstu spurningunum.