Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Þetta gigg fer nú ekkert í sögubækurnar og ég á ekki eftir að muna eftir deginum á dánarbeðinu. En þetta var alls ekkert slæmt svo sem. Krádið var alveg til í að láta skemmta sér en við þurftum aðeins að hafa fyrir því að draga þau í stuðið. Það gekk samt bara alveg ágætlega. Fyrir gigg tékkuðum við á tækjunum okkar. Þessi bilun hjá Böbba frá í fyrradag er enn óútskýrð, tækin virkuðu fullkomlega í dag og það er svo sem ágætt. Það er samt alltaf eitthvað óþægilegt að vita af einhverjum draug í græjunum, eitthvað sem við vitum ekki hvað er og getur þá væntanlega hent aftur. Þetta hékk samt inni í dag. Gott. Við tókum sándið hjá Baldri í gegn og það tók ekki langan tíma. Nú sándar hann eins og ljónið og hefur tekið gleði sína á ný. Það er mjög gott því þegar eitthvað þessu líkt hangir yfir litla bróður mínum verður hann þrúgandi og erfiður gagnvart flestum sem umgangast hann. En þetta er betra svona og nú er þessi nýi tækjakostur farinn að virka mjög svo ljómandi vel. Þvílíkur munur að þurfa ekki að böðlast með risastórar magnarastæður inn og út af tónleikstöðum daglega.
Hákarlinn virðist alltaf gnýsta tönnum.
Ég fékk tónleikaplanið í hendurnar áðan og það var svolítið yfirþyrmandi. Við vorum að klára gigg númer fjögur og þegar maður horfir niður eftir listanum eru djöfull mörg gigg eftir. Ekki að við höfum ekki vitað það fyrir, en að sjá þetta svona á prenti gerir þetta allt miklu stærra. Það verða komin jól þegar við komum heim.
Við áttum frí í gær. Við lentum rútunni í Barcelona í gærmorgun og tókum henni stöðu í þartilgerðri geymslu, svona bílageymslu sem hýsir stóra bíla sem eru á ferðinni. Þetta er svona rútuhótel. Eluveitie-rútan var þar líka en þó hafði helmingurinn af genginu farið á fólkshótel. Þetta gera þau víst gjarnan á frídögum var mér sagt. Rússarnir voru hvergi sjáanlegir og voru líka á gistiheimili skilst mér. Við byrjuðum daginn á því að rölta niður á ströndina sem var skammt frá rútuhótelinu. Við fórum fimm Skálmeldingar, Ég, Baldur bróðir, Þrábi, Johnny og Gben. Flexi og Böbbi höfðu hoppað út úr rútunni áður en við komum á áfangastað til þess að fá sér tattú. Til viðbótar við okkur fimm röltu með okkur Robert og Marci. Þeir tveir fóru í sjóinn, við Íslendingarnir ekki. Ég held að við bara kunnum það ekki. Fljótlega eftir að þeir stukku út í fór reyndar að rigna og þessi strandarferð leystist upp. Við röltum aftur upp í bæ og fundum veitingastað. Vondan veitingastað. Alveg merkilegur andskoti hversu margir í þessum heimi búa til vondan mat og rukka fyrir það. Eftir það skutumst við í verslunarmiðstöð. Ég keypti mér sokka og brækur, sem og tvennar buxur. Mig vantaði fyrst og fremst buxur til að vera í dags daglega á túrnum en að auki fann ég svartar buxur sem mér hugnaðist. Frá upphafi hef ég spilað svartklæddur með Skálmöld en bryddaði upp á þeirri nýbreytni nýverið að spila í grænum. Eins hégómlega og það kann að hljóma hefur það verið hálfundarlegt og jafnvel óþægilegt. Ég vígði nýju spilabuxurnar í kvöld. Þetta er betra svona. Við versluðum allskonar til viðbótar, til að mynda fullt af rauðvíni.
Eftir smávegis stopp í rútunni héldum við í sædýrasafnið hér í borg. Þar fyrir utan hittum við Flexa og Böbbs hvar þeir komu nýflúraðir. Flexi setti sinn klaufabárð á framhandlegginn, Böbbi hinn á öxlina. Jebb, klaufabárðana. Þessa tékknesku sem við horfðum á í sjónvarpinu í æsku. Jón Páll húðflúrmeistari er búsettur hér í borg um þessar mundir og þeir höfðu lænað þessu upp fyrirfram. Ég veit ekki hvað ég get sagt. Vonandi tekur Baldur almennilegar myndir af þessum listaverkum. Þetta er auðvitað algerlega fáránleg aðgerð, en hólífokk hvað þetta er fyndið, snilldarlegt og bara glæsilegt í alla staði. Almáttugur minn!
Sædýrasafnið var bara svona meh. Dýr í búrum, ég veit það ekki. Þetta á ekki við mig. Við sáum samt allskonar, hákarla og skötur og kolkrabba og þorska. Nema sennilega ekki þorska. Við kláruðum þetta örugglega og héldum svo í hverfi þarna rétt hjá sem Jón Páll hafði bent strákunum á. Og þar römbuðum við á veitingastað.
Það hafa sést tanaðari kálfar.
Þau seldu svona einskonar pizzur. Nema ekki alveg pizzur. Svona ferkantaða brauðpramma með allskonar fersku góðgæti á. Við pöntuðum okkur allskonar svoleiðis, sem og sitthvað fleira, kjötmeti, grænmeti og almennt góðmeti. Þetta var allt borið fram af konu á miðjum aldri í fallegum holdum. Hún var með bert á milli og rass sem ég væri alveg til í að prófa að sitja á. Þarna eyddum við þónokkrum tíma því hreint út sagt var maturinn yfirþyrmandi góður. Við náðum að skola niður eins og 4 flöskum af rauðvíni í leiðinni, sem var þó aðeins upphafið. Þvílíkur matur. Ég á eftir að fara þarna aftur, það fullyrði ég. Eftir þessa guðamáltíð röltum við aðeins um þetta fallega hverfi og tókum svo taxa á rútuhótelið. Þar sátum við frameftir kvöldi og drukkum. Rauðvín var þemað. Við töldum 13 flöskur þegar kvöldið var búið og þá lifðum við Böbbi einir. Okkur þótti þá tilhlýðilegt að klára kvöldið tveir inni í rútu og setja hvor í okkur sína þrjá bjórana. Mér er óskiljanlegt að ég hafi verið þó þetta hress í dag. Ég reyndar pissaði á að giska sjálflýsandi rauðu en þar fyrir utan var heilsan góð.
Ég vaknaði fyrir utan tónleikastaðinn upp úr hádeginu í dag og við tókum fljótlega rölt. Hér í kring var ekkert merkilegt og við náðum ekki einu sinni að komast í internet. Þetta gæti orðið svona, bloggfærslum gæti seinkað endrum og eins þegar netsamband er lítið eða ekkert. Svo var bara þetta venjulega, sándtékk með risastóran trommupall í bakgrunni, vondur matur, örlítill blundur í kojunni og gigg. Núna er klukkan hálf12 og við erum allir í rútu nema Böbbi og Baldur. Jón er í koju og les, Þráinn er að spila Angry Birds, Flexi spilar Football Manager, Gunni einhverja nýaldarútgáfu af Space Invaders og ég 2014-útgáfuna af bloggleik Skálmaldar. Robert er sofandi, sem kemur aðeins á óvart því hann hafði hótað því að leggja mjög snemma af stað. Við spilum í Madrid á morgun og þangað er dágóður spotti. Við erum þegar búnir að hlaða dótinu okkar í kerruna og tilbúnir að fara um leið og hann vaknar.
Hér er ekkert stress. Hér er bara gleði og bróðerni og samstaða. Ég ætla ekki sleppa mér lengra í væmnina strax, það eru nokkrar vikur til þess.
Meistaralegt dagsins: Klaufabárðar.
Sköll dagsins: Netleysi.