Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Ég fór bara að sofa gær. Eða nei svo sem ekki, en ég fór í koju. Þegar ég var búinn að horfa á fyrri bíómyndina þurfti ég ægilega að pissa. Klukkan var orðin þónokkuð margt og allir komnir í ró. Ég stökk í skóna og hlassaði mér út á brókinni. Ég komst ekki langt en kastaði af mér þarna undir grindverkinu. Að komast svo að því að ég hefði læst mig úti var ekki góð tilfinning. Ég var alls ekkert tignarlegur þegar ég bankaði á dyrnar á óreimuðum Converse, Onyx-bol og skítugri brók úr H&M. Litli bróðir var sem betur fer ekki sofandi, eða þá laust, og notaði björgunarleiðangurinn til að fara sjálfur út að pissa. Ég horfði aðeins meira og sofnaði svo.
Ég man óljóst eftir ósléttum vegi en annars svaf ég vel, og það fram að hádegi. Þá var ég vakinn af Robert því við vorum komnir. Auðvitað skiptir það venjulega engu og við sofum frameftir enda þótt rúta komi á leiðarenda, en hér í Bratislava er ekki hægt að leggja rútunum nærri tónleikastaðnum. Ræs, aftur í Converse, rusla dótinu inn á staðinn, taka tónleikagallann með sér og horfa svo á eftir rútunni út í tómið. Og allt þetta með stírur í augum.
Hér var ekkert spennandi að vera, það er að segja á tónleikastaðnum sjálfum. Tónleikasalurinn var svo sem ekki slæmur en öll aðstaða var til stakrar ófyrirmyndar. Við sáum það strax og afréðum að labba niður í bæ. Svilar höfðu þá reyndar látið sig hverfa þegar en við hinir fimm fikruðum okkur niðureftir. Það tók kannski gott korter á fæti í gegnum grámann. Já, þetta þykir mér frekar voðaleg borg. Allskonar óskiljanleg mannvirki og skítug og samsetningar sem eru ljótar. Þetta skánaði þó helling þegar við náðum alla leið og hinn litli miðbær er alveg sæmilega krúttlegur. Við ultum inn á mexíkóskan veitingastað. Þar komumst við á net sem sagði okkur að hann fengi vægast sagt slæma dóma á Trip Advisor. En þá vorum við búnir að panta bjórinn. Fokkitt, við pöntuðum okkur rif, og sumir eitthvað annað. Mexíkósk rif með salsa. Pínu fyndin blanda en á endanum voru allir hæstánægðir með matinn. Og þá var dagurinn kominn af stað. Við röltum aðeins þarna um, skoðuðum helstu torg og ána. Dóná, er það ekki? Nei nú verð ég að lesa mér til, þessi vanþekking mín er orðin skammar- og átakanleg. Svo auðvitað styttist bara í sándtékk og við rétt náðum einum Irish Coffee í kuldanum áður en við röltum til baka.
Sándtékkið var alls ekkert á réttum tíma. Rússarnir taka óskaplegan tíma í að koma sér fyrir og slógu sennilega öll met í dag. Þetta hávaðabrask þeirra hvern einasta dag er farið að fara í taugarnar á öllum og þau voru aðeins látin heyra það í dag. Gítarsarg í klukkutíma er ekki sándtékk. Það er einhverfa. Við afgreiddum okkar svo bara í snatri undir styrkri handleiðslu Flexa. Svo kom matur í svona dökkgulum frauðboxum. Það eru nú umbúðir sem drepa alla löngun til næringar, en þetta slapp svo sem fyrir horn. Og svo var gigg.
Og....fá sér!
Við höfum aldrei spilað hér áður og því voru áhorfendur svolítið opinmynntir. Þetta var alveg týpískt baráttugigg, við þurftu að byrja á því að sannfæra alla um að nú væri gaman og svo um að lífið væri frábært. Og það gerðum við vel, og sennilega sjaldan betur. Við fengum alla með okkur. Þetta var alveg brjálað og Baldur vildi meina að við hefðum varla spilað betur á túrnum. Það er svona. Þrátt fyrir sex vikur af því sama, slark og voða, misjafna daga og þá heimþrá sem nú er allsráðandi skilum við alltaf giggum sem er betra en giggið í gær. Það er alveg magnað og ótrúlegt og gerir Skálmöld þessi virði að taka þátt. Aldrei slaka á!
Ég gat ekki verið þarna í hinu agnarsmáa bakherbergi og braust gegnum fólkið til að komast út. Þá strax staðfestist það sem ég hafði fengið á tilfinninguna í dag. Hér er kúltúrinn agressífur. Að mér veittist fólk úr öllum áttum, ekki endilega til í að tala tungumál sem ég skildi en þeim mun meira sitt eigið. Það er svo sem gott og blessað, maður hittir á allskonar tungumálahindranir í þessu braski. En hér voru margir yfirþyrmandi og frekir. Sem dæmi er þetta í fyrsta skipti á okkar túrsögu sem ég man eftir að því að hafa fengið skeggkippi. Mitt síða skegg vekur oft athygli og sumir koma við án þess að fá formlegt leyfi. Gott og blessað. En hér togaði fólk. Og fleiri en einn og fleiri en tveir. Það fór ekkert mjög vel í mig. Ég hefði sennilega átt að rífa í hárið á þeim á móti.
Þegar Arkona kláruðu tókum við stutt mingl við fólk og auðvitað voru langflestir afsakaplega almennilegir og skemmtilegir. En á þessu örlaði, svona dólgshætti sem ég man eftir af íslenskum sveitaböllum örlí næntís. En já, slökum á pirringnum, hér voru langflestir fallegir, vitanlega. Meðan Eluveitie spiluðu settumst við á hliðarpöbb á tónleikastaðnum og drukkum alveg einstaklega ódýran bjór, og ljómandi góðan. Robert og Flex höfðu stungið af á kaffihús eftir okkar gigg en sameinuðust okkur þarna. Og svo var foosball. Í stuttu mál sigruðu svilar okkur bræður þrjú eitt. En það var fyrra ránd. Seinna rándið sigraði Robert alla hina með öllum stigunum gegn blautum mannaskít. Ég vissi ekki að það væri hægt að vera svona góður í þessu. Hann á víst einhverja fortíð sem hjálpaði til við þetta, en fyrr má nú vera. Hann hló að okkur öllum.
Eftir að Elu kláraði fengum við pizzur að borða. Mjög kærkomið. Svo rusluðum við græjunum okkar gegnum fólkið og út í bílinn sem Robert var þá nýbúinn að sækja. Þá tók sami slagurinn við, synda gegnum ókurteist og ofurölvi mannhaf sem meig utan í rútuna okkar og var með fylleríisleiðindi. Ég var orðinn svo pirraður eftir þetta allt að ég flúði inn í rútu og beint upp í kojuna mína. Og þar er ég núna. Við erum nýlagðir af stað og klukkan er 1.33. Við spilum í Austurríki á og morgun og hinn og það eru tvö síðustu giggin á túrnum. Á morgun er það Vín. Þangað eru skitnir 80 kílómetrar. Við erum samt stopp akkúrat núna svo kannski að ég hoppi fram úr, út, og pissi. Þeir eru að spila Kana þarna frammi. Æi, ég sennilega held bara fýlunni áfram og fer að sofa. Eða ekki.
Meistaralegt dagsins: Frábært gigg.
Sköll dagsins: Skeggtos.